Verðlagsstjóri hefur staðfest með greinargerð, að Björgvin Guðmundsson, formaður verðlagsnefndar, fór með rangt mál fyrir dómi, þegar hann hélt því fram, að verðlagsstjóri hefði lagt fram samandregnar niðurstöður um afkomu dagblaðanna fyrir verðlagsnefnd.
“Ég lagði þessa beiðni fyrir nefndina án þess að gera grein fyrir afkomu blaðanna eða gera tillögu um afgreiðslu beiðninnar”, segir í greinargerð verðlagsstjóra. Þar með virðist orðinn marklaus málarekstur verðlagsnefndar á hendur dagblöðunum, sem ekki fylgdu niðurskurði hennar.
Það er ekki aðeins ljóst, að verðlagsnefnd fór ekki að lögum um starfshætti nefndarinnar, þegar hún tók ákvörðun sína. Björgvin Guðmundsson hefur einnig viðurkennt fyrir dómi, að hann starfi í nefndinni sem umboðsmaður viðskiptaráðherra, bæði í þessu máli sem öðrum.
Niðurskurðurinn á verði dagblaðanna var því óvefengjanlega geðþóttaákvörðun þess ráðherra, sem mest hefur hampað ást sinni á dagblöðunum. Hræsni hans endurspeglast í ummælum umboðsmannsins, sem sagðist fyrir dómi hafa óttazt, að of hátt verð dagblaða kæmi niður á sölu þeirra!
Dagblaðið hefur haldið því fram, að stjórnarskrárbrot ráðherrans stafi af þeirri austantjaldsstefnu hans, að dagblöð skuli ekki greidd af viðskiptavinum þeirra heldur af ríkinu. Hann ráðgerir nefnilega að stórauka ríkisstyrki til flokksblaða. Þannig hyggst hann bæta þeim upp tekjumissinn.
Þegar ráðherra sker með annarri hendi niður verð á dagblaði utan flokka og styrkir með hinni dagblöð stjórnmálaflokkanna, er hann að berjast gegn skoðanafrelsi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið