Bandamenn

Greinar

Í umræðum dagblaða um misjafna hækkun þeirra um síðustu mánaðamót hafa sézt gagnrýniverðar fullyrðingar. Alvarlegust eru röng ummæli Harðar Einarssonar, stjórnarformanns Vísis, um, að ríkið kaupi “ákveðinn blaðafjölda” af Dagblaðinu eins og af öðrum dagblöðum.

Á fjárlögum hvers árs er sérstakur liður: “Til blaða”, sem notaður er til kaupa á “ákveðnum blaðafjölda” af hinum flokkspólitísku dagblöðum, til dreifingar í sjúkrahús og ýmsar aðrar stofnanir.

Blaðafjöldinn, sem keyptur er með þessum hætti, hefur sveiflazt frá 200 eintökum upp í 450 af hverju flokksblaði. Ekki er ljóst, hve mikill þessi eintakafjöldi verður í ár, því að hann hefur oft verið hækkaður í árslok.

Það eru Alþýðublaðið, Morgunblaðið, Tíminn, Vísir og Þjóðviljinn, sem borguð eru af þessu fé. Aldrei hefur eitt einasta eintak af Dagblaðinu verið keypt með þessum kerfisbundna hætti.

Hitt er svo annað mál, að Dagblaðið er keypt á óskipulegan hátt á ýmsum stöðum í kerfinu, af því að embættismenn þurfa á blaðinu að halda til að fylgjast með. Það eru kaup á hinum frjálsa markaði.

Enda segir Einar Karl Haraldsson, fréttastjóri Þjóðviljans, um hin skipulögðu kaup á flokksblöðum: “Með því að ákveða blaðakaup á fjárlögum er reynt að koma í veg fyrir, að forstöðumenn stofnana mismuni dagblöðunum eins og greinilega hefur orðið vart.”

Ef embættismenn mættu sjálfir ráða, mundu þeir kaupa “sitt” blað og Dagblaðið. Nú fá þeir hins vegar skæðadrífu af dagblöðum, sem þeir kæra sig ekki um. Þannig kaupir ríkið eintök af Alþýðublaðinu, Morgunblaðinu, Tímanum, Vísi og Þjóðviljanum, sem annars mundu ekki seljast á frjálsum markaði.

Þessi ríkisstyrkur fer því algerlega framhjá Dagblaðinu eins og aðrar tegundir ríkisstyrkja til flokkspólitískra dagblaða. Þess vegna lifir Dagblaðið eingöngu á hinum frjálsa markaði og þarf á hverjum tíma að vera verðlagt í samræmi við verðbólguna. Hin blöðin geta að meira eða minna leyti bætt sér upp bann við hækkunum með skattpeningum úr ríkissjóði.

Annað atriði, sem getur reynzt málstað Dagblaðsins hættulegt, er stuðningur Morgunblaðsins í orði. Margir gætu haldið, að þetta sé merki þess, að málstaðurinn sé rangur. En þeir mega ekki gleyma, að í verki styður Morgunblaðið málstað Svavars Gestssonar viðskiptaráðherra.

Kjarni málsins er sá, að viðskiptaráðherra Alþýðubandalagsins vill láta hið opinbera ná betri tökum á dagblöðunum, eins og það hefur nú þegar á útvarpi og sjónvarpi. Það gerir hann með því að banna eðlilegar hækkanir vegna verðbólgu og veifa um leið hugmyndum um margvíslega ríkisstyrki framan í aðstandendur dagblaðanna.

Þegar ráðherrann gerir tvennt í senn; að knýja fram taprekstur á dagblöðum og að undirbúa stórfellda aukningu ríkisstyrkja til dagblaða, er hann auðvitað að berjast gegn prentfrelsi í landinu.

Frjáls pressa á við slíkar aðstæður um tvennt að velja. Annað hvort gengur hún í náðarfaðm samtryggingar stjórnmálaflokkanna. Eða þá að hún brýzt undan verðkyrkingu viðskiptaráðherra í þeirri von, að dómstólar hafi ekki alveg gleymt grundvallaratriðum lýðræðisríkja.

Dagblaðið hefur valið síðari leiðina.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið