Bezta ferðamannavörnin

Greinar

Svíar hafa lokað hinum opinberu ferðaskrifstofum sínum í London, París, Amsterdam og Bonn og eru í þann veginn að loka í Frankfurt. Þeir eru hættir að reka áróður fyrir Svíþjóð sem ferðamannalandi. Þeir hafa uppgötvað, að ferðamennirnir í landinu eru orðnir svo margir, að ekki er lengur pláss fyrir heimamenn á baðströndunum. Og þeir vilja heldur missa gjaldeyristekjur en missa baðstrendurnar.

Vandamál Svía á þessu sviði er einkar athyglisvert fyrir Íslendinga. Við höfum enn sem komið er lítil vandamál af ferðamönnum, en þurfum samt að fara gætilega, því að þeim fjölgar ört með ári hverju. Við þurfum alls ekki að skrúfa fyrir ferðamannastrauminn eða hætta að auglýsa landið eins og Svíar eru að reyna að gera. En við verðum að reyna að hindra, að við þurfum að grípa til slíkra örþrifaráða í framtíðinni.

Ein lífsgæði erum við þegar að missa úr höndum okkar, laxveiðina. Hún er orðin umtalsverður þáttur i gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Um leið er hún orðin of dýrt sport fyrir flesta Íslendinga. Fleiri lífsgæði kunna að fara sömu leið, ef við gætum okkar ekki.

Ágangurinn á sumum helztu ferðamannastöðunum er orðinn gífurlegur. Hin viðkvæma náttúra þolir ekki alls staðar þessa umferð. Landmannalaugar eru eitt greinilegasta dæmið. Þar hefur gróðri verið spillt stórlega á allra síðustu árum. Og nú horfir þar í hreint óefni.

Útlendir ferðamenn eru í sjálfu sér ekkert hættulegri náttúru landsins en innlendir ferðamenn. En þeir koma fram sem viðbót í áganginum, kornið, sem fyllir mælinn.

Við þurfum að verja töluverðu fé, og það sem allra fyrst, til að vernda þessa ferðamannastaði. Koma þarf upp mun betri hreinlætisaðstöðu en nú er, leggja gangstíga um svæðin, hreinsa rusl, setja upp áminningarskilti um góða umgengni, hindra kraftalæti jeppaeigenda, sá og bera í þau svæði, sem sparkast upp. Og síðast en ekki sízt þurfum við að vera árvöknlir á öllum stöðum.

Með slíkum hætti má eflaust vernda staði eins og Landmannalaugar, Þórsmörk, Þingvelli og Mývatn auk margra annarra staða, þannig að fleiri ferðamenn geti gengið þar um, án þess að spilla stöðunum. Með slíkum hætti er unnt að forðast eða að minnsta kosti fresta því, að við þurfum að grípa til sömu neyðarráðstafana og Svíar hafa þurft að gera.

Ekkert virðist eðlilegra en, að hinir erlendu ferðamenn greiði kostnaðinn við þetta að verulegu eða öllu leyti. Það er óskemmtilegt og umstangsfrekt að selja inn á ferðamannastaðina. Miklu hreinlegra er að taka sérstakt náttúruverndargjald af hverjum ferðamanni, sem kemur til landsins. Þetta gjald mætti innheimta við passaskoðun.

Eitt þúsund króna gjald á hvern ferðamann, sem kemur til landsins, er tiltölulega hófleg upphæð. Frá 80.000 erlendum ferðamönnum á ári mætti þá fá 80 milljónir króna á ári til verndunar helztu ferðamannastaða landsins. Fyrir það fé mætti ráða marga eftirlitsmenn og bæta stórlega bæði aðstöðu ferðamanna og umhverfisverndun á þessum stöðum.

Þetta er ráð í tíma tekið.

Jónas Kristjánsson

Vísir