Bítum á jaxlinn við Kröflu.

Greinar

Dálítið er undarlegt að tala um orkukreppu á eldhnetti, þar sem þunn skurn skilur á milli lífsins á yfirborði jarðar og hinnar gífurlegu orku, sem undir býr. Ekki sízt er orkukreppa sérkennileg á Íslandi, þar sem skurnin er með þynnsta móti.

Við höfum undanfarna áratugi þreifað okkur áfram við að nýta útjaðra þessarar orku, fyrst til hitaveitu og síðan til rafmagnsframleiðslu. Hitaveita Reykjavíkur er stóra ævintýrið í þessari þróun og virkjun Kröflu er djarfasta atrennan.

Okkur hefur gengið vel að nýta lághitasvæðin. En Krafla er háhitasvæði, sem hefur bakað okkur margvísleg tæknivandamál, er enn hefur ekki tekizt að leysa. Samt megum við ekki láta deigan síga.

Við höfum farið hvatvíslega að ráði okkar við Kröflu. Líklega hefðum við getað varið sextán milljörðum á skynsamlegri hátt í tilraunum til að ná tökum á háhitasvæði. En sextán milljarðarnir eru farnir og orkuverið er komið.

Þess vegna er Krafla okkar tilraunastöð í baráttunni við erfiðleika háhitasvæða. Þar getum við smám saman lært, hvernig eigi að bora eftir orku og hvernig eigi að ganga frá borholunum, svo að dugi til varanlegrar nýtingar.

Ef okkur tekst að finna tækni til að ráða við heljarafl háhitasvæða, er orkubúskapur okkar á framtíðarvegi. Nokkrir milljarðar eru smávægilegur herkostnaður í þeirri viðleitni. Þess vegna megum við ekki gefast upp á Kröflu.

Mannsandinn hefur leyst alls kyns erfiðan tæknivanda, þegar áherzla hefur verið lögð á það. Borun eftir olíu úti á rúmsjó er margfalt erfiðari en borun á landi. Samt hefur hún tekizt svo vel, að neðansjávarolía rennur nú í stríðum straumum til hreinsunarstöðvanna.

Við vorum of léttlyndir, þegar ráðizt var í virkjun Kröflu. Við vitum núna, að slíku verkefni fylgja ótalin vandamál, sem við þekktum ekki á lághitasvæðunum. Þá dugir ekki að setjast í sekk og ösku.

Í rauninni er Krafla fyrst og fremst pólitískt vandamál. Þar fóru alþingismenn Norðurlands offari á sínum tíma. Nú hefur dæmið snúizt við. Alþingismenn mega vart heyra Kröflu nefnda. Þeir strika boranafé til Kröflu úr fjárlagafrumvörpum.

Svona láta skynsamir menn ekki, þótt mistök hafi verið gerð. Það dugir ekki að fá Kröflu á heilann, þótt illa hafi gengið til þessa. Við höfum þrátt fyrir allt fengið nokkuð fyrir sextán milljarðana.

Við verjum núna á hverju ári tvöfaldri þeirri upphæð til styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna í landbúnaði. Það gerum við ekki til að byggja upp efnahagslega framtíð, heldur til að tefja fyrir þróun til arðbærari atvinnuhátta.

Hví skyldum við þá sjá eftir sextán milljörðum til athafna, sem hafa fært okkur dýrmæta og auðvitað þungbæra reynslu í öflun orku. Við vitum nú miklu meira á því sviði en við vissum, þegar ráðizt var í virkjun Kröflu.

Íslenzkir vísindamenn heima og erlendis, svo og erlendir ráðgjafar, hafa lagt fram tillögur um, hvernig megi læra af reynslunni við Kröflu og hvernig megi þar feta sig smám saman í átt til sigurs.

Við höfum tillögur um breytta og bætta tækni við borun, hreinsun og fóðrun. Við þurfum að prófa þær, reka okkur á nýjan vanda og leysa hann. Og við höfum tilraunastöð við Kröflu.

Á tímum orkukreppu er það stórkostlegt ævintýri að bíta á jaxlinn og berjast til sigurs á háhitasvæðunum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið