Author Archive

Frækilegt Íslandsmet

Greinar

Kræfasti skylmingamaður ríkisstjórnarinnar er fjármálaráðherrann, sem segir fullum fetum, að svart sé hvítt og hvítt sé svart og að önnur sjónarmið séu bara rugl eða skepnuskapur úr DV. Í ráðuneytinu endurtekur sölustjóri ráðherrans þetta með minni tilþrifum.

Rök ráðherrans og upplýsingafulltrúans eru þau, að skattahækkanirnar staldri ekki við í ríkissjóði, heldur renni jafnóðum til brýnustu nauðsynja borgaranna, hvort sem þær felast í feitu kjöti eða smjöri. Samkvæmt þessu tekur ríkið raunar alls enga skatta af fólki!

Óneitanlega eru þetta skemmtilegri fullyrðingar en nöldur málsvara Sjálfstæðisflokksins um, að gagnrýnendur geti ekki í senn heimtað hallalaus fjárlög og engar skattahækkanir. Þessi rök fótgönguliðsins eru orðin ósköp slitin og hæfa vel öldnum stjórnmálaflokki.

Fjárlög og ríkisrekstur má hafa án halla með því að hækka skatta og einnig með því að lækka útgjöld. Menn geta því hafnað halla og skattahækkunum í senn, ef þeir þora að benda á, hvaða útgjöld megi skera niður. Og svo vel vill til, að af nógu slíku er að taka.

Landbúnaðurinn á að fá til sín tæpa sex milljarða króna á næsta ári. Það er meira en tvöföldun milli ára. Þessi þurftarfreki ómagi á að gleypa tæplega tíunda hlut útgjalda ríkisins á næsta ári. Ríkisbúskapurinn snýst raunar um þennan þjóðlega félagsmálapakka.

Fólk grætur hástöfum út af smápeningum, sem hafa runnið til ævintýra á borð við Kröflu og Leifsstöð og jafnvel smáaurum, sem hafa runnið til minni háttar ævintýra á borð við Þörungaverksmiðju og Sjóefnavinnslu. Margir gráta þetta meira en landbúnaðinn.

Fáir þingmenn tárast, þegar þeir samþykkja að verja til landbúnaðar fjárhæð, sem mundi nægja til að malbika allan hringveginn um landið rúmlega tvisvar sinnum á hverju einasta ári. Það er heilög byggðastefna að taka landbúnaðinn fram yfir allt, líka hringveginn.

Segja má, að mikilvægasti tilgangur ríkisvaldsins sé nú á dögum hinn sami og hann var á einokunartímanum: að halda þjóðinni í gíslingu hins hefðbundna landbúnaðar og láta peninga, sem fæðast í sjávarútvegi, renna um kerfið til að deyja að lokum í landbúnaði.

Núverandi ríkisstjórn er trúrri fangavörður en flestar fyrri stjórnir. Hún hefur verið ötulli en aðrar við að afla fjár handa eigendum landsins. Vikulega hefur hún hækkað álögur um 420 milljónir króna að meðaltali eða samtals um tíu milljarða króna á 22 vikum ævi sinnar.

Ríkisstjórnin, sem var á undan þessari, hafði skattlagt þjóðina tiltölulega hóflega. Á valdaskeiði hennar dansaði skattbyrðin í kringum 22% af vergri framleiðslu landsins. Nýja ríkisstjórnin er hins vegar svo skattaglöð, að skattbyrðin fer í 25% á næsta ári.

Í tilefni Íslandsmets í skattlagningu er hressilegast og hugmyndaríkast að segja eins og fjármálaráðherrann, að skattar hafi alls ekki hækkað. Málsvararnir, sem játa hækkunina og verja hana með hugsjón jafnvægis í ríkisrekstri, eru hversdagslegri og leiðigjarnari.

Með því að stara á A-hluta fjárlagafrumvarpsins sjá málsvarar ríkisstjórnarinnar hallaleysið, sem þeir tala um. En ráðgerður heildarhalli á búskap hins opinbera á næsta ári verður rúmlega 14 milljarðar, svo sem sést af, að sú verður lánsfjárþörf hins opinbera árið 1988.

Landsfeður okkar sameina stórfelldan hallarekstur og Íslandsmet í skattheimtu ­ í blindri trú á þá hugsjón, að fé þjóðarinnar skuli brenna til ösku í landbúnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítill árangur toppfundar

Greinar

Þegar Gorbatsjovs-æði fréttaleikhúsanna í sjónvarpi er að mestu runnið af fólki, er tímabært að vekja athygli á, að takmarkaður árangur náðist á toppfundinum í Washington. Ekki rættust þar vonir um víðtækara samkomulag en það, sem fyrirfram átti að skrifa undir.

Samkomulagið á fundinum um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuflauga er til dæmis eitt sér ekki eins mikilvægt og samningur, sem undirritaður var í september um stofnun gagnkvæmra öryggis- og aðvörunarstofnana í höfuðborgum heimsveldanna tveggja.

Fækkun kjarnorkuflauga veitir takmarkað öryggi, ef samt er eftir of mikið af kjarnorkuflaugum og -oddum. Venjulegt fólk hefur ekki mikil not af að vera aðeins drepið áttfalt, en ekki tífalt, svo að notuð séu ógnvekjandi hugtök úr heimi herfræðinnar á kjarnorkuöld.

Athyglisvert er, að fulltrúar heimsveldanna á toppfundinum virðast hafa samið um, að í viðræðum um fækkun langdrægra kjarnorkuflauga, sem haldnar eru í Genf, verði ekki gengið lengra en svo, að hvor aðili um sig haldi eftir tæplega 5.000 kjarnaoddum.

Þess vegna er ekki í augsýn núlifandi kynslóða nein ný von um öryggi gegn skipulögðu kjarnorkustríði. Draumsýnir Reagans og Gorbatsjovs á toppfundinum í Reykjavík um afnám langdrægra kjarnorkuflauga hafa verið skotnar niður af ráðgjöfum málsaðila.

Samningurinn um afnám skamm- og meðaldrægra eldflauga er samt mikilvægur. Hann leiðir til aukins svigrúms í slysavörnum. Í fyrsta sinn í vígbúnaðarkapphlaupinu lengist tíminn, sem menn hafa til að meta upplýsingar á tölvuskjám um, að árás sé í aðsigi.

Eldflaugarnar, sem leggja á niður, eru svo skjótar í förum, að varnarmenn hafa aðeins fáar mínútur til að meta, hvort hætta sé á ferðum eða aðeins truflanir í viðbúnaðarkerfi. Samningur um afnám skjótustu flauganna dregur því úr líkum á atómstríði af misskilningi.

Enn mikilvægara atriði samningsins er, að í fyrsta sinn er samið um víðtækt eftirlit með efndum á samkomulagi um takmörkun vígbúnaðar. Komið verður upp föstum eftirlitsmönnum hvors aðila í landi hins og þar að auki gert ráð fyrir ýmiss konar skyndikönnunum.

Þetta bætist við núverandi eftirlit gervihnattaljósmynda og sendingagreininga, sem er svo nákvæmt, að báðir aðilar hafa beinlínis orðið að viðurkenna í samningnum að hafa áður farið rangt með fjölda eigin kjarnorkuflauga og -odda. Svindl verður nánast ókleift.

Þriðji og síðasti merkisþáttur samningsins felst í viðurkenningu á, að samdráttur vígbúnaður megi vera misjafnlega mikill, þegar stefnt er að markmiði jafnvægis í þessum vígbúnaði. Í samræmi við þetta munu Sovétríkin skera meira niður en Bandaríkin gera.

Nákvæmt eftirlit með efndum og jafnvægisleit í misjöfnum niðurskurði eru afskaplega mikilvægt veganesti í viðræðum heimsveldanna á fleiri sviðum viðbúnaðar. Þetta fordæmisgildi er margfalt meira virði en ákvæði samningsins um sjálfa fækkun oddanna.

Svo má ekki gleyma, að toppfundurinn veldur vonbrigðum með, að ekki skuli þar hafa verið stigin merkjanleg skref í átt til afnáms efnavopna; til samdráttar hefðbundinna vopna; og til myndunar breiðs svæðis án vopna og hermanna beggja vegna járntjalds.

Eftir Gorbatsjovs-æðið skulum við loks muna, að fundurinn markaði hvorki skref í átt til friðar í Afganistan né í átt til aukinna mannréttinda í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hard Rock

Veitingar

Réttnefnt rokkminjasafn

Hard Rock Cafe í Kringlunni er merkilegur veitingastaður, sem er að ýmsu leyti til fyrirmyndar. Eini umtalsverði galli hans er að heita ensku nafni. Til er ágætt orð, sem lýsir staðnum vel og gæti verið heiti hans: Rokkminjasafnið. Mun ég sjálfur nota það hér að neðan.

Á Íslandi er ungt fólk að jafnaði kurteisara en miðaldra fólk og gamalt. Það stafar meðfram af, að heimsmennska hefur sótt á, en einangrunarmennska, stundum kennd við nes eða afdali, hefur látið undan síga. Þessi gamla kenning mín fær góðan stuðning af Rokkminjasafninu.

Þar ræður ríkjum ungt fólk, glaðlegt og hjálpsamt. Mættu sumir skólagengnir og smóking-klæddir þjónar læra af þessu kæruleysislega klædda, en áhugasama þjónustuliði, sem á töluverðan þátt í gengi staðarins. Eins og á fínustu stöðum stjórnar móttökustjóri þjónustunni og fylgir sjálfur gestum til borðs.

Mér skilst, að Rokkminjasafnið sé komið til sögunnar, af því að Tommi í Tommaborgurum notaði leiðsögubókina mína um London og kom í Hard Rock Cafe, sem þar er að góðu getið. Hann hafi orðið svo hrifinn af staðnum, að hann hafi æ síðan eða í fjögur ár verið að undirbúa opnun í Reykjavík á hliðstæðum veitingastað, sem nú er orðinn að veruleika. Þetta segir Tommi að minnsta kosti sjálfur.

Hóflegur hávaði

Að einu leyti er Rokkminjasafnið öðruvísi en systurstaðirnir í London og New York, hinum heimsborgunum tveimur. Veitingastofan í Kringlunni er ekki eins hávaðasöm. Hljómlistin er svo lágvær, að fólk, sem hefur ekki brennandi áhuga á rokki, getur talað saman áreynslulaust. Mér finnst þetta til bóta, enda eindreginn stuðningsmaður hins nýja félags hatursmanna hávaða.

Samt veit ég, að í þessu felst aðlögun að hóflegri stærð rokkmarkaðarins hér á landi og að búsetu veitingastaðarins í verzlunarmiðstöð almennings. Í London er almenningur fældur af ásettu ráði með hávaða frá Hard Rock Cafe, en hér þarf Rokkminjasafnið á almenningi að halda. Hér eru ekki biðraðir út á götu eins og í London.

Mikið af alúð, vinnu og fé hefur verið lagt í útlit Rokkminjasafnsins. Fólk kann að vera ósátt við það, sem það sér, en getur þó tæpast neitað, að innra samræmi er í stílnum, bæði í heildardráttum staðarins og einnig í öllu kraðakinu, sem fyllir rammann.

Hinar stóru útlínur eru óbeint ættaðar frá veitingastofum kvikmynda villta vestursins. Hluti borðanna er í potti í miðjunni og annar hluti á svölum í kring. Úr pottinum liggur voldugur og vandaður sveigstigi upp á aðra hæð, þar sem einnig eru svalir. Þar uppi er innlenda rokkminjasafnið, en hið erlenda niðri.

Allir veggir veitingahússins eru þaktir rokkminjum á borð við hljóðfæri og plaköt. Hvert þeirra fær sína sérstöku lýsingu. Ofan á skilrúmum og svalahandriðum er grindverk úr messing. Í pottinum eru góðir armstólar með sveigðu trébaki við rúðudúkuð borð, en á svölunum er mest setið í trébekkjum við nakin borð úr dökkum viði. Á borðum er franskt alvörusinnep, ekki pylsusinnep.

Ingólfur gítaristi Arnarson

Annað einkennistákn staðarins er styttan af Ingólfi Arnarsyni, eftirlíking Arnarhólsstyttunnar, en með þeirri viðbót, að landnámsmaðurinn hefur slengt rokkgítar á bakið. Hitt táknið eru nokkrir afturendar bandarískra uggabíla frá miðjum sjötta áratugnum. Einn endinn hangir úti fyrir dyrum og sennilega tveir inni í sal. Í lofti hanga svo leikfangabílar hátt yfir salnum. Á einn veginn er opið inn í eldhúsið, þar sem derhúfukokkar hamast við störf sín.

Matseðillinn er í stíl systurstaðanna, afar bandarískur. Hamborgarar og salöt skipa þar virðingarsess, þótt Rokkminjasafnið sé ekki skyndibitastaður að neinu leyti. Það er fullbúið veitingahús með alvörukokkum, vínveitingum og fullri þjónustu til borðs. Þetta endurspeglast að sjálfsögðu í verðlagi staðarins, þar með töldu verði á hamborgurum.

Viðarkol og hikkorí

Ameríkanisminn gegnsýrir seðilinn, allt frá maísstönglum í forrétt til hinna hitaeiningaríku eftirrétta. Lögð er áherzla á viðarkolasteikingar, hikkorí-reykingar og glóðarsteikingar, eplakökur, djöflatertur og himnaríkis-ísa, sem allt er mjög bandarískt og einfalt í matreiðslu.

Segja má, að þetta sé eldhús, þar sem ekki er stefnt að því að magna bragð hráefnisins, heldur ákveðinna kryddtegunda eða annarra bragðgefandi efna, sem fylgja matreiðslunni. Og ennfremur má segja, að eldhúsið miði við íhaldssemi unga fólksins, sem margt hvert sættir sig ekki við breytilegt bragð, heldur vill alltaf sama bragðið, vill til dæmis ketchup-bragð að öllum mat. Hér eru það viðarkola- og hikkoríkeimur, sem ráða ferðinni.

Brokkálssúpa dagsins reyndist vera góð hveitisúpa með miklu brokkáli, afar heit og í för með ómerkilegum hvítahveitis-brauðsneiðum. Viðarkola-glóðarsteiktur pipar-steinbítur var góður, ekki óhóflega eldaður, en dálítið bældur af fljótandi sósu, sætri og bragðsterkri. Með honum fylgdi hið staðlaða meðlæti hússins, bökuð kartafla eða franskar kartöflur, ísbergshnaus með ídýfu að eigin vali. Í tilviki steinbítsins var mælt með kaldri sinneps-piparsósu, sem reyndist sæmilega.

Hamborgari hússins var mjög góður sem slíkur, hæfilega lítið steiktur og kostaði með frönskum kartöflum heilar 465 krónur. Innanlærisvöðvastykki úr nauti var réttur dagsins, hæfilega lítið viðarkola-glóðarsteikt og bragðgott, en ekki sérstaklega meyrt. Sósan var yndislega hveitilaus og rækilega krydduð. Glóðarsteikt mínútusteik var enn síður meyr, en samt nokkuð góð, borin fram með skemmtilegri gráðostsósu. Langbezt var frábært lambakjöt, viðarkola-glóðarsteikt, bleikt og meyrt, með góðu jafnvægi kjötbragðsins og bragðsins úr matreiðsluaðferðinni.

Stríðstertur misgóðar

Eplakakan var kölluð heimatilbúin, en hún bar þess ekki merki, nokkuð þykk kaka og nauðaómerkileg. Djöflatertan var betri, gríðarstórt fjall, óvenjulega þurr, en þeyttur rjómahaugur gaf henni mýkt. Himneska ístertan hvíldi á mjög þunglamalegum og vondum marens og fólst í fjalli tvenns konar ísa, sem voru húðaðir þeyttum rjóma og því, er mér sýndust sem betur fer vera möndluflögur, en ekki kókosmjöl, svo sem stóð í matseðli. Eftirréttirnir dúxuðu frekar í magni en gæðum, enda sagði hin brosmilda þjónustustúlka, þegar ég gafst upp í miðri stríðstertu: “Enginn getur klárað þetta”. Það var nokkuð hughreystandi.

Sem dæmi um amerísku staðarins má nefna, að gert er ráð fyrir þeim möguleika, að gestir vilji drekka kaffið sitt með matnum og ekki á eftir honum. Það er sá siður að vestan, sem sífellt kemur mér á óvart. Vín fæst í Rokkminjasafninu, flest ómerkilegt annað en Chateau Fontareche og Marqués de Riscal.

Alls ekki dýr staður

Ég get fel hugsað mér að koma aftur við í Rokkminjasafninu og þá eingöngu til að endurnýja kynnin af viðarkola-glóðarsteikingunni, sem einkennir flesta beztu rétti staðarins.

Í hádeginu er súpa og samloka selt á 275 krónur, súpa og fiskur á 490 krónur og stundum súpa og kjöt á 650 krónur. Á kvöldin er miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi 1.200 krónur. Það er frekar ódýrt í samanburði við önnur alvöru-veitingahús í landinu.

Jónas Kristjánsson

Matseðillinn
120 Súpa dagsins
130 Kornstöngull með smjöri
1190 Hard Rock nautalund glóðarsteikt
890 Viðarkolasteikt lambagrillsteik
675 Hikkorí-reyktur kjúklingur
790 Svínarif Tennessee-reykt
490 Grísasamloka hikkorí-reykt
990 Mínútusteik glóðarsteikt
780 Viðarkola-glóðarsteiktur lax
625 Viðarkola-glóðarsteiktur pipar-steinbítur
240 Heimatilbúin eplakaka með þeyttum rjóma
240 Djöflaterta með þeyttum rjóma eða ís
290 Spari-ís “Hot Fudge Sundae”
375 Banana-split með þremur ískúlum
375 Himnesk Hard Rock ísterta á marens

DV

Sælt er líf í sjálfstrausti

Greinar

Menn eru óvenjulega ósvífnir eða undarlega mikið úti að aka, þegar þeir verja misgerðir sínar í byggingarnefnd flugstöðvar með því, að þeir hafi reist glæsilegt hús, sem sé eitt arðbærasta mannvirki í landinu. Þeir munu ekkert læra af áminningum Ríkisendurskoðunar.

Ef gert er ráð fyrir, að Leifsstöð sé arðsöm, stafar það engan veginn af umframútgjöldum við byggingu stöðvarinnar. Raunar væri stöðin arðbærari en hún er, ef kostnaðurinn hefði ekki sprungið úr böndum byggingarnefndar, sem hagaði sér af landsfrægu ráðleysi.

Réttara er að segja, að byggingarnefndin vó svo harkalega að arðburðargetu flugstöðvarinnar með hækkun útgjalda, að leigjendur húsnæðisins, er eiga engra annarra kosta völ, verða að greiða okurleigu, sem er margföld á við það, er þekkist á öðrum sviðum.

Gott dæmi um blindu Leifsstöðvarmanna er einmitt, að þeir vörðu okurleiguna með samanburði við flugstöðina í Kastrup, þar sem farþegar eru margfalt fleiri. Vörnin er byggð á algeru skilningsleysi gróinna embættismanna ríkisins á grundvallaratriðum rekstrarfræða.

Okurleiguna verða flugfarþegar síðan að borga í verðhækkun farseðla, sem þegar er komin í ljós í mynd lausnargjalds, er fólk verður að greiða til að komast af landi brott. Þessi nýi skattur er hluti kostnaðar þjóðarinnar af vítaverðum vinnubrögðum byggingarnefndar.

Um glæsibrag stöðvarinnar má deila. Hitt er vitað, að stærri og afkastameiri flugstöð var reist á sama tíma í Harrisburg í Pennsylvaníu fyrir minna en helming af kostnaði Leifsstöðvar. Mikinn höfðingsbrag hefði mátt kaupa fyrir minna almannafé en þann mismun.

Leitt er til að vita, að ábyrgðarstöður hjá ríkinu skuli vera skipaðar mönnum, sem lítið skynbragð bera á peninga og taka ekki gagnrýni, heldur hrósa sér af sukki. Vont er líka, að við skulum þurfa að nota slíka menn í viðskiptum við heimsveldi varnarliðsins.

Kostnaðarsprengingu Leifsstöðvar var haldið leyndri fram yfir kosningarnar í vor. Þá fyrst fékk þjóðin að vita, hvað var á seyði. Töluvert af aukakostnaðinum stafar einmitt af óðagoti við að flýta vígslu flugstöðvarinnar, svo að hún nýttist í kosningabaráttunni.

Byggingarnefndin gætti þess að gefa sem minnstar upplýsingar um fjárreiður sínar, jafnvel eftir að hún var komin í algera fjárþröng. Það var ekki fyrr en viku eftir kosningar, að hún játaði gjaldþrot sitt í bréfi til furðu lostinna manna fjármálaráðuneytisins.

Byggingarnefndin ber sjálf ábyrgð á að hafa látið misnota sig í pólitískum tilgangi. Hitt er svo rétt hjá henni, að hún deilir ábyrgðinni með yfirmönnum utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherrum byggingartímans, sem áttu að kynna sér, hvað var á seyði.

Leifsstöðvarmálið er utanríkisráðuneytinu álitshnekkir. Uppákoman spáir illu um velferð utanríkisviðskipta eftir flutning þess málaflokks úr viðskiptaráðuneyti yfir í utanríkisráðuneyti, þar sem meira er vitað um hirðsiði og hanastél en viðskipti og veruleika.

Hið jákvæða er, að framvegis má búast við, að embættismenn taki tillit til ábendinga í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, þar sem hvatt er til vandaðri undirbúnings framkvæmda, áætlana og annarra vinnubragða við verkefni, sem skattgreiðendur borga.

Þessi endurhæfing nær þó ekki til embættismannanna í byggingarnefnd Leifsstöðvar. Þeir lifa enn sælir í sjálfstrausti og neita alveg að læra af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hollt og ódýrt hækkar

Greinar

Ekkert fúsk er í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til öflunar aukinna ríkistekna. Sjaldan hefur sézt jafn nakin og beinskeytt atlaga sérhagsmunahópa að hagsmunum almennings. Ríkisstjórnin er að afla sér milljarða frá almenningi til að leggja í hefðbundinn landbúnað.

Eins og jafnan áður er árásin í formi einföldunar og hagræðingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Að gamalli venju telja ráðamenn sig þurfa að einfalda þetta kerfi og hagræða því, af því að þeir sjá í uppstokkuninni greiða leið til að ná auknum tekjum til gæludýra sinna.

Í fyrsta sinn breiðir ríkisstjórn ekki af alúð yfir staðreyndina. Á blaðamannafundi sagði fjármálaráðherra næstum berum orðum, að ein aðalskýring aðgerðanna væri, að afla þurfi meira en milljarðs til að unnt sé að greiða niður kjöt og mjólkurvörur í auknum mæli.

Stjórnin hyggst hækka verð á fiski, brauði, ávöxtum og grænmeti um hvorki meira né minna en heilan fjórðung. Þessar vörur eru bezta hollustufæðan á boðstólum: viðurkennd vörn við menningarsjúkdómum, sem meðal annars stafa af ofáti á feitu kjöti og mjólkurvörum.

Um leið eru í þessum flokki einmitt vörurnar, sem almenningur hefur efni á að kaupa. Þetta kemur þyngst við fólkið, sem kaupir í matinn ódýran fisk, en ekki kjöt: notar mikið af hollustubrauði og þá með ódýru viðbiti, en ekki því smjöri, sem dýrast er í heiminum.

Auknar niðurgreiðslur á dilkakjöti gagna lítt fólki, sem telur hæfa pyngju sinni að hafa fisk fimm daga í viku. Auknar niðurgreiðslur á smjöri og osti gagna lítt fólki, sem telur fé sínu betur varið í meira brauð og smjörlíki. Þetta eru niðurgreiðslur í þágu vel stæðra.

Allt stafar þetta af, að hinn hefðbundni landbúnaður hefur samið við sjálfan sig, það er að segja við landbúnaðarráðherra, um, að ríkið kaupi í raun næstum alla framleiðsluna. Til að koma offramleiðslunni í lóg telur ríkið sig þurfa að skekkja verðlagið í landinu.

Fróðlegt er, að fjármálaráðherrann, sem býr til umfangsmiklar tilfæringar á tekjuaukningarkerfinu til að þjónusta sérhagsmuni hins hefðbundna landbúnaðar, kemur frá Alþýðuflokki, sem nýlega er búinn að sættast við Framsóknarflokk um, hvað gæludýrið skuli fá.

Ekki er síður athyglisvert, að samkomulag þetta strandaði á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem allur þingflokkur hans stóð að. Flokkurinn heimtaði enn meiri þjónustu við sérhagsmunina. Yfirboðið setti af stað skriðu, sem endaði í skattahækkun síðustu helgar.

Þetta ættu í huga að hafa þeir, sem hneigjast til að kenna Framsóknarflokki um gælurnar við hinn hefðbundna landbúnað og til að sýkna um leið aðra flokka. Hinir stjórnarflokkarnir bera ekki minni ábyrgð á gæludýrinu, svo sem nú hefur rækilega komið í ljós.

Ennfremur ættu kjósendur einnig að minnast þess, að föst venja hefur verið, að flokkarnir, sem nú skipa stjórnarandstöðu, yfirbjóði Framsóknarflokk í dálæti á sérhagsmunum hins hefðbundna landbúnaðar. Í raun vinna nærri allir flokkar gegn almannahagsmunum.

Hér hefur verið gefin rétt og köld mynd af skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Myndin stingur að sjálfsögðu í stúf við fleðulætin, sem einkenndu fréttaflutning ríkisfjölmiðla um helgina, einkum spariviðtöl þeirra við ráðherra, er sýndu rammfalska ímynd.

Rétt er orðað, að ekkert fúsk er í skattheimtunni. Ríkisstjórnin siglir þöndum seglum í þjónustu við sérhagsmuni á kostnað hagsmuna og hollustu almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Gæfulítill Seðlabanki

Greinar

Seðlabankinn ber hluta ábyrgðar á öngþveiti, sem hefur verið í peningamálum þjóðarinnar á þessu ári. Hann hefur eins og jafnan áður misskilið hlutverk sitt á svipaðan hátt og Þjóðhagsstofnunin hefur gert og litið á sig sem auðmjúkan þræl sérhverrar ríkisstjórnar.

Í lögum um bankann segir, að stjórn hans megi opinberlega lýsa ágreiningi við ríkisstjórnir í efnahagsmálum, þótt honum beri að vinna að því, að hagstefna ríkisstjórna nái tilgangi sínum. En Seðlabankinn hefur í aldarfjórðung ekki flíkað sjálfstæðri skoðun.

Þessi ákvæði eru mikilvæg, þegar ríkisstjórn getur ekki framkvæmt eigin efnahagsstefnu, vegna þess að hún telur sig þurfa að kaupa atkvæði með tímabundnu góðæri fyrir kosningar. Þá á Seðlabankinn eftir mætti að standa vörð um stefnuna til að brúa bilið yfir kosningar.

Frá upphafi þessa árs og fram yfir mitt ár horfði Seðlabankinn áhugalaus á hrunið, sem hófst, þegar Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra urðu helteknir kosningaskjálfta. Í júlí reyndi bankinn fyrst að hemla.

Fleiri tóku þátt í ábyrgðinni á þessu. Aðilar vinnumarkaðarins töldu sér trú um, að þeir gætu hækkað lægstu laun án þess að hækkunin færi í launaskriði upp alla hálaunaflokka. Og bankarnir, með Landsbankann í broddi fylkingar, kunnu sér ekki hóf í útlánum.

Nú eru þessir aðilar með allt niðrum sig á kostnað þjóðarinnar. Ný ríkisstjórn er með ráðgerðan þensluhalla næsta árs upp á fjóra­fimm milljarða og fer mun hærra. Hún hefur í raun magnað verðbólgu, afskræmt gengi krónunnar og efnt til milljarða viðskiptahalla.

Umræðan um þátt Seðlabankans í þessari ógæfuþróun er gagnleg og brýn, rétt eins og nýleg umræða um mikinn og vaxandi skriðdýrshátt Þjóðhagsstofnunar gagnvart sérhverri ríkisstjórn. Seðlabankastjóra skortir ekki völd, heldur kjark til að nýta þau til góðs.

Sumir segja, að þetta sýni, að veita beri bankanum aukin völd til að fyrirskipa hitt og banna þetta, í hefðbundnum skömmtunarstíl íslenzkum. Það er ekki rétta leiðin, enda er löng harmsaga af peningafrystingu Seðlabankans, sem hefur magnað fjármögnun gæludýra.

Þjóðin á að geta heimtað af hinum fjölskipaða Seðlabanka, að hann safni ítarlegri, betri og skjótari tölum um stöðu fjármála þjóðarinnar og birti þær hraðar. Ástæðulaust er, að launaskrá bankans sé eitt athyglisverðasta dæmið um dulbúið atvinnuleysi í landinu.

Til þess að auðvelda bankanum þetta verk er hugsanlega hægt að geta þess ítarlegar í lögum um bankann, þótt frestur á slíku megi ekki verða honum til afsökunar. Á tölvuöld ætti þjóðin raunar að hafa aðgang að tölum, sem sýna alla peningastöðu líðandi stundar.

Um leið er brýnt, að Seðlabankinn túlki þessar tölur jafnóðum, en bíði ekki eftir ársfundi sínum. Seðlabankastjórum er líka skylt að mótmæla, ef aðgerð eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar stríðir gegn yfirlýstum markmiðum hennar, og skýra þann ágreining sinn rækilega.

Áhrifamáttur Seðlabanka til góðs felst ekki í valdi hans til boða og banna, heldur í siðferðilegu aðhaldi, sem byggist á skýrum upplýsingum um stöðu mála í núinu ­ og á vilja kjósenda til að hafna stjórnmálamönnum, sem reyna að virða þetta aðhald að vettugi.

Það eru seðlabankamenn, sem hafa sjálfir valið að hafa hann illa rekinn og ósjálfstæðan. Það er þeim sjálfum, sem ber að nota umræðuna til að bæta starf sitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Mandarín

Veitingar

Dýrir Kínastaðir á Íslandi

Mandarín í Tryggvagötu er bezta kínverska veitingahúsið í landinu og jafnframt hið langdýrasta. Við lá, að ég svitnaði, þegar ég sá verðlag staðarins í fyrsta skipti. Að borða þar kostar jafnmikið og í hinum dýru veitingasölum landsins.

Svo dýrir eru sjaldan kínverskir veitingastaðir í öðrum löndum. Þeir hlaða sér venjulega í neðri enda verðsviðsins. Hér á landi eru slík matsöluhús hins vegar frá miðjum verðflokki og uppúr. Það er eins og þau séu ekki rekin fyrir kunnuga, heldur fyrir fólk, sem klæðir sig upp til að borða kínverskan mat einu sinni á ári eða sjaldnar.

Meðan innlendir öndvegisstaðir á borð við Úlfar og Ljón, Laugaás og Pottinn og pönnuna eru í lægsta verðflokki, eru Kínahofið og Sjanghæ í miðflokki og Mandarín í hæsta verðflokki. Þrátt fyrir útbreiðslu Kínataða hér á landi vantar enn af því tagi fjölskyldustað, sem fólk hefur efni á að sækja án sérstaks tilefnis. Þannig er kínverski akurinn að mestu ósáinn enn í veitingamennsku Íslands.

Miðjuverð súpu og aðalréttar í hádeginu í Mandarín er 1.051 króna. Að kvöldlagi kostar þriggja rétta málsverður með tei en án víns 2.008 krónur. Síðarnefnda talan er þröskuldurinn, sem viðskiptavinir að kvöldlagi verða að ákveða, hvort þeir vilji stíga yfir.

Stuðlabergið stúkað frá

Mandarín er flutt í salarkynnin, þar sem áður var til húsa veitingastaðurinn Hellirinn. Hinar miklu og lítt smekkvísu stuðlabergsskreytingar í anddyri, veggjum og súlum hafa verið mildaðar með stórum, kínverskum skermum, er skyggja á útsýni og hluta salinn niður í þægileg skot, þar á meðal bar í einu horninu. Ýmislegu, en ekki ofhlöðnu Kínaskrauti hefur verið komið fyrir, svo sem pappírslugtum í lofti, veggplötum, gluggaspjöldum og renningi yfir bar.

Rautt áklæði er á stólum og rauðir undirdúkar á borðum, svo og rauðar tauþurrkur og kertaljós á kvöldin. Í hádeginu eru notaðar hvítar pappírsþurrkur. Borðbúnaður er austurlenzkur, þar á meðal prjónar fyrir þá, sem vilja.

Þjónustan er austræn að gæðum, þótt hún sé vestræn. Starfsliðið er klætt í kínverskt silki, flytur gestum strax vatn í glös, sér um, að hitaplötur komi á borð eftir þörfum, og ber yfirleitt af því, sem ég hef séð í austrænum veitingahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Í eitt skiptið kom hinn austurlenzki matsveinn meira að segja að borðinu til að kynna sér óskir um bragðstyrk.

Víða leitað fanga

Matseðillinn í Mandarín er langur eins og algengt er hjá slíkum stöðum. Hann er einnig óvenju fjölbreyttur, enda er staðurinn ekki kallaður “kínverskur”, heldur “austurlenzkur”. Boðið er upp á matreiðsluaðferðir frá Sikkúan og Mongólíu, Beijing og Sjanghæ, en ekki aðallega frá Kanton og Hong Kong, sem algengast er.

Eggjadropasúpan, sem var súpa dagsins í hádeginu einn daginn, reyndist vera góð súpa, mikil að magni og fela í sér mikið af smásaxaðri svínapöru og dálítið af blönduðu grænmeti úr frysti. Rækjusúpa með skemmtilega stökkum, kínverskum sveppum, sem brustu undir tönn, var enn betri og bjó yfir miklu af rækjum, tær og bragðmikil. Smokkfisksúpa var einnig góð, mátulega sterk, dálítið sæt, með hæfilega stinnum smokkfisklengjum, eggjum og sveppum.

Konan frá Sjanghæ er nafn á óvenjulegum, en bragðlitlum forrétti, þar sem eggjadeigi var vafið í fimm fingra formi yfir smásaxað svínakjöt. Lumpia er nafn á litlum vorrúllum, sem reyndust svipaðar öðrum, sem hér hafa verið á boðstólum. Þessar voru bornar fram með kryddlegnu hrásalati og súrsætri sósu, er var ekki of sæt.

Steiktur fiskur með ananas og framandlegu grænmeti hafði lítið fiskbragð, en var góður sem réttur, snarpheitur og í fylgd með mildri sósu. Súrsætur kjúklingur var mjög góður, þótt kjötið væri mjög kryddlegið og bragðlítið, næstbezti rétturinn, sem prófaður var.

Sósa keisaraynjunnar

Lambakjöt að hætti Sikkúan-búa var afar meyrt og gott, hæfilega kryddað. Gengis Khan lambakjöt á teini var einnig meyrt og alls ekki bragðsterkt, þótt varað væri við slíku á matseðli, viðarkolalegt á bragðið. Snöggsteikt nautakjöt var sagt borið fram með sojabaunum, en kom með grænni og rauðri papriku, snarpheitt, en hálfseigt og var sízti rétturinn. Bezti rétturinn var hins vegar steikt önd í svokallaðri sósu keisaraynjunnar frá Kína, áberandi bragðsterk og afar meyr.

Grænt jasmin-te er drukkið með matnum, innifalið í verðinu í hádeginu og á heilar 110 krónur að kvöldlagi. Vínlistinn er ómerkilegur, en býður þó Chateau Fontareche, Marqués de Riscal, Gewürztraminer og Rosenhang.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðillinn
360 Súpa dagsins
495 Peking vorrúlla með salati, sveppum og hrísgrjónum
450 Steikt hrísgrjón með eggjum, kjúklingi og rækjum
420 Gufusoðið, blandað grænmeti með ostrusósu
510 Steikt rauðspretta í himneskri sósu
525 Fiskur með bambusskotum og sveppum
510 Snöggsteiktur smokkfiskur með grænmeti
585 Súrsætar rækjur
650 Gengis Khan kjúklingur á teini með fersku grænmeti
690 Snöggsteikt svínakjöt með sveppum og eggi
780 Steikt svínakjöt í raspi með fersku grænmeti
750 Lambakjöt að hætti Sikkúan-búa
780 Súrsætt svínakjöt
810 Snöggsteikt nautakjöt með tómötum

DV

Hugsjónagöt og önnur göt

Greinar

Fundin hafa verið jarðgöng, sem borga sig. Hjá Vegagerðinni hefur verið reiknuð 15% arðsemi í vegargöng undir Hvalfjörð. Það er svipuð arðsemi og stofnunin hefur reiknað í bundið slitlag á vegum landsins og mun meiri en er í venjulegum brúm, hvað þá Hvalfjarðarbrú.

Í reikningi þessum er miðað við, að afskrifa megi göng nálægt járnblendiverksmiðjunni á 30 árum á þennan hátt, ef 800 bílstjórar á dag vildu greiða hóflegan vegartoll. Hugmyndir um göng utar í firðinum og 2.000 bíla umferð á dag virðast óraunsærri við fyrstu sýn.

Allar arðsemistölur Vegagerðarinnar verður að taka af varúð. Stofnunin hefur leikið sér að því að telja alla undirbyggingu vega til byggðastefnu, sem ekki má verðleggja, og reikna síðan arðsemi í slitlagið ofan á. Þannig hafa ótal vegir á landinu orðið arðbærir með handafli.

Stofnunin er kölluð Vegagerð ríkisins, en ætti raunar að heita Vegagerð þingmanna. Allt bútastarf hennar er miðað við að þjóna hagsmunum þingmanna landsbyggðarinnar í réttum hlutföllum. Þess vegna er slitlag aðeins hér og þar í allt of dýrum bútum hringvegarins.

Samt eru tölur Vegagerðarinnar um arðsemi hinar einu, sem við höfum. Ef stofnunin vill verða Vegagerð þjóðarinnar, ber henni að efla útreikninga á arðsemi ýmissa vegakosta og gera þá traustari en nú er, en einkum þó ýta niðurstöðunum að þingmönnum og þjóð.

Athyglisvert er, að fólk talar um vegartoll í Hvalfjarðargöngum eins og sjálfsagðan hlut. Menn vilja geta valið milli þess að borga hóflegan toll, til dæmis 400 krónur á bílinn, og að borga benzín og rekstur í 45­50 kílómetra krók fyrir fjörðinn. Það eru heiðarleg viðskipti.

Hins vegar dettur engum í hug að reikna toll í Ólafsfjarðargöngin fyrirhuguðu. Fólk veit, að umferðin þar verður svo lítil, að tollur, sem bílstjórar gætu sætt sig við að borga, mundi samanlagt vart duga fyrir launum tollheimtumanna og alls ekki upp í vexti af lánum.

Aðdragandi gatsins í Ólafsfjarðarmúla er annar. Þingmenn og fjölmiðlungar svæðisins fóru með fríðu föruneyti suður til samgönguráðherra til að fræða hann um, að frá byggðasjónarmiði vantaði hálfan milljarð í svona göng. Degi síðar ákvað ráðherra að fá þessi göng.

Ólafsfjarðargöngin eru ekki versta fjallagat, sem hugsazt getur. Kostnaðaráhyggjur vegna þeirra byggjast miklu fremur á hræðslu við ráðagerðir, sem fylgja í kjölfarið. Vegagerðin og Byggðastofnunin hafa nefnilega reiknað göt í fjöll um Aust- og Vestfirði vítt og breitt.

Fyrr en síðar má búast við, að þingmenn og fjölmiðlungar fjölmenni á fund samgönguráðherra og segi honum, að frá byggðasjónarmiði vanti milljarð í Vestfjarðagöng og tvo milljarða í Austfjarðagöng. Þessum gildu rökum getur ráðherra líklega ekki andmælt.

Af ýmsum slíkum ástæðum er þjóðin peningasnauð um þessar mundir. Sjálfvirk afgreiðsla fjármagns til fagurra hugsjóna veldur því, að ekkert er gert í hugmyndum um Hvalfjarðargöng, enda ekki byggðagöng í hefðbundnum skilningi og þar á ofan líklega arðbær.

Meðan fagrar hugsjónir blómstra í borun fjalla býr meirihluti þjóðarinnar við sífellt og samfellt umferðaröngþveiti frá Hafnarfirði til Mosfellssveitar og frá Breiðholti til Seltjarnarness. Í Kringlunni hefur verið opnuð sýning á óleystum vegaverkefnum þessa svæðis.

Þannig stendur þjóð, sem veit ekki aura sinna tal, þegar í húfi eru æðri verðmæti að hennar mati, en á ekki fyrir salti í graut, ef um arðbær verk er að ræða.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosið í vor

Greinar

Þegar samstarf í ríkisstjórn er gott, ganga ráðherrar og þingmenn stjórnarflokka úr vegi til að sætta sjónarmið. Þegar feigð sækir að slíku samstarfi, ganga þeir hins vegar úr vegi til að rækta ágreining, svo sem verið hefur frá upphafi ferils núverandi ríkisstjórnar.

Til að finna dæmi um sæmileg heilindi í stjórnarsamstarfi þarf ekki að leita lengra en til síðustu ríkisstjórnar á undan þessari, til yngstu helmingaskiptastjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokka. Valdamenn sátu á friðarstóli í þeirri ríkisstjórn til loka kjörtímabilsins.

Nú er hins vegar allt í hers höndum. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna vinna ekki saman að niðurstöðu mála, heldur finna sér til ágreinings hvert tilefni, sem gefst. Þeir og flokkar þeirra eru að reyna að ná góðri taflstöðu fyrir næstu kosningar.

Slíkar ríkisstjórnir springa yfirleitt fyrir tímann. Þátttakendur þeirra fjalla ekki um mál eins og þau séu verkefni, sem gefa þurfi sér tíma til að leysa. Þeir hafa meiri áhuga á, hvernig þessi sömu mál líti út frá sjónarhóli kjósenda, þegar til mjög skamms tíma er litið.

Ýmis deilumál benda til, að forustumenn stjórnarflokkanna séu byrjaðir að undirbúa baráttu fyrir kosningar að vori. Þeir hafa magnað með sér ágreining um mörg stærstu mál dagsins, fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, útgerðarkvóta og landbúnaðarstuðning.

Í vaxandi mæli er talað um, að frumvörp um þessi mál séu eins konar einkafrumvörp eins ráðherra. Einstakir þingmenn, jafnvel ráðherrar og heilir stjórnarflokkar áskilja sér rétt til að vera meira eða minna andvígir ýmsum eða flestum atriðum frumvarpa.

Í sumum tilvikum er líklegt, að sérstaðan sé ekki djúpstæð, heldur framleiðsla á eins konar skiptimynt til að beita gegn annarri sérstöðu. Þá er líklegt, að niðurstaðan af hvoru tveggja verði engin. Það er einmitt markmið síðari sérstöðunnar að eyða hinni fyrri.

Andstöðu alþýðuflokksmanna við kvótafrumvarp framsóknarráðherra er að nokkru leyti beint gegn andstöðu framsóknarmanna við húsnæðisfrumvarp alþýðuflokksráðherra. Andstaðan er sumpart uppgerð, þótt hún byggist á frambærilegum efnisrökum.

Ágreiningsatriði stjórnarflokkanna verða þó engan veginn skýrð með þessum hætti einum. Meginástæða þeirra er, að flokkarnir gera ráð fyrir kosningum í vor og eru að reyna að skapa sjálfum sér ímynd, sem sé önnur og betri en ímynd ríkisstjórnarinnar í heild.

Framsóknarflokkurinn nýtur mikils fylgis í skoðanakönnunum. Forustumenn hans geta vel hugsað sér að ná fylgisaukningunni í hús í kosningum sem fyrst. Auk þess telja þeir tímabært, að Steingrímur Hermannsson leysi Þorstein Pálsson af hólmi í stjórnarforsæti.

Stjórnarandstaða Framsóknarflokksins innan ríkisstjórnarinnar beinist einkum gegn ráðherrum Alþýðuflokksins, er fjalla um fjármál ríkisins og húsnæðismál. Með gagnsókn Alþýðuflokksins í sjávarútvegsmálum hefur spennan í stjórninni magnazt um allan helming.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hægar um sig en hinir flokkarnir, en stundar þó yfirboð í stuðningi við landbúnað. Í skoðanakönnunum hefur flokkurinn ekki náð til baka neinum umtalsverðum hluta af fylgi Borgaraflokksins og er afar illa í kosningastakk búinn.

Ríkisstjórn er bráðfeig, þegar gagnkvæmt tillitsleysi mótar afstöðu ráðherra og stjórnarliða, svo sem nú er. Brautin liggur til kosninga, er verða líklega í vor.

Jónas Kristjánsson

DV

Haft vit fyrir öðrum

Greinar

Stuðningsmenn og andstæðingar bjórsins hafa hvorir tveggja rétt fyrir sér, þegar þeir fjalla um áhrif drykkjarins. Bjórinn hefur sínar björtu hliðar og aðrar skuggahliðar. Síðan fer eftir sjónarhóli hvers og eins, hvaða hlið hann lætur ráða afstöðu sinni til bjórfrumvarpsins.

Bjór reynist flestum góður vinur. Þeir geta oftast notað hann í hófi, sér og vinum sínum til ánægju. Þeir fara sjaldan yfir markið, enda er bjór afar vægur vímugjafi í samanburði við áfengisflokka, sem leyfðir eru og vinsælastir eru hér á landi, brennda drykki af ýmsu tagi.

Þar á ofan eru vaxandi líkur á, að bjór í miklu hófi sé fremur heilsusamlegur. Rannsóknir benda til, að lítið áfengismagn hafi góð áhrif á æðakerfið og dragi úr líkum á hjartasjúkdómum. Athuga ber þó, að fljótlega fer áfengismagn yfir þessi mörk hagstæðra heilsuáhrifa.

Um leið er bjór hættulegur eins og annað áfengi. Fjölmennur minnihluti fólks er þannig gert frá náttúrunnar hendi, að líkami þess myndar fíkn við neyzlu bjórs eins og annars áfengis. Efnahvörf í lifur og heila eru önnur og skaðlegri hjá þessu fólki en venjulegu fólki.

Þetta fólk þjáist af ættgengum sjúkdómi, sem hefur göngu sína með uppsöfnun acetaldehýðs í lifrinni og endar svo oft með líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum ósköpum, er ekki vinnst bugur á nema með algeru hvarfi frá hvers konar neyzlu áfengis.

Í enskumælandi löndum er sagt, að 10% fólks sé næmt fyrir áfengissýki. Hér hafa verið nefndar hærri tölur, frá 15% upp í 20%. Altjend er ljóst, að til er fjölmennur minnihluti, sem ekki má drekka áfengi án þess að koma af stað skaðlegum efnahvörfum í skrokknum.

Af þessu vaknar spurningin um, hvort rétt sé að neita meirihlutanum um hinn hjartastyrkjandi gleðigjafa til þess að forða minnihlutanum frá áfengisbölinu. Séu menn þessarar skoðunar, er rökrétt, að þeir fylgi algeru áfengisbanni frekar en banni á veikum bjór eingöngu.

Þeir verða þá einnig að hafa í huga, að vín og bjór hafa árþúsunda hefð að baki í samfélagi manna. Áfengir drykkir eru grunnmúraðir í hefðum þjóða. Dýrkun á Díonýsosi er með fjölmennari trúarbrögðum hins vestræna heims, studd ótal lofgerðum í bókmenntum.

Auðveldara er að berjast gegn vímugjöfum, sem ekki hafa þennan uppsafnaða mátt úr fortíðinni. Fíkniefnin eru tiltölulega ný af nálinni utan afmarkaðra hópa og sama er að segja um róandi lyf og svefnlyf af hvers konar tagi. Allt eru þetta vanabindandi vímuefni.

Séu menn í raun þeirrar skoðunar, að rétt sé að hafa vit fyrir mönnum og meina þeim, sem vilja, að komast í bjór, nema í útlöndum, fríhöfninni á Keflavíkurvelli og á svarta markaðnum, væri æskilegt, að þeir könnuðu hug sinn til annarra hættulegra efna en bjórsins eins.

Tóbak drepur áreiðanlega fleiri en áfengið gerir. Hvernig væri að banna sígarettur algerlega og heimila sölu vindla í sérstökum ríkisverzlunum. Er ekki rétt að hafa með afli vit fyrir fólki á þessum sviðum á sama hátt og reynt er í áfengi og sérstaklega í bjór.

Sykur er viðurkenndur manndrápari. Hvernig væri, að banna sykurinnflutning eða að minnsta kosti skattleggja hann margfalt og banna sölu hans annars staðar en í sérstökum ríkisverzlunum Og hvað um háa skatta, ríkisverzlanir eða algert bann við smjöri og lambakjöti.

Sumt ætti að mega leyfa fólki að velja sjálft, án þess að hafa með handafli vit fyrir því. Sem þáttur í styrkleikalitrófi áfengis ætti bjórinn að fylgja frjálsum vilja.

Jónas Kristjánsson

DV

Pítustaðir

Veitingar

Götumatur Botnalanda

Pítur sá ég og borðaði í fyrsta sinn í Jerúsalem fyrir 20 árum. Ég var þar í fylgd leiðsögumanns, sem var yfirmaður í ísraelska hernum í nokkra mánuði á ári, en í ferðaþjónustu þess á milli. Hann benti mér á araba, sem var með eldavél úti á gangstétt og sagði: “Við skulum fá okkur pítu hjá þessum.” Eftir nokkurt þjark þeirra um hæfilegt verðlag fengum við píturnar og stýfðum þær úr hnefa. Ég minnist þess enn, hversu framandi og spennandi mér fannst þetta borðhald.

Pítur eru seldar úti á götum í arabalöndum á sama hátt og pylsur eru seldar hér á landi, pítsur og hamborgarar eða sniglar og ristaðar skeljar í sumum nágrannalöndum okkar. Götupítu er hægt að stýfa úr hnefa eins og götupylsu, af því að brauð er notað til að lykja um heitt innihald og hindra, að fólk verði kámugt af borðhaldinu.

Orðið píta er notað í Grikklandi, Ísrael og arabaríkjunum. Gríska pítan heitir raunar pitta og er sér á parti. Hún er gerð úr næfurþunnu deigi, sem ýmist er vafið utan um mat eða notað útflatt í lögum með ýmiss konar góðgæti milli laga, svo sem í mússaka.

Píta Botnalanda er hins vegar þykkt og seigt flatbrauð, sem er bakað á steinum, pönnu eða á hitaplötu í ofni og látið verða holt að innan. Síðan má skera í hlið þess til að hella hakki eða öðrum mat inn í heitt brauðið. Maturinn á að geta verið vel heitur. Því er pítan höfð þykk og seig, svo að hægt sé að halda á henni og hún soðni ekki í mauk af völdum hitans.

Pítur eru þannig verulega frábrugðnar stökku brauðkollunum, sem á Vesturlöndum eru skornar og notaðar til morgunverðar með einhverri fyllingu, svo sem smjöri og sultu eða osti.

Píta er nafn á brauðinu sjálfu, en ekki fyllingunni. Pítan er venjulega elduð án fyllingar. Sem gangstéttarfæða er hún stundum seld með fyllingu eins og sú, er ég minntist frá Jerúsalem. Fyllingin getur verið breytileg. Í Botnalöndum felst hún yfirleitt í hressilega krydduðu hakki.

Skyndifæða, ekki ruslfæða

Á síðustu árum hafa pítur haldið innreið sína í samkeppni vestrænna skyndibitastaða. Það er ánægjulegt, því að hamborgarar og pítsur hljóta að vera leiðinlegar til lengdar og hamborgarar og pylsur eru oft búnar til á vafasaman hátt. Grænmeti og hakk í pítubrauði á að geta verið tiltölulega hollur og heilbrigður skyndimatur. Í pítum á að vera hægt að bjóða ódýran mat, sem er ekki ruslfæði.

Á Reykjavíkursvæðinu hafa risið þrír staðir, sem kenna sig við pítur. Sams konar matur fæst einnig á sumum skyndibitastöðum, sem ekki sérhæfa sig í pítum. Ennfremur eru svokallaðar pítur fáanlegar víða úti á landi. Staðirnir þrír, sem kenna sig við pítur, eru Pítuhúsið Rex í Garðabæ, Pítan við Skipholt og Pítuhornið við Bergþórugötu. Þetta eru allt snyrtilegir og tiltölulega menningarlegir sjálfsafgreiðslustaðir, sem bjóða nokkrar tegundir svokallaðra píta, svo og hamborgara, samlokur og sitthvað fleira þess háttar.

PÍTUHÚSIÐ REX er í stórum, björtum og kuldalegum sal við Iðnholt í Garðabæ. Hátt er til lofts og vítt til veggja, svo og rúmt um 32 pílárastóla við stór, fjögurra manna hringborð úr dökku tré. Steinflísar eru á gólfi. Í einu horninu er forn skenkur og við einn vegginn er barnaaðstaða. Á borðum og í gluggum eru vel hirt pottablóm.

Á annars góðri afgreiðslu var sá galli, að viðskiptavinur þurfti að beita tveimur atrennum til að ná rétti sínum, þegar pítur höfðu ruglazt milli bakka með og án franskra kartaflna í eldhúsi.

Níu pítufyllingar fást á staðnum og er meðalverð þeirra 250 krónur að kaffi meðtöldu. Meðal fyllinganna er mexíkanskt taco, buff, fiskur, grænmeti, kótilettur og kjúklingabuff.

Önnur taco-pítan reyndist nokkurn veginn réttrar ættar, hugsanlega pönnusteikt. Í henni var efst steinselja, síðan eggjasósa í hóflegu magni og ísberg og loks hakk með tómati og papriku. Þetta var frambærileg píta, enda sæmilega heit. Hún var borin fram í álpappír í plastbakka til að auðvelda snyrtimennsku í borðhaldi. Hin taco-pítan var lítilfjörleg, enda hafði gleymzt að krydda kjöthakkið, svo að það var alls ekki neitt taco. Hún var og afgreidd í brauði, sem virtist vera úr eins konar pítuframleiðsluvél, er framkallar grillrendur í brauðið.

PÍTUHORNIÐ er afar lítil veitingastofa, stílhrein og snyrtileg. Hún er sannkallað blómahaf. Einföldum stólum er raðað um lítil hringlaga borð með marmaraplötu á járnfæti. Gólfið er flísalagt. Afgreiðslufólk reyndist óvenju þægilegt og raunar til fyrirmyndar á skyndibitastað.

Rúnnstykki í pítu stað

Níu fyllingar eru á boðstólum, en brauðið er ekki raunveruleg píta, heldur risastórt rúnnstykki eða brauðhnúður, sem fer illa utan um heitan mat. Enda reyndist rækjufyllingin köld, en ágæt sem slík, blönduð papriku og undir hvítkálssalati og léttri eggjasósu. Þetta var raunar bezta pítufyllingin, sem ég hef fengið hér á landi, enda var mikið af rækjum. Velja mátti milli rúnnstykkis úr fínu og grófu hveiti. Brauðhnúðurinn stóri var borinn fram í bréfi og tágakörfu.

Miðjuverð á hinum svokölluðu pítum var 275 krónur, að kaffi inniföldu. Hægt er að fá súpu á undan á 130 krónur. Það reyndist vera þykk hveitisúpa með miklu af dósaspergli, hefðbundin magafylling. Með súpunni gátu gestir skorið sér sjálfir af fjórum mismunandi tegundum af ágætu brauði. Hamborgarar og samlokur eru einnig á boðstólum.

Mest hefur verið lagt í nýtízkulegar innréttingar í PÍTUNNI í Skipholti. Þar er rúm fyrir um 50 manns á gráum stólum við grá borð hringlaga. Skemmtilega er gengið frá loftræstingu í lofti. Á gólfi er bæði teppi og marmaraflísar og marmari er einnig í afgreiðsluborði. Í stórum gluggum er mikið blómahaf. Og loks er sjónvarpstæki í stóru barnahorni. Bezt var á staðnum, að pappírsþurrkurnar drukku í sig vökva, en hrintu honum ekki frá sér eins og tíðkast yfirleitt, þar sem þurrkur eru hafðar í stauk á borðum.

Pítan minnti á alvörupítu, borin fram í pappír á plastbakka. Innvolsið í pítunni var meira en á hinum stöðunum og meira en pítan þoldi, svo að borðhaldið var að jafnvægisæfingum við hreinlætistilburði. Efst var óhæfilega mikil eggjasósa og undir henni mikið af hrásalati. Neðst var djúpsteiktur fiskur, hæfilega eldaður, vel heitur og ágætur á bragðið.

Í Pítunni fengust tólf mismunandi fyllingar og var miðjuverðið 272 krónur, að kaffi inniföldu. Einnig fengust hamborgarar á 170 krónur. Í upprunalöndunum er píta borðuð standandi úti á gangstétt. Þar gerir því ekki mikið til, þótt eitthvað sullist niður. Hér er veðurfar hins vegar þannig, að píturnar þarf að borða innanhúss. Bezt væri að gera það standandi, því að seta við borð hlýtur að auka mjög viðskipti hjá fatahreinsunarstofum. Stofurnar þrjár eru ekki hannaðar með tilliti til þessa sjónarmiðs.

Loftslagið hér á landi býr svo til húsaleigukostnað, sem ekki er á gangstéttum úti í heimi. Þess vegna eru svokallaðar pítur dýrari hér en í sumum öðrum löndum og virðist lítið við því að gera. Og raunar eru píturnar ekki dýrari en annar skyndibitamatur, ef allt er talið, sem við þarf að éta.

Fábreytt innihald

Verðlag íslenzku pítustaðanna er nokkurn veginn hið sama. Tegundir innihalds eru líka mjög svipaðar og bera ekki vitni um neina hugkvæmni. Lítið sem ekkert er um austurlenzka hakkrétti, en mikil áherzla lögð á kótilettur og hrásalat, svo og kjúklingabita og djúpsteiktan fisk. Kótiletturnar eru yfirleitt bornar fram til hliðar, en ekki ofan í pítunni.

Pítustaðirnir þrír hafa hver sína kosti og sína galla. Pítuhornið er minnst og alúðlegast, en þar er brauðið langsamlega ólíkast eðlilegum pítum. Maturinn er breytilegastur í Pítuhúsinu Rex, stundum beztur og stundum verstur. Matarmagnið er mest í Pítunni, raunar svo að út úr flóir. Um leið er fatahreinsunarhættan mest þar. Pítuhúsið Rex er eini staðurinn, sem býður kryddað hakk í pítu, að vísu ekki austrænt, heldur vestrænt, en það felur þó í sér viðleitni, sem svo er ekki staðið við, þegar kryddið vantar.

Sameiginlegur galli allra þessara staða er, að þeir hafa tæpast raunverulegar pítur á boðstólum. Þrátt fyrir hann má þó segja, að þessir þrír skyndibitastaðir bjóði áhugaverðari mat en flestir aðrir veitingastaðir af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Síminn knúinn til þjónustu

Greinar

Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra hefur knúið Póst- og símamálastofnunina gegn vilja hennar til að hefja undirbúning að útgáfu sundurliðaðra símareikninga. Þar með er í augsýn, að gamalt baráttumál DV gegn kerfiskörlum fái farsæla og sjálfsagða niðurstöðu.

DV hefur margsinnis bent á, að í Bandaríkjunum fá símnotendur sundurliðaða reikninga, þar sem fram kemur, hvenær hringt er í hvaða númer, hversu lengi er talað og hve mikið hvert símtal kostar. Símnotendur fá reikninga, sem eru líkir venjulegum reikningum.

Póst- og símamálastofnunin hefur ætíð fjandskapazt við hugmyndir um, að hún gefi út reikninga með sama hætti og aðrir seljendur vöru og þjónustu. Hún hefur á sínum snærum sérstakan blaðafulltrúa, sem hefur hamazt gegn tilraunum til að hafa vit fyrir stofnuninni.

Hugarfarið hjá Póst- og símamálastofnuninni hefur verið, að hún viti bezt, hvað sé símnotendum fyrir beztu. Sundurliðun símareikninga kosti peninga, sem notendur verði að borga og “þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig”.

Ekki ætti að vera á verksviði embættismanna að ákveða, hvað fólk vill fá og borga og hvað ekki. Í þess stað hefði Póst- og símamálastofnunin fyrir löngu átt að vera búin að gefa almenningi kost á að vita, hvað hann er að borga, þegar hinir fjallháu reikningar birtast.

Frægt var, þegar 90 þúsund króna reikningur kom í Stykkishólmi á síma, er hafði verið lokaður allt greiðslutímabilið. Póst- og símamálastjórnin gafst ekki upp í málinu, fyrr en sýslumaður var kominn í það. En ekki eru allir svo heppnir að geta sannað símabindindi sitt.

Enn eru símnotendur yfirleitt varnarlausir gegn ofbeldi Póst- og símamálastofnunarinnar. Einskisnýtt er að segja, að reikningur hljóti að vera rangur, því að síminn hafi ekki verið notaður eins mikið og gjaldið sýni. Þú færð bara fógeta og kostnað í hausinn.

“…stjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan, hvenær sem það verður, verði flutningsgjaldið á síma hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”

Ofangreind tilvitnun í viðbrögð stofnunarinnar við kvörtunum um gjaldtöku af síma, sem ekki var til, er dæmigerð um ástandið á þeim bæ. Svo að segja úr hverju orði drýpur hugarfar, sem aðeins getur orðið til við langvinna ræktun í opinberri einokunarstofnun.

Síðan ráðherra setti stofnunina upp við vegg hefur hún skyndilega uppgötvað, að stafrænu símstöðvarnar geri sundurliðun ódýrari en áður hefði orðið. Hið rétta mun vera, að í þessum nýju stöðvum þurfi sundurliðun lítið annað að kosta en aukinn pappír í reikninga.

Vegna þessarar uppgötvunar er þess skammt að bíða, að 25 þúsund notendur fái sundurliðaða reikninga frá Póst- og símamálastofnuninni. Það eru þeir, sem hafa símanúmer, er byrja á tölustafnum 6. Þetta er mikilvægt skref að sæmilegum friði milli fólks og stofnunar.

Þegar sumir eru farnir að fá sundurliðaða reikninga frá þessari stofnun eins og venjulegt er í viðskiptum með vöru og þjónustu, getur hún ekki lengur staðið gegn því, að sama þjónusta verði síðan veitt hinum, sem ekki eru tengdir hinum nýju, stafrænu símstöðvum.

Knésetning Póst- og símamálastofnunarinnar í máli þessu er tímamótaviðburður, sem felur í sér einn af markverðustu sigrum almennings á þessum áratug.

Jónas Kristjánsson

DV

Dómstóla-doðinn

Greinar

Hæstiréttur er orðinn skotspónn sérstakrar ádeilubókar eftir þekktan lögmann, auk fyrri gagnrýnisgreina í tímaritum lögfræðinga og laganema. Ennfremur hafa fimm saksóknarar sent dómsmálaráðherra bréf og kvartað yfir ruglingslegum hæstaréttardómum.

Hæstiréttur er ekki eini skotspónninn í réttarkerfi Íslands. Um þessar mundir er rekið mál gegn því fyrir mannréttindadómstóli Evrópuráðsins í Strasbourg. Ennfremur ríkir vaxandi óánægja með stjórnleysi og seinagang hjá Borgardómi og Sakadómi í Reykjavík.

Samanlagt segir allt þetta þá sögu, að taka megi til hendinni í réttarkerfinu. Sumpart þarf að setja lög, til dæmis um aðskilnað stjórnsýslu og dómsvalds. Einnig verða dómstólar að bæta starf sitt innan ramma núgildandi laga, einkum með því að vinna meira og hraðar.

Borgardómur og Sakadómur bera stundum svip bandalags smákonungsríkja. Sumir dómarar virðast ekki nenna að vinna neitt að ráði og komast upp með að liggja á einstökum málum langt umfram hefðbundinn tíma. Yfirmenn þeirra þykjast engu ráða um þetta.

Ef allir dómarar ynnu verk sín af samvizkusemi og hóflegum dugnaði og væru skemur í kaffi, má fullyrða, að enginn umtalsverður málahali væri stíflaður hjá dómstólum landsins. Gera þarf yfirmönnum dómstóla kleift að aga doðnu dómarana eða losa sig við þá.

Það er líka doði, en ekki fyrirlitning á mannréttindum, sem veldur því, að Ísland er dregið fyrir dómstól Evrópu. Dómsmálaráðuneytið hefur einfaldlega ekki nennt að hafa frumkvæði að lagafrumvörpum um aukinn skilnað framkvæmda- og dómsvalds í landinu.

Hinar skammarlegu fréttir frá Strasbourg hafa knúið ráðuneytið til bragarbótar. Gera má ráð fyrir, að á þessu þingi verði sett lög, sem samræmi íslenzka kerfið vestrænum mannréttindahefðum. Hinn nýi ráðherra hefur lagt áherzlu á, að þessi merki árangur náist.

Hugsanlegt er, að doðinn, sem hér hefur verið nefndur, setji einnig svip á Hæstarétt. Hinn fátæklegi rökstuðningur réttarins fyrir dómum sínum getur hreinlega stafað af, að dómararnir nenni ekki eða telji sig ekki hafa tíma til að fara ofan í svokölluð smáatriði.

Forseti Hæstaréttar er ekki sannfærandi, þegar hann heldur fram, að ekki þurfi að fjalla um allar hliðar málsins, ef dómstóllinn telur, að ein málsástæða nægi til að komast að niðurstöðu. Í löndum eins og Bandaríkjunum og Noregi eru ítarleg rök talin nauðsynleg.

Enn síður er traustvekjandi, er forseti Hæstaréttar segir dæmin um óhóflega hollustu dómstólsins við ríkisvaldið vera of ný til að vera marktæk um 67 ára sögu hans. Vandinn er ekki sagnfræðilegur, heldur lifandi vandi, sem brennur á þjóðfélaginu þessa dagana.

Hitt má svo segja Hæstarétti til málsbóta, að hann hefur á síðari árum ekki haft eins mikla tilhneigingu til að draga taum ríkisvaldsins og hann hafði fyrr á árum. Á þetta hafa bent sumir þeir, sem hafa fjallað um ádeiluna á Hæstarétt og viðbrögð forseta réttarins.

Umræðan í þjóðfélaginu á öndverðum þessum vetri um vandamál í réttarkerfinu hefur verið nytsamleg og mun áreiðanlega leiða til endurbóta í mörgum eða jafnvel flestum þáttum þess. Það sýnir, að þjóðin hefur burði til að koma lýðræði sínu í sómasamlegt horf.

Annmarkarnir eru fæstir kerfisbundnir, heldur stafa fyrst og fremst af doðanum, sem löngum hefur einkennt dómsmálin í landinu, dómstólana og einstaka dómara.

Jónas Kristjánsson

DV

Neytendur eru sauðfé

Greinar

Komið hefur í ljós, að neytendur halda áfram að kaupa egg eins og ekkert hafi í skorizt, þótt verð þeirra margfaldaðist í vikunni og Neytendasamtökin hvettu fólk til að hætta að kaupa egg. Frá þessu skýrðu verzlunarstjórar Miklagarðs og Hagkaups hér í blaðinu í gær.

Í Bandaríkjunum stóð fólk einhuga með formanni neytendasamtakanna, þegar hann hvatti það til að svara hækkun nautakjöts með því að hætta að kaupa nautakjöt, þar til annað yrði ákveðið. Eftir tvær vikur hrundi nautakjötsverðið niður fyrir upprunalegt verð.

Í nágrannalöndum okkar láta neytendur ekki bjóða sér samsæri um 30% hækkun og hvað þá 300% hækkun án þess að svara af hörku. Það gildir til dæmis jafnt um danska sem bandaríska neytendur, að þeir eru reiðubúnir að neita sér um vöru til að gæta hagsmuna sinna.

Hér láta neytendur sem egg séu einhver lífsnauðsyn, er þeir geti ekki verið án í einn dag og hvað þá nokkrar vikur. Samt er mataræði Íslendinga með þeim hætti, að hollara væri að draga úr eggjaáti en halda því óbreyttu og bráðhollt væri að fara í langt eggjafrí.

Egg geta stuðlað að auknu kólesteróli, sem er meira hjá Íslendingum en næstum öllum öðrum þjóðum veraldar. Læknar, sem eru sérfræðingar í hjartasjúkdómum, ráðleggja yfirleitt fólki að fara varlega í eggjaáti til að draga úr líkum á bilunum í hjarta- og æðakerfinu.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, að egg eru engan veginn nauðsynleg í bakstri. Birtar hafa verið uppskriftir því til stuðnings. Ekkert af þessu hefur fengið neytendur ofan af þeim bjargfasta ásetningi að kaupa alltaf jafnmikið af eggjum, hvað sem þau kosta.

Við aðstæður af þessu tagi er auðvelt að skilja, af hverju máttur neytendasamtaka er minni hér á landi en í nálægum löndum. Augljóst er, hvers vegna hagsmunir neytenda verða hér jafnan að víkja, ef árekstrar verða við sérhagsmuni seljenda vöru og þjónustu.

Engir hafa af þessu meiri hag en umboðsmenn hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar. Þeir eru vanir að umgangast sauðfé heima hjá sér og þeir kunna að umgangast neytendur á sama hátt. Enda verður ekki betur séð en neytendur eigi skilið að vera taldir sauðfé.

Skrifstofa verðlagsstjóra gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðfélagi, þar sem neytendur eru eins konar sauðfé. Stofnunin gerir sér þó mun atvinnugreina, er hún fjallar um hagsmuni neytenda. Landbúnaður nýtur mildari meðferðar en aðrar greinar, einkum í lögfræðideildinni.

Ef grunur leikur á verðsamkomulagi venjulegra framleiðenda, er lögfræðingur stofnunarinnar óðar búinn að kæra. Þegar eggjamenn semja um að margfalda eggjaverð, eru þeir beðnir um að koma á stofuna til að ræða, hvort ekki sé hægt að skila hluta þýfisins aftur.

Þar á ofan er eggjamönnum ógnað með sexmannanefnd, sem er ein þeirra stofnana, er mesta ábyrgð bera á því skrímsli, sem landbúnaðurinn er orðinn í þjóðfélaginu. Búast má við, að eggjamenn fagni því á laun, að svo hliðholl nefnd ákveði eggjaverð í landinu.

Allt byggist þetta á, að neytendur hafa ekki bein í nefinu til að fara í taugastríð við þá, sem meðhöndla þá eins og sauðfé. Neytendur hafa í raun hafnað að stjórna sjálfir verði á kjöti og mjólkurafurðum, eggjum og grænmeti í landinu með sjálfsstjórn á innkaupum.

Enn er ekki vitað, hver verður niðurstaða eggjamálsins. En hún mun hafa hliðsjón af, að neytendur hyggjast ekki bera hönd fyrir höfuð sér frekar en fyrri daginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjanghæ

Veitingar

Leifturárás starfsliðs

“Það er bannað að skrifa upp úr matseðlinum” var sagt við hlið mér, þar sem ég sat við súpuna í Sjanghæ í hádeginu og var að skrifa niður minnisatriði úr matseðli, sem ég hafði fengið lánaðan. Þjónustan var mjög ákveðin, að ég skyldi ekki komast upp með moðreyk, svo að ég sagði til að róa manneskjuna, að þetta væri allt í lagi, hún gæti fengið matseðilinn rétt strax.

Þá fór hún fram í eldhúsgætt og kallaði: “Það er maður að skrifa upp úr matseðlinum”, svo að hinir fáu gestir staðarins máttu skýrt heyra. Síðan kom hún með kokkinn, sem virtist vera valdamaður á staðnum, og klagaði mig fyrir honum. Hann brosti vandræðalega og horfði á mig ásökunarsvip, en baðst engrar afsökunar, og hvarf, þegar ég rauf þögn mína og tjáði þeim, að þau væru að spilla matarlyst minni. Sem var laukrétt.

Ekki stafaði þessi leifturárás starfsfólks á gest af því, að matseðillinn væri eins konar viðskiptaleyndarmál. Hann er nákvæmlega eins og aðrir hversdagslegir matseðlar í vestrænum veitingahúsum, sem þykjast vera með kínverska matreiðslu. Og ekki gat tiltölulega hátt verðlag hans heldur verið leyndarmál, því að seðillinn er birtur með verði og öllu utan á húsvegg Sjanghæs. Og loks vantaði ekki seðla handa öðrum gestum, því að húsið var nærri autt.

Að baki árásarinnar hlýtur að liggja andrúmsloft staðarins, þar sem sjálfkrafa ræktast óbeit eða fyrirlitning á gestum. Sjálfur man ég aðeins einu sinni eftir að hafa áður orðið fyrir aðkasti starfsfólks í veitingahúsi og það var mun vægara en þetta. Enda er bundið í háttvísishefðum veitingarekstrar, að viðskiptavinir eru taldir saklausir, unz sekt þeirra er sönnuð.

Skömmu síðar kom ég að kvöldlagi í Sjanghæ og fékk eðlilegar viðtökur. Þá var stofnandi veitingastaðarins í eftirliti á staðnum og starfsfólk að mestu leyti annað en í hádeginu nokkrum dögum fyrr.

Ógnarlangur matseðill

Matseðillinn er ógnarlangur, að vestrænum hætti Kínahúsa. Þar er fyrst ein síða með ýmsum föstum hádegisréttum, svo og súpu og rétti dagsins. Almenna framboðið er næst, á mörgum síðum. Það skiptist í ýmsar deildir eftir grundvallarhráefnum. Matreiðsluaðferðirnar endurtaka sig svo í sífellu milli deilda. Til dæmis er boðið upp á súrsæta sósu með nærri öllum réttum. Aftast eru loks nokkrar síður með ýmsum samsetningi heilla máltíða fyrir hópa, til dæmis fyrir fjóra saman.

Sjanghæ hefur flutzt úr kjallara upp á jarðhæð, þar sem áður var Café Gestur og einu sinni Askur. Ég hef áður sagt frá efasemdum mínum um innréttingar Gests, sem hafa haldizt að mestu leyti, þar á meðal óþægilegu og ljótu básarnir fremst í húsnæðinu.

Til að sýna, að veitingastaðurinn sé kínverskur, hefur verið bætt ofan í innréttingarnar ýmsu dóti úr plasti, svo sem drekasúlum milli salarhluta, gylltum ferningum í lofti, rauðum skrautrenningum við veggbrún, kínverskum ljósakrónum og vegglömpum, svo og fleiru í slíkum dúr. Stíllinn var mun hreinlegri og betri í kjallaranum, þar sem Sjanghæ var áður til húsa.

Gólfteppið var afar óhreint í hádeginu, þótt ekkert væri vott að veðri úti, en í kvöldheimsókninni var svo skuggsýnt inni, að ég sá ekki, hvort teppið var óhreint. Á borðum eru þær efnisrýrustu þurrkur, sem ég hef komizt í tæri við, fremur óhentugar í kínversku borðhaldi.

Grænt te ekki til

Fyrri metnaður Sjanghæs hefur dofnað á fleiri sviðum. Í einni heimsókninni var ekki unnt að fá grænt te og hlýtur sá skortur að vera heimsmet eða jöfnun á heimsmeti í kínverskum veitingarekstri. Á gamla staðnum man ég eftir margs konar te. Og þar voru líka bornar fram kertaljósaplötur til að halda te heitu, en ég varð ekki var við slíkt á nýja staðnum. Hitaplöturnar, sem settar voru á borðið, voru ekki ætlaðar tenu og komu ekki til skjalanna fyrr en að áliðnu borðhaldi og köldu te um kvöldið og alls ekki í hádeginu. Prjónar eru fáanlegir, ef óskað er eftir.

Krupuk nefnist stökkt brauð með votti af rækjubragði, sem gott er að nota sem lystauka fyrir mat. Það var frambærilegt í Sjanghæ, borið fram með miklu af súrsætri sósu rauðri, sem bar brauðið ofurliði. Þykk maís-súpa var undarlega sæt hveitisúpa með miklu af smábitum kjúklinga og maís. Soðin hrísgrjón, sem fylgdu öllum aðalréttum, voru rétt elduð og snarpheit.

Vorrúllur staðarins voru snarpheitar og góðar, með þunnri og stökkri skurn, bornar fram með súrsætu sósunni, sem áður er nefnd, svo og ýmiss konar grænmeti. Steikt hrísgrjón með eggi voru vel heppnuð. Súrsætar rækjur, stórar og meyrar, voru bezti matur staðarins, í fylgd með ananas úr dós.

Nauta-sjopsúei var fremur seigt, hlaðið breiðum sveppahlemmum, kúlusveppum og öðru grænmeti. Kjúklingur með bambusspírum, sveppum, papriku og möndluflögum dró í bragði einkum dám af flögunum, en var samt frambærilegur. Lambakarrí var meyrt og gott, en rosalega kryddað. Peking-önd var betri, enda var hún í senn afar meyr og hóflega krydduð.

Fjórar tegundir kínverskra ávaxta úr dósum voru á boðstólum sem eftirréttir. Guava var bezt, síðan lichee, en mango var sæmilegt og rambuteau sízt.

Leyndarmálið varðveitt

Í Sjanghæ kostar kvöldmáltíð með te 1.480 krónur, ef samsettu seðlarnir eru notaðir, og 1.425, ef fólk raðar sjálft saman þremur réttum. Súpa, te og einn réttur dagsins kosta í hádeginu 795 krónur. Eurocard er ekki tekið gilt. Á kvöldin fylgdu ágætar málsháttakökur með reikningnum.

Af tillitssemi við óupplýst leyndarmál staðarins verður ekkert birt úr matseðlinum að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV