Einkar athyglisverð er þögn Carters Bandaríkjaforseta um villimannlegt framferði skjólstæðingsins Somoza í Nicaragua. Það voru einmitt bandarískar landgöngusveitir, sem komu Somoza og glæpaflokki hans til valda árið 1933. Æ síðan hefur Bandaríkjastjórn stutt Somoza og borið á honum fulla ábyrgð.
Það er ekki borgarastyrjöld, sem hefur geisað í Nicaragua. Þar barðist öll þjóðin gegn Somoza og 8000 glæpamönnum hans. Sósíalistar og íhaldsmenn, verkalýðssinnar og kirkjunnar menn, atvinnurekendur og menntamenn eru allir harðir andstæðingar glæpaforingjans, sem lætur myrða unglinga í skjóli Bandaríkjanna.
Framferði hinna 8000 glæpamanna minnir ekki í neinu á harðvítuga borgarastyrjöld. Þeir eru eins og útlendir hermenn í hötuðu óvinaríki. Illa vopnaðir borgarar landsins, allt frá börnum til gamalmenna, hafa barizt hetjulegri baráttu gegn villimönnum Somoza, en án árangurs að þessu sinni. Somoza hefur eytt bæ eftir bæ á grimmilegasta hátt og er enn í valdasessi.
Staðreyndin er sú, að Nicaragua er einkaeign Somozas og að þjóðvarðliðið er einkaher hans. Í 42 ár hefur þessi ræningjaflokkur kúgað þjóðina og misþyrmt henni, allan tímann á fullri ábyrgð Bandaríkjanna.
Einn af leiðtogum íhaldsmanna í Nicaragua sagði nýlega, að Somoza væri síðasti bandaríski landgönguliðinn í Nicaragua. Þessi ummæli sýna ljóslega, hversu einangraðir hagsmunir Bandaríkjanna og Somozas eru í landinu.
Vandi Somozas er sá, að hann verður að myrða alla borgara landsins til að tryggja sig í sessi. Það getur hann ekki og því hlýtur hann fyrr eða síðar að velta úr stóli. Nú hafa nær allar fjölskyldur landsins eignazt sína píslarvætti og baráttan mun halda áfram af auknum krafti undir niðri.
Harmleikurinn í Nicaragua minnir á hina ógnarþungu ábyrgð, sem Bandaríkin bera á ekki bara flestum, heldur öllum einræðisherrum Mið- og Suður-Ameríku. Kúba og Perú eru bara afleiðingar af yfirgangi Bandaríkjanna í álfunni.
Nokkuð hefur kólnað milli Bandaríkjastjórnar og glæpaforingjanna, sem ráða Chile, Argentínu og Brasilíu. Þar hafa skjólstæðingar Bandaríkjanna farið yfir mörkin og vilja ekki lengur hlusta á tilmæli um heldur minni kúgun landsmanna.
Þetta rýrða taumhald Bandaríkjastjórnar á ýmsum glæpaforingjum breytir ekki þeirri staðreynd, að hún ber á þeim fulla ábyrgð. Áratugum saman hefur hún leynt og ljóst, hernaðarlega og fjárhagslega, stutt til valda öfgafyllstu hægrimennina úr röðum herforingja.
Umboðsmenn Bandaríkjastjórnar á Íslandi hafa stundum reynt að þvo hendur Bandaríkjanna af þessum málum með ýmsum útúrsnúningum, sem eru ekki annað en gróft vanmat á skilningi íslenzkra viðmælenda. Vonandi þurfa menn ekki að þola slíka “brandara” í framtíðinni.
Framkoma Carters Bandaríkjaforseta gagnvart borgurum Nicaragua í síðustu þrengingum þeirra er því miður dæmi um, að enn virðist Bandaríkjastjórn líta á glæpaforingja Suður- og Mið-Ameríku sem sína vini.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið