Nokkrir kaupsýslumenn og embættismenn hafa sent ríkisstjórn og utanríkismálanefnd alþingis bænarskjal um, að samþykktur verði við Sovétríkin samningur um efnahagssamvinnu, er hafi hina fræga Helsinkisamning að leiðarljósi.
Orðrétt segir í upphafi efnahagssamningsins, að ríkisstjórnir Íslands og Sovétríkjanna hafi “að leiðarljósi ákvæði lokasamþykktar ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem undirrituð var í Helsinki 1. ágúst 1975″.
Menn muna ef til vill enn að tæpum sjö árum liðnum, að í Helsinki-samningnum var meðal annars fjallað um frelsi fólks og hugmynda til að fara yfir landamæri, Sovétríkjanna og ríkja Austur-Evrópu jafnt sem annarra.
Samningur þessi er frægastur fyrir, að engan annan hafa Sovétríkin brotið jafn hrikalega á skömmum tíma. Þar hefur frá 1. ágúst 1975 verið þrengt mjög að möguleikum pólitísks utangarðsfólks á að flytjast úr landi.
Frá undirritun Helsinki-samningsins hefur líka verið þrengt mjög að straumi hugmynda yfir landamæri Sovétríkjanna. Skipulega hafa verið teknir úr umferð allir Sovétmenn, sem vildu fylgjast með efndum á þessum sama Helsinki-samningi.
Dæmigert fyrir hugmyndastífluna á landamærum Sovétríkjanna er, að sovésk skoðanasystkini friðarsinna á Vesturlöndum hafa skipulega verið tekin úr umferð, sennilega á þeim forsendum, að ríkisstjórnin þar sé einfær um friðarstefnuna.
Í ljósi harmsögu Helsinki-samningsins má ef til vill líta á það sem þáttaskil, að nokkrir kaupsýslumenn og embættismenn á Íslandi skuli að sjö árum liðnum mæla með því, að ríkisstjórn Sovétríkjanna hafi Helsinki-samninginn að leiðarljósi.
Raunar er hin umrædda setning í uppkasti efnahagssamningsins við Sovétríkin ekki þangað komin fyrir mannréttindahugsjónir íslenzkra kaupsýslu- og embættismanna, heldur að undirlagi Kremlverja eins og uppkastið í heild.
Kremlverjar hafa unun af því að koman slíku ástarhjali í hvers kyns óskylda samninga, rétt svona til að troða því niður í kok á útlendingum, að svart skuli vera hvítt eftir mati Kremlverja á aðstæðum hverju sinni.
Engin ástæða er fyrir ríkisstjórn Íslands að nudda sér utan í Helsinki-samninginn með þessum hætti, nema nánar væri útskýrt, hvernig Kremlverjar hygðust bæta fyrri brot sín og koma í veg fyrir fleiri slík.
Að öðrum kosti stendur málsgreinin í uppkasti efnahagssamnings ríkisstjórna Íslands og Sovétríkjanna eins og nakin ögrun, lélegur brandari eða hnefahögg í andlit þeirra, sem eru eru að væla um, að Sovétríkin eigi að standa við samninga.
Auðvitað eiga Íslendingar að stunda viðskipti við Sovétríkin eftir efnum og ástæðum, en einkum þó í svo miklu hófi, að ekki sé hætta á pólitískum eða hernaðarlegum þrýstingi, sem er sérgrein Kremlverja í viðskiptum og efnahagssamvinnu.
Sumir kaupsýslumenn hafa mikinn áhuga á viðskiptum við Sovétríkin og mega gjarna koma fram sem þrýstihópur í því skyni. Hitt er furðulegra, að embættismenn úr viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og seðlabanka séu í þeim þrýstihópi.
Það er verkefni þrýstihópa úti í bæ að senda bænarskrár til alþingis og ríkisstjórnar. Þær skrár mega gjarna biðja um bull í viðskiptasamningum. En það er ekki verkefni opinberra embættismanna að undirrita bænarskrár þrýstihópa.
Jónas Kristjánsson.
DV