Ástæða er til að vara þjóðina við hugmyndum stjórnmálamanna um beina samninga ríkis og landbúnaðar. Þegar stjórnmálaflokkarnir eru meira eða minna sammála um eitthvað, er áreiðanlega hætta á ferðum.
Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi lá svo mikið á beinum samningum við þrýstihópa landbúnaðar, að þeir vildu setja bráðabirgðalög um slíka samninga, svona rétt áður en Alþingi á hvort sem er að koma saman.
Alþýðuflokkurinn rakst illa í þeasu samstarfi, enda með í smíðum eigið frumvarp um landbúnað. Var þá gripið til þess ráðs að skipa nefnd allra flokka, einnig stjórnarandstöðunnar, til að flýta hagsmunum landbúnaðar.
Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki eru beinir samningar ekki á móti skapi. Hið síðara kemur ekki á óvart, því að vegna Ingólfs Jónssonar ber Sjálfstæðisflokkurinn verulega ábyrgð á offramleiðslu of dýrrar búvöru.
Allir keppast um að segja svonefnda Sexmannanefnd úrelta. En hið eina, sem hefur í rauninni gerzt, er, að sauðargæran hefur fallið af nefndinni. Hin meinta aðild neytenda að nefndinni hefur reynzt marklaus.
Steingrímur Hermannsson landbúnaðarráðherra reyndi þó að verja síðustu hækkun búvöru umfram aðra verðbólgu með því að segja, að hún væri afleiðing svokallaðra frjálsra samninga bænda og neytenda í Sexmannanefnd.
Þótt nú hafi verið flett ofan afþessu svindli og sýnt fram á misnotkun orðsins “neytendur” í þessu samhengi, er ekki þar með sagt, að Sexmannanefnd hafi gengið sér til húðar. Það þarf bara að laga hana.
Í stað bitlingakarla frá samtökum sjómanna og iðnaðarmanna er engan áhuga hafa á að gæta hagsmuna neytenda, þarf að skipa í Sexmannanefnd raunverulega fulltrúa neytenda, til dæmis frá Neytendasamtökunum.
Þar með væri ákvörðun búvöruverðs komin í þær skorður, sem samkvæmt laganna hljóðan var ætlazt til, þegar lög voru sett um Framleiðsluráð landbúnaðarins og Sexmannanefnd. Þá væru frjálsir samningar ekki marklaus bókstafur.
Stjórnmálaflokkarnir vilja hins vegar ekki lækna Sexmannanefnd með slíkum hætti. Þeir vilja koma á beinum samningum ríkis og landbúnaðar án afskipta gervineytenda eða raunverulegra neytenda. Það er líka þægilegra fyrir þá.
Auðvitað mætti búast við, að raunverulegir fulltrúar neytenda mundu vera með uppsteyt. Þess vegna vilja stjórnmálaflokkarnir taka búvöruverðið að öllu leyti inn í kerfið og afgreiða þar hækkanir í friði og spekt.
Ekki er víst, að bændur bafi hag af þessari þróun mála. Síðasta hækkun búvöru mun vafalaust draga úr sölu innanlands og magna birgðir, sem ekki er hægt að gefa úr landi, þar sem útflutningsuppbætur hrökkva ekki til.
Þegar baggi landbúnaðar á ríkissjóði er kominn í 30 milljarða á ári, án þess að högg sjái á vatni, er kominn tími til raunhæfari aðgerða en þeirra að setja bráðabirgðalög um formlega útilokun neytenda frá búvöruverði.
Þess vegna ættu fulltrúar stjórnmálaflokkanna í hinni nýju landbúnaðarnefnd að hverfa frá hugmyndum um beina samninga ríkis og landbúnaðar. Í stað þess ættu þeir að leggja til, að fulltrúar frá Neytendasamtökunum taki við í Sexmannanefnd.
En því miður beinast áhugamál stjórnmálaflokkanna í annan farveg.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið