Max Boot segir í New York Times, að Bandaríkin þurfi nú á Sameinuðu þjóðunum að halda, þótt þau hafi hunzað þær við undirbúning stríðsins gegn Írak. Þau hafi ekki ráð á að borga fjóra milljarða dollara á mánuði til að halda uppi 150.000 manna herliði í Írak og hafi ekki mannafla til að leysa þreytulegt setuliðið af hólmi. Frakkar, Þjóðverjar og Rússar, Indverjar, Egyptar og Tyrkir neita að taka þátt, nema Sameinuðu þjóðirnar samþykki. Boot segir, að kominn sé tími fyrir Bandaríkjastjórn að brjóta odd af oflæti sínu og taka Sameinuðu þjóðirnar í sátt.