Við Björn Bjarnason eigum fleira sameiginlegt en að hafa verið í sveit á Reynistað í Skagafirði. Við erum báðir ritskoðaðir af Nató. Starfsmaður bandalagsins í Afganistan, Börkur Gunnarsson, fær ekki að komast inn á heimasíður okkar félaga. Vinnuveitandinn bannar það. Mér finnst Birni sýnd ótrúleg virðing með þessu banni. Ég á það hins vegar skilið. Hef oft bent á, að Nató sé dauðans matur. Hef vísað fólki á bækur, sem ljóstra upp um spuna og lygar Nató á síðustu árum. Engin stofnun, fyrirtæki eða ríki heims slær Nató við í því. Alþjóðasamband ritstjóra gaf út sérstaka bók um það.