Author Archive

Hin þjóðlega þrjózka vor

Greinar

Eins og Ísraelsmenn eru Íslendingar þrjózkir og láta útlendinga ekki segja sér fyrir verkum. Hvalveiðar okkar eru ekki lengur aðallega atvinna, heldur fyrst og fremst hugsjón, sem við teljum okkur verða að halda uppi, sumpart til að sýna, að við séum sjálfstæð þjóð.

Helmingur þjóðarinnar stendur að baki sjávarútvegsráðherra sínum. Fjölmiðlar verða að fara varlega, ef þeir fjalla um löggiltan þjóðaróvin á borð við Paul Watson. Þeim hefur líka verið bent á, að óþjóðlegt sé að nota orðið hvalur fyrir það, sem nú heitir sjávarspendýr!

Til að fylgja eftir þessari nýju þjóðarhugsjón hefur sjávarútvegsráðherra tekið forustu fyrir hvalveiðiríkjum heims, það er að segja þeim fáu, sem þora að senda menn á ráðstefnu til Reykjavíkur. Allt bendir til, að Ísland muni knýja fram fleiri fundi af slíku tagi.

Fljótlega mun Ísland með sama áframhaldi taka við af Japan í augum Bandaríkjamanna sem höfuðvígi hugsjónar hvalveiða eða veiða á sjávarspendýrum, eins og það heitir nú. Vafalaust hefur þjóðin manndóm til að standa undir vandamálum, sem fylgja þeirri vegsemd.

Erlendir sérfræðingar í svonefndum ímyndarfræðum hafa bent okkur á, að nauðsynlegt sé að ráða þá sjálfa til að vinna að breyttri ímynd hvalveiða meðal útlendinga, ekki sízt hinna frægu amerísku ríkidæmis-kerlinga, sem sagðar eru gefa Watson sparifé sitt.

Þeir hafa meðal annars bent á, að kanadískir umhverfisverndarmenn hafi gert sjónvarpskvikmynd, þar sem hringormar sjáist engjast í þorskflaki á steikarpönnu. Þetta eigi fljótlega að sýna í kanadísku sjónvarpi til að refsa okkur fyrir viðhorfin til hvalveiða.

Hugmynd ímyndarfræðinganna er vafalaust, að með gífurlegum samskotum hvalveiðiþjóða megi fá fé til að breyta viðhorfum amerískra kerlinga á þann hátt, að kanadískar sjónvarpsstöðvar telji ekki hringorma jafngóða söluvöru og þýzku sjónvarpi þótti í fyrra.

Áður fyrr var unnt að segja, að einfaldasta leiðin út úr vandræðum af þessu tagi væri að losa sig við fornfálegan atvinnuveg, sem gefi lítið í aðra hönd og haldi starfsfólki frá öðrum verkefnum, sem virðist nóg af hér á landi, ef marka má atvinnuauglýsingar í dagblöðum.

Nú má hins vegar halda fram, að vernda beri hvalveiðar eins og landbúnað og að það sé þjóðernisleg skylda okkar að þrjózkast við þær, jafnvel þótt það kosti stórfé til áróðurs- og ímyndarfræðinga, til viðbótar við kostnað af ráðstefnum um svokölluð sjávarspendýr.

Alþingi var áður búið að taka fyrri afstöðuna með því að fallast á, að hvalveiðar yrðu lagðar niður. En margt hefur síðan gerzt. Sjávarútvegsráðherra hefur fundið upp svokallaðar vísindaveiðar á hvölum, sem hafa breytt hagrænni hugsun þjóðarinnar í hugsjón.

Af hugsjónaástæðum neyðumst við til að veiða hundrað hvali árlega með miklum veiði- og vinnslukostnaði og útgjöldum við ráðuneyti og ráðstefnur, þótt lítið sé tryggt af tekjum á móti, jafnvel þótt Japanir reyni að kaupa í laumi eitthvað af hvalaafurðum.

Hagrænna væri að nota peningana, sem fara í þennan kostnað og í útgjöldin við ímyndarfræðinga sjávarútvegsráðuneytisins, til að verjast hinu raunverulega vandamáli þjóðarinnar, sem er, hvernig verði hægt að fá útlendinga til að halda áfram að borða þorsk.

En sjávarútvegsráðherra og helmingur þjóðarinnar eru sammála um, að meira máli skipti að láta útlendinga vita, að þeir geti ekki sagt okkur fyrir verkum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt höfumst við að

Greinar

Skoðanakannanir fengu góða uppreisn æru á mánudaginn, þegar birtar voru nokkurn veginn samhljóða niðurstöður skoðanakannana DV og Hagvangs um stjórnmálafylgið í landinu. Eru þeir nú fáir eftir, sem segja slíkar kannanir ekki spegla raunveruleikann.

Önnur könnun hefur lent heldur betur í hremmingum að undanförnu. Það er könnunin á lestri tímarita, sem Verzlunarráð lét Félagsvísindastofnun Háskólans gera fyrir sig í vetur. Aðilar þeirrar könnunar hafa sætt þungri og efnislegri gagnrýni á meðferð málsins.

Hlutur Félagsvísindastofnunar er minni í því máli, en þó ámælisverður. Stofnunin kaus að setja niðurstöður sínar fram á þann hátt, að þær yrðu ósambærilegar við fyrri kannanir af því tagi. Þar með vantaði hið mikilvæga og raunar nauðsynlega sögulega samhengi í málið.

Hingað til hafa lestrarkönnuðir jafnan lagt mesta áherzlu á að komast að raun um, hversu margir lesi ákveðið blað eða tímarit að staðaldri eða oft. Tölur um slíkan lestur hafa ætíð verið þær, sem kynntar hafa verið opinberlega sem niðurstöður könnunarinnar.

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar voru þær tölur hins vegar ekki reiknaðar út, heldur lögð megináherzla á tölur um fólk, sem hafði séð tímaritið á einu ári, þar með talið fólk, er hafði séð það aðeins einu sinni. Í slíkar tölur vantar sögulegt samhengi við fyrri kannanir.

Starfslið DV reyndi stíft að fá hinar raunverulegu upplýsingar. Á endanum voru tölurnar reiknaðar út á ritstjórn DV. Í fyrradag gat blaðið birt samlagningartölur, sem Félagsvísindastofnun hafði ekki hirt um að birta. Þannig gátum við leiðrétt niðurstöður hennar.

Annars staðar í DV í dag er skýrt frá, hversu mikið blaðið hafði fyrir að afla upplýsinga í máli þessu. Við vildum ekki trúa, að könnunin væri án samhengis við eldri lestrarkannanir, þótt endurtekin viðtöl blaðsins við talsmann Verzlunarráðs bentu til, að svo væri.

Hins vegar gátum við ekkert gert í skekkjunni, sem er afleiðing mikillar útbreiðsluherferðar fyrir nokkur tímaritanna á vikunum fyrir lestrarkönnun. Sú skekkja er enn í útkomunni, þótt við höfum lagfært hinar villandi tölur, sem Félagsvísindastofnun lét frá sér fara.

Deila má um, hvort það var af ásettu ráði eða fávísi hjá Verzlunarráði, að skoðanakönnunin fylgdi í kjölfar hinnar hrikalegu útbreiðsluherferðar. En alténd er ljóst og viðurkennt af öllum, að Verzlunarráði var bent á vandamálið nokkru áður en könnunin var framkvæmd.

Með vinnu DV í málinu hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda ranglega, að lestur tímarita hefði tvöfaldazt síðan síðast var kannaður lestur tímarita.

Ennfremur hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda, að lestur tímarita Frjálsrar verzlunar væri töluvert meiri en hann er í raun og veru.

Því miður benda viðbrögð ráðamanna Félagsvísindastofnunar og Verzlunarráðs til, að báðir aðilar séu að minnsta kosti sáttir við frammistöðu sína, ef ekki hreinlega ánægðir. Það bendir til, að framvegis verði að taka niðurstöðutölum kannana þeirra með varúð og efa.

Framvinda málsins vekur líka ótta við, að það sé fremur ásetningur en fávísi, sem valdi hinum gagnrýndu vinnubrögðum, einkum af hálfu Verzlunarráðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Hingað og ekki lengra

Greinar

Samtök neytenda hér á landi hafa verið að braggast allra síðustu árin. Hörð viðbrögð þeirra við einokun eggja og kjúklinga er hið snaggaralegasta, sem hefur sézt til þeirra. Viðbrögðin kunna að vera tímanna tákn um, að íslenzkir neytendur láti ekki lengur sparka í sig.

Mikil verðbólga hefur stuðlað að tregum skilningi neytenda á verðlagi og dregið úr samtakamætti þeirra. Fólk hefur litið afstæðum augum á verð, sem var eitt í gær, annað í dag og verður hitt á morgun. Samanburður verðs hefur jafnan reynzt neytendum erfiður.

Þetta er raunar eðlilegt á verðbólgutímum, þegar gengi einstaklinga og fyrirtækja ræðst fremur af aðgangi þeirra að gæludýrafóðri, það er að segja að ódýru fjármagni með niðurgreiddum vöxtum, heldur en af hefðbundinni útsjónarsemi í meðferð peninga.

Viðbrögð neytenda við tæplega þreföldun eggjaverðs á öndverðum þessum vetri gáfu þó ekki tilefni til bjartsýni. Úthald þeirra reyndist vera nákvæmlega ein vika. Eftir einnar viku ládeyðu í eggjasölu færðist salan aftur í það horf, sem verið hafði fyrir verðsprenginguna.

Neytendasamtökin hafa nú kosið að treysta minna á almenning og þeim mun meira á þá kaupmenn, sem hafa góða reynslu af að bjóða lágt verð. Margir þeirra hafa fallizt á að neita að kaupa egg og kjúklinga inn í búðir sínar á hærra verði en samtökin telja hæfilegt.

Eftir er að sjá, hvort margir kaupmenn bili á taugum og taki að sér að selja dýru eggin og kjúklingana í von um, að ístöðuleysi íslenzkra neytenda dragi þá til viðskipta. Tilfærsla viðskipta frá hinum, sem standa með neytendum, mundi slæva bitið í hnífi samtakanna.

Auðvitað munu margir neytendur taka eftir, hvaða kaupmenn það eru, sem vilja leggja á sig eggja- og kjúklingabannið vegna samstöðu með neytendum og samtökum þeirra, og hvaða kaupmenn það eru, sem standa með sívaxandi kúgun, er neytendur hafa orðið að sæta.

Þjóðfélagslega er mjög mikilvægt, að sem flestir neytendur skipi hópinn, er stendur með þeim kaupmönnum, sem standa með neytendum. Ef það gerist í eggja- og kjúklingastríðinu, sem nú geisar, markar það þáttaskil í sögu verzlunar, þjónustu og neyzlu á Íslandi.

Ef stjórnmálamenn okkar sjá neytendur loksins verða að afli, munu margir þeirra snúa við blaðinu. Hingað til hafa þeir fyrirlitið neytendur, jafnvel þótt þeir hafi orðið að sækja fylgi til þeirra. Þingmenn Reykjavíkur svæðis og sjávarsíðu hafa aldrei stutt neytendur.

Sem dæmi um ástandið má nefna, að ekki er langt síðan stærsti stjórnmálaflokkurinn gerði að formanni sínum sveitaþingmann, sem er og verður upptekinn við að vernda kartöfluflöguverksmiðju og gæta annarra hliðstæðra hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar.

Framsóknarflokkurinn hefur oft verið hengdur af almenningsálitinu fyrir að hafa forustu í kúgun íslenzkra neytenda. Það er ekki fyllilega sanngjarnt, því að svo lengi, sem munað verður, hafa Alþýðubandalag og Kvennalisti yfirboðið hann í þjónkun við landbúnað.

Í ríkisstjórninni sömdu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur bróðurlega um, hversu langt skyldi ganga í þjónkun við landbúnað og kúgun neytenda. Samkomulagið féll á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem fékk framgengt, að orðið yrði við öllum kröfum landeigenda.

Ef neytendur og kaupmenn standa sig að þessu sinni, er valdastéttin hefur gagnsókn, munu pólitíkusarnir fá hland fyrir hjartað og þáttaskil verða á skákborðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Verzlunarráð vill hálan ís

Greinar

Framkvæmdastjóri Verzlunarráðs fer með rangt mál, þegar hann segir, að ritstjóri tímaritsins Heimsmyndar sé hinn eini, sem hafi gagnrýnt könnun ráðsins á lestri tímarita. Á fundi hans með fulltrúum dagblaðanna fyrir þessa könnun var hann varaður við henni.

Sú gagnrýni kom úr fleiri áttum en einni og byggðist á því, að fundarmenn höfðu orðið varir við, að hrikaleg útbreiðsluherferð nokkurra tímarita hafði verið tímasett rétt fyrir þann tíma, er vænta mátti könnunarinnar, sem var í umsjá Félagsvísindastofnunar Háskólans.

Á fundinum var dagblöðunum boðin þátttaka í lestrarkönnun ráðsins. Hún átti að verða í spurningavagni, er fundarmenn gátu með sjálfum sér nokkurn veginn tímasett upp á viku. Útgefandi herferðartímaritanna sat í undirbúningsnefnd könnunarinnar hjá ráðinu.

Aðrir tímaritaútgefendur, er fréttu beint eða óbeint af framtakinu, hefðu getað hleypt af stað slíkri herferð til að reyna að vega upp á móti forskoti þess, sem undirbjó könnunina. En vafasamt er, að það sé í verkahring Verzlunarráðs að þvinga útgefendur til herferða.

Þegar Félagsvísindastofnun Háskólans lætur í fátækt sinni ginnast til að kanna lestur tímarita beint ofan í útbreiðsluherferðir, er við að búast, að niðurstöðurnar bendi til, að lestur tímarita hafi aukizt almennt og þá einkum þeirra, sem kynnt voru vikurnar fyrir könnun.

Dagblöðin þágu ekki boð Verzlunarráðs um þátttöku í lestrarkönnun. Á fundinum var ráðinu bent á, að taka kannanir Sambands auglýsingastofa sér til fyrirmyndar, ef ráðið hygðist ryðjast inn á þennan markað. Ekki hefur verið deilt á aðferðafræði þeirra kannana.

Fróðlegt er, að talsmaður Félagsvísindastofnunar telur könnun Verzlunarráðs sýna, að lestur tímarita hafi stóraukizt á undanförnum árum. Ef talsmaðurinn lifði í raunverulegum heimi, vissi hann, að lestur stóreykst ekki eða stórminnkar, heldur rís eða hnígur hægfara.

Ef niðurstaða könnunar bendir til, að breytingar af þessu tagi hafi verið hraðar, en ekki hægar, er eitthvað athugavert við könnunina sjálfa. Hér hefur verið bent á atriði, herferðina, sem Verzlunarráði var skýrt frá fyrir könnun. En það kaus að hlusta ekki á ráð.

Eftir á hefur komið í ljós, að fleira var bogið við könnun Verzlunarráðs og Félagsvísindastofnunar. Samkvæmt fréttum ráðsins virðist fólk hafa verið spurt, hvort það hafi skoðað nafngreind tímarit á árinu. Tölur um það voru hafðar sem niðurstöður könnunarinnar.

Eftir þessu að dæma telja ráð og stofnun það vera lestur, ef fólk flettir slíku tímariti einu sinni á ári á biðstofu. En frægt er einmitt, að sum þessara tímarita eru skipulega gefin á biðstofur í kynningarskyni, svo að auglýsendur telji, að ýmsir sjái auglýsingar frá sér.

Allt önnur viðhorf til lestrar birtust í vönduðum lestrarkönnunum Sambands auglýsingastofa. Þar var spurt, hvort fólk læsi ákveðin dagblöð eða tímarit reglulega. Ósvífið er að bera slíkar kannanir saman við könnun á skoðun einu sinni á ári, svo sem nú hefur verið gert.

Því miður voru lestrarkannanir auglýsingastofunum fjárhagsleg og hvimleið áhætta og byrði. Þess vegna hefur Verzlunarráði tekizt, í krafti óhóflegs eyðslufjár þess, að ryðjast inn á markaðinn og létta lestrarkönnunum af herðum þeirra, sem kunnu þó til verka.

Annarlegast við þetta er, að framkvæmdastjóri Verzlunarráðs var greinilega fyrirfram ákveðinn í að taka ekkert mark á vel rökstuddum viðvörunum um hálan ís.

Jónas Kristjánsson

DV

Hver barði Vestfirðinga

Greinar

Vestfirðingar minna á manninn, sem var sleginn, en reis úr rotinu og barði næsta mann. Vestfirðingar telja sig vera arðrænda, svo að notað sé gamalt og úrelt orð. En þeir gera sér ennþá hvorki grein fyrir, hvernig stendur á því, né hvernig bezt sé að verjast arðráninu.

Í kjaraviðræðum á Vestfjörðum sáu málsaðilar í fyrstu bjargvætt sinn í ríkinu. Fyrir síðustu helgi bentu þeir á lykil að samningsgrundvelli, er gæti raunar gilt um allt land. Hann fólst í, að ríkið niðurgreiddi samninginn með skattaívilnunum handa fiskvinnslufólki.

Þegar það fékkst ekki, gáfust Vestfirðingar ekki upp, heldur héldu áfram að semja upp á eigin ábyrgð, en ekki ríkisins. Í niðurstöðu þeirra er merkilegt fordæmi, nýtt afkastakerfi. Þar sýna þeir hliðstæða forustu og þeir hafa sýnt í andstöðu við aflakvótakerfið.

Vestfirðingar hafa einkum tvenns konar sérstöðu í efnahagslífinu. Í fyrsta lagi er sjávarútvegur og fiskvinnsla stærri hluti þess á Vestfjörðum en í öðrum kjördæmum. Og í öðru lagi er landbúnaður þar vestra minni en í öðrum kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis.

Vestfirðingar hneigjast hins vegar til að einblína á þriðja einkennið, sem kjördæmið á sameiginlegt með kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis. Það er lágt hlutfall þjónustustarfa. Í því vilja Vestfirðingar sjá skýringu á, hvers vegna þeir beri skarðan hlut frá borði.

Þjónustugreinar eru sagðar á verðbólgutímum geta hækkað laun starfsliðs síns og velt hækkuninni út í verðlagið, meðan fiskvinnslan á Vestfjörðum sé háð föstu gengi krónunnar og geti ekki keppt við þjónustuna um starfskrafta. Þetta er í stórum dráttum rétt.

Eðlileg afleiðing þessarar kenningar væri krafa um, að horfið yrði frá fastgengisstefnu og krónunni leyft að fljóta. Það stríðir hins vegar gegn hagfræðilegum trúarbrögðum, sem hafa í vaxandi mæli sett svip sinn á klisjulið íslenzkra stjórnmála síðustu árin.

Þjóðinni mundi samt vegna betur, ef hún hætti að skrá gengi krónunnar, það er að segja hætti að halda henni uppi með handafli. Hér í blaðinu hefur oft verið hvatt til notkunar erlendra gjaldmiðla eða alþjóðlegra reikningseininga í viðskiptum hér á landi.

Rétt skráning efnahagslegra verðmæta, hvort sem það er í íslenzkum krónum, svissneskum frönkum eða evrópskum reiknieiningum, er forsenda þess, að þeir aðilar, sem taka þátt í stóriðju verðmætasköpunarinnar, sjávarútveginum, njóti hæfilegs hluta afrakstursins.

Gengi krónunnar er haldið uppi, af því að ríkið þarf sjálft að nota verðmætasköpunina úr sjávarútvegi. Sumpart er það vafalaust gert til að geta haldið uppi góðum lífskjörum embættismanna og annarra íbúa Reykjavíkursvæðis, en það er ekki nema brot af skýringunni.

Ríkið hefur, með stuðningi Vestfirðinga, tekið að sér að reka hefðbundinn landbúnað í landinu. Þessi hluti ríkisrekstrarins kostar þjóðina og þar með Vestfirðinga sex milljarða króna á þessu ári einu, samkvæmt fjárlögum, sem hingað til hafa vanmetið kostnaðinn.

Í stað þess að beina geiri sínum að þessum ríkisrekstri, sem hirðir af þeim arðinn, hafa Vestfirðingar látið ginnast til að mynda bandalag, þar sem andstæðir hagsmunir landbúnaðar og sjávarsíðu sameinast gegn því, sem þeir telja vera þjónustuveldið fyrir sunnan.

Andúð Vestfirðinga á ónýtu aflakvótakerfi bendir þó til, að þeir hugsi nógu sjálfstætt til að geta fyrstir séð, hver lemur hvern. Þótt þeir hafi ekki séð það enn.

Jónas Kristjánsson

DV

Deilt og drottnað í fáti

Greinar

Deilingar- og drottnunarárátta þeirra, sem komast til valda, er jafnan hættuleg lýðræðinu og þeim sjálfum, sem haldnir eru. Hér hefur ráðherraveikin leitt til millifærslna og miðstýringar, sem torveldar þjóðinni að meta, hvað er efnahagslega heilbrigt og skynsamlegt.

Verra er ástandið, þegar áráttan er reist á öryggisleysi og hræðslu stjórnmálamannanna, svo sem nú er. Skelfdir valdsdýrkendur eru hættulegastir. Ríkisstjórnin rambar milli þverstæðra ákvarðana og gefur til baka með annarri hendinni það, sem hún tók með hinni.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórnin hefur bannað birtingu hinnar nýju þjóðhagsspár. Ráðherrarnir telja, að upplýsingar eigin áróðursráðuneytis séu of hættulegar óútreiknanlegri þjóð. Þær kunni að leiða til aukinna launakrafna og vaxandi óbeitar á ríkisstjórninni.

Áróðursráðuneytið í Þjóðhagsstofnun á ekki sjö dagana sæla. Ýmsir aðilar úti í bæ hafa tekið að sér að spá nákvæmar fyrir þjóðinni en gert er af hálfu landsstjórnarinnar. Steininn tók úr, þegar stofnunin breytti skyndilega mati sínu á viðskiptahalla síðasta árs.

Í október taldi stofnunin, að hallinn yrði hálfur þriðji milljarður. Þremur mánuðum síðar telur hún núna, að hann hafi orðið hálfur sjöundi milljarður. Hún virðist í fyrra skiptið hvorki hafa vitað um stöðu útflutningsbirgða né um áhrif gengisskráningar á innflutning.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í vetur hafa frá upphafi einkennzt af millifærslum. Matarskatturinn var upphaflega öðrum þræði tilraun til að einfalda skattakerfið, en missti þess marks, þegar farið var að fjölga skattstigum og stórauka niðurgreiðslur í landbúnaði.

Þótt ríkishakkavélin hafi verið voldug fyrir, reyndist enn unnt að magna hana. Það var gert með því að auka niðurgreiðslur um þrjá milljarða og koma landbúnaðarliðum fjárlaga upp í sex milljarða. Afar erfitt mun reynast að losna úr slíkum millifærslu-frumskógi.

Ráðagerðir stjórnarinnar voru handahófslega unnar og leiddu til óvandaðrar nætur- og helgidagavinnu á Alþingi. Niðurstöður raunveruleikans urðu ekki hinar sömu og í talnaleikjum ríkisstjórnarinnar. Í ljós kom, að byrðar fólks höfðu verið þyngdar verulega.

Svipuð skelfing greip um sig í ríkisstjórninni og hafði orðið fyrr í vetur, þegar matarskatturinn fæddist á afturfótum. Ráðherrar gefa þessa dagana í skyn hver um annan þveran, að til greina komi að lækka skattleysismörk til að bæta sumu láglaunafólki skattahækkunina.

Á óreiðuflótta af þessu tagi hafa menn ekki tíma og kjark til að horfast í augu við, að eftirgjafir á tekjuskatti hafa sömu áhrif og eftirgjafir á matarskatti. Þær rýra tekjuhlið fjárlaga, magna þannig hallarekstur ríkissjóðs og auka með því veltu, vexti og verðbólgu.

Hræðslan við krónugengið er þó flestu öðru yfirsterkari. Reynt er að bæta hag frystihúsanna með að gefa eftir söluskatt og ennfremur reynt að kaupa frið fiskvinnslufólks með því að veifa sérstökum skattfríðindum, það er að ríkið taki óbeint að sér hluta kaupgreiðslnanna.

Með því að neita að horfast í augu við gengisstaðreyndir er stjórnin að kippa fiskvinnslunni með sér inn í draumaheiminn og byggja þar upp miðstýrðan ríkisrekstur á borð við landbúnað, þar sem millifærslur og talnaleikir leysa efnahagslögmálin af hólmi.

Deilingar- og drottnunarveikin varð margfalt skæðari við að blandast ráðleysi og fáti skelfingar. Þessa dagana bakar blandan okkur millifærslur og miðstýringu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir benda á ógengin spor

Greinar

Ríkisstjórnin og málflutningsmenn hennar í Þjóðhagsstofnun og á sjónvarpsfréttastofum leggja mikla áherzlu á að kenna væntanlegum kjarasamningum um núverandi verðbólgu og önnur vandræði, sem tvær ríkisstjórnir hafa hjálpazt að við að kalla yfir þjóðina.

Frá því nokkru fyrir áramót hafa valdsmenn þessir margtuggið, að kjarasamningarnir á næsta leiti valdi óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Birtar hafa verið tölur um gífurleg verðbólguáhrif þeirra. Ennfremur er sagt, að þeir muni valda gengislækkun krónunnar.

Þjóðhagsstofnun hefur meira að segja látið frá sér heyra, að núverandi raunvextir, sem mörgum finnast óþægilega háir, séu væntanlegum kjarasamningum að kenna. Virðist hún telja, að möguleikinn á verkföllum og launahækkunum sé að rugla lántakendur í ríminu.

Háu vextirnir stafa auðvitað ekki af slíkri framtíðarsýn, heldur af þegar fram kominni reynslu lánamarkaðarins. Ríkið hefur, einkum síðasta árið, haft forgöngu um að auka eftirspurn peninga og minnka framboð þeirra. Þetta eitt er nægileg skýring á háum vöxtum.

Ríkið hefur aukið eftirspurn með því að slást af hörku um peninga og yfirbjóða aðra með freistandi tilboðum um háa vexti. Um leið hefur það minnkað framboð með því að halda krónugengi föstu og fá þannig fólk til að nota sparifé sitt til að kaupa innfluttar vörur.

Verðgildi krónunnar hefur þegar rýrnað. Ennfremur vita allir, að ríkisstjórnin er að fresta formlegri viðurkenningu þess fram yfir kjarasamninga. En verðgildið er fallið og væri fallið, jafnvel þótt launþegasamtök semdu um óbreytt krónukaup og fallinn kaupmátt.

Verðbólgan, er komst niður í 13% í hittifyrra, tvöfaldaðist í fyrra. Hún var þá um 25% að meðaltali, en komst upp í 55% núna um áramótin. Ekki er hægt að kenna ógerðum kjarasamningum um þessa verðbólgu eða verðbólguna, sem bætist við, er genginu verður breytt.

Upphafs þessara ófara er að leita í hugleysi næstsíðustu ríkisstjórnar. Hún missti móðinn í samningum við opinbera starfsmenn fyrir ári og gaf allt laust til að kaupa sér fylgi í kosningunum, sem voru í aðsigi. Hún sat síðan með hendur í skauti fram yfir kosningar.

Framhalds ófaranna er svo að leita í hugleysi núverandi ríkisstjórnar, sem hefur í vetur verið dugleg við að reyna að kaupa sér fylgi heima í héruðum. Afleiðingin er gífurleg þensla á rekstri og framkvæmdum ríkisins, sem eykur skattbyrðina um nokkra milljarða króna.

Ríkisstjórnina leiðir svo fjármálaráðherra, sem er óvenjulega ósvífinn í málflutningi og hagar sér eins og lífið sé málfundur í miðskóla. Flokksráð Alþýðuflokksins maulaði skoðanasætindin úr lófa ráðherrans um helgina. Ríkisstjórnin vonar, að svo verði um fleiri.

Stjórninni hefur mistekizt að spara fé. Hún hefur búið til vítahring sex milljarða aukningar á skattbyrði, gengisfölsunar og sex milljarða halla utanríkisviðskipta, 55% verðbólgu, svo og gífurlegra raunvaxta, sem samt megna ekki að hamla gegn þenslu vítahringsins.

Hugleysið er meira en flestra undanfarinna stjórna, af því að stjórnin er sundurþykk og leitar þægilegra lausna, sem yfirleitt kosta fé. Hugleysið hefur svo leitt til uppgjafar, sem lýsir sér í, að ráðherrar og málflutningsmenn þeirra vísa ábyrgð til ógerðra kjarasamninga.

Þessir samningar munu ekki framleiða nýja erfiðleika, heldur lítillega auka vandkvæði, sem síðasta ríkisstjórn hóf og núverandi stjórn breytti í öngþveiti.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagkvæmni hefnir sín

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur neyðzt til að samþykkja að loka herstöð sinni á Torrejon-flugvelli á Spáni, þótt fulltrúar hennar hafi lagt afar hart að Spánarstjórn að leyfa henni að vera. Þessi niðurstaða er töluvert skakkafall í hermálasamskiptum Bandaríkjanna við umheiminn.

Samningaharka Spánarstjórnar dafnaði í útbreiddri Bandaríkjaóbeit meðal Spánverja. Óbeitin á sér rætur í óbeinum stuðningi Bandaríkjanna við einræðisstjórn Francos, sem var við völd til ársloka 1975. Sú tímaskekkja verður seint þurrkuð úr minni Spánverja.

Bandaríkjastjórn á enn erfiðari samskipti við Grikki og stjórnina í Grikklandi, þar sem einnig eru bandarískar herstöðvar. Grikkir hafa ekki fyrirgefið og munu seint fyrirgefa Bandaríkjunum óbeinan stuðning þeirra við grísku herforingjastjórnina árin 1967­1974.

Sárin, sem Bandaríkin hafa skilið eftir í þessum tveimur gamalgrónu þjóðum vestrænnar menningar, eru ekki nærri eins djúp og í ýmsum þjóðum þriðja heimsins, þar sem sendimenn Bandaríkjanna hafa af sígildum hagkvæmnisástæðum stutt margs konar dólga.

Þjóðir Suður- og Mið-Ameríku eru skýrasta dæmið um þetta. Bandaríkin hafa beinlínis rústað lýðræði og efnahag margra þjóða svæðisins með stuðningi við helztu varmenni þess, svo sem Batista á Kúbu, Somoza í Nicaragua, Duvalier á Haiti og Pinochet í Chile.

Í sumum tilvikum tóku Bandaríkjamenn þátt í að koma slíkum til valda, en misstu síðan tökin á þeim. Þannig fara sínu fram Noriega í Panama og Pinochet í Chile án þess að leita ráða hjá Bandaríkjastjórn eða þiggja ráð þaðan. En ábyrgðin er eigi að síður Bandaríkjastjórnar.

Persónugervingur hins svokallaða hagkvæmnissjónarmiðs í utanríkisstefnu Bandaríkjanna er Henry Kissinger. Hann hefur bæði í skrifum og verki haft þá stefnu, að ekki þýddi fyrir heimsveldi að vera að vasast í mannréttindum og öðrum kerlingalegum vælumálum.

Til dæmis kom Kissinger Pinochet til valda í Chile. Og hann sagði sjálfur við glæpa-herforingjana í Argentínu, að Bandaríkjastjórn neyddist til að gagnrýna, að þeir pynduðu og myrtu þúsundir Argentínumanna, en þeir skyldu bara ekki taka neitt mark á gagnrýninni.

Hatrið á Bandaríkjunum í kjölfar eyðingaráhrifa Kissingers og annarra slíkra er gífurlegt í Suður- og Mið-Ameríku. Óbeitin, sem ríkir á Spáni og í Grikklandi, er lítilfjörleg í samanburði. Bandaríkin verða áratugi að bæta Rómönsku Ameríku fyrir brot sín.

Eini Bandaríkjaforsetinn, sem vék í verki af þessari óheillabraut, var Jimmy Carter. Á valdaskeiði hans fór vonarneisti um þjóðir þriðja heimsins. Bandaríkin urðu þá á nýjan leik tákn frelsis og reisnar mannsins. Öll verk Carters hafa síðan skipulega verið eyðilögð.

Svo lokaðir eru Bandaríkjamenn fyrir hinum sagnfræðilegu hættum hagkvæmnisstefnunnar, að jafnvel fréttaskýrendur þar vestra, sem eiga að vita betur, telja enn Carter hafa verið ómögulegan forseta og Kissinger hafa verið mjög snjallan skákmann í alþjóðamálum.

Rústir stefnu Kissingers og núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar eru sýnilegar víða um álfur. Í Mósambík í Afríku hafa Bandaríkin til dæmis árangurslaust stutt fjöldamorðingja Renamos, sem eru sennilega mestu varmenni álfunnar og er þá mikið sagt.

Bandarískt framferði í Nicaragua og annars staðar varðar allar vestrænar þjóðir, því að hagkvæmni líðandi stundar hefnir sín á Vesturlöndum framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunir og hugsjónir

Greinar

Þegar umboðsmenn stjórnarflokkanna réðu Sverri Hermannsson sem Landsbankastjóra, voru þeir að staðfesta þann megintilgang íslenzkra stjórnmálaflokka að gæta hagsmuna. Í þessu tilviki var verið að varðveita pólitískan forgang að takmörkuðu lánsfé bankanna.

Hér í blaðinu hefur mjög oft verið bent á einstaka þætti þessa hefðbundna verkefnis stjórnmálaflokka hér á landi, til dæmis á landbúnaðinn, sem fær að herfangi sex milljarða árlega af peningum skattborgaranna. En ekkert lát hefur verið sjáanlegt á hagsmunagæzlunni.

Hin síðari ár hefur stundum verið reynt að fara með löndum við þessa iðju, til dæmis með því að velja tiltölulega hæfa fagmenn sem flokksbankastjóra. Ráðning Sverris er hins vegar óvenju ósvífin yfirlýsing um, að hæfni verður áfram algert aukaatriði í hagsmunagæzlu.

Aðgangur að fjármagni getur orðið sérstaklega mikilvægur á næstu árum, ef ríkisstjórnin fer að óskum Steingríms Hermannssonar, heykist á raunvöxtum og lætur sparendur aftur fara að niðurgreiða vexti í þágu gæludýra, sem komast gegnum pólitíska nálaraugað.

Í sundrungu stjórnarflokkanna síðustu vikur á þingi hefur greinilega komið fram, að ágreiningsefnin varða oftast staðbundna hagsmuni. Einstakir stjórnarþingmenn hafa gert uppsteyt og jafnvel svikið lit í atkvæðagreiðslum til þess að sýna dugnað við hagsmunagæzlu.

Þetta hefur meðal annars komið fram í umræðu um fiskkvóta og lánsfjárlög á síðustu vikum. Vald ríkisins til að deila og drottna er orðið svo flókið og víðfeðmt, að margir telja sér arðbærast að spila í kerfinu. Þingmenn koma svo fram sem umboðsmenn spilafólksins.

Hinir andstæðu hagsmunir leiða oft til pattstöðu, sem gjarnan er leyst með setningunni “ráðherra er heimilt” í lögunum, er Alþingi setur. Fiskveiðikvótalögin nýju eru skýrasta og grófasta dæmið um framleiðslu og afsal á pólitísku og peningalegu valdi í hendur ráðherra.

Alþingi framleiðir vald með því að setja lög um alla skapaða hluti og ákveða þar í smáatriðum, hvernig þeim skuli hagað. Þar með keyrir það þjóðlífið í spennitreyju, sem hagsmunapólitík stjórnar. Síðan afhendir það ráðherrum óhófsvaldið með heimildarákvæðum í lögum.

Athyglisvert er, hversu lítið fjölmiðlar gera að því að segja fólki frá þessum raunverulega gangi mála í stjórnmálunum. Einkum er eftirtektarvert, hversu höfðingjahollar eru fréttastofur sjónvarpsstöðvanna, sem halda stíft í ráðherrarófuna og beita ráðherraklisjunum.

Til dæmis var sífellt fjallað um svokallað málþóf stjórnarandstöðunnar í afgreiðslulotu Alþingis um jól og nýár. Samt áttu stjórnarþingmenn verulegan þátt í umræðunum. Og þær gátu ekki talizt málþóf, því að málin voru greinilega illa unnin af ráðherra hálfu.

Þótt margt megi út á stjórnmálamenn setja, er ekki hægt að gagnrýna, að þeir leyfi sér að taka tíma til að ræða tillögur um stórfelldar breytingar á högum þjóðarinnar, sem koma í skæðadrífu frá framkvæmdavaldinu. Afar hlutdrægt er að segja slíka umræðu vera málþóf.

Hitt er lakara, að áberandi mikill hluti umræðunnar um jól og áramót endurspeglaði það, sem hér hefur verið sagt um markmið flokkanna, og staðfesti, að flestir stjórnmálamenn á þingi líta ekki á sig sem umboðsmenn hugmynda eða hugsjóna, heldur hagsmuna.

Ráðning nýs Landsbankastjóra má gjarna minna kjósendur á, að enn eru flokkarnir í sífellu að bregðast trúnaði við þjóðina í heild ­ í þágu sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísrael er að verða skrímsli

Greinar

Fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum átti fyrir fjórum áratugum mikinn þátt í að fá samtökin til að viðurkenna Ísrael með því að samþykkja skiptingu landsins. Frá þessum þætti segir í endurminningum Abba Ebans, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels.

Fyrstu þrjá áratugina höfðu Íslendingar mikið dálæti á hinu unga ríki, þar sem menn breyttu eyðimörk í aldingarð og sendu hingað Davíð Ben Gurion og Goldu Meir. Við sáum okkur sjálf í dugnaði og áræði þeirra, sem fóru yfir haf og sand til fyrirheitna landsins.

Þá voru við völd Ísraels evrópskir flóttamenn, sprottnir úr andrúmslofti gamla heimsins og tiltölulega friðsamir í trúmálum. Þeir voru úr meginarmi þjóðfrelsishersins og fylktu sér einkum um Verkamannaflokkinn, sem réð mestu í landinu þessa þrjá áratugi.

Síðasta áratuginn hafa þessi viðhorf verið á hægu undanhaldi í Ísrael. Til valda komst bandalag gamalla hryðjuverkamanna á borð við Menachem Begin og trúarofstækismanna, sem eru til vandræða í Ísrael eins og víða annars staðar, svo sem í Íran og Írlandi.

Arftakar Begins eru þeir Yitzhak Shamir og hinn ógeðfelldi Ariel Sharon, sem stjórna landinu í samstarfi við mjög svo veiktan Verkamannaflokk undir forustu Símonar Peresar. Stjórnarstefnan hefur orðið illskeyttari í garð hernuminna araba og arabískra nágranna.

Hryðjuverk stjórnar Ísraels á Gaza-svæðinu og á öðrum hernumdum svæðum síðasta mánuðinn eru eðlilegt og hörmulegt framhald á siðferðislegu hruni Ísraelsríkis hins nýja.

Frumherjaríkið er óðum að breytast í skrímsli, sem fjarlægist vestræna hugmyndafræði. Unglingarnir, sem Ísraelsstjórn lætur myrða þessa dagana, eru ekki skæruliðar Arafats, heldur sjálfgerður þáttur í uppreisn kúgaðrar þjóðar. Shamir og Sharon þekkja ekkert andsvar annað en meira ofbeldi af hálfu ríkishersins, meiri kúgun og aukna forherðingu.

Ísrael er smám saman að einangrast á svipaðan hátt og Suður-Afríka, enda dregur stjórnarfarið vaxandi dám af aðskilnaðarstefnunni. Við höfum lengi séð einkennin í þvingaðri búsetu ódýrs vinnuafls á þröngum svæðum. Gaza minnir okkur á illræmt Soweto í Suður-Afríku.

Nú sjáum við einkennin í fruntaskap herlögreglu, í stuðningi Ísraela við ríkishryðjuverkin og í ritskoðun efnis til erlendra fjölmiðla. Ísraelsríki og Ísraelar virðast vera reiðubúnir til að vaða áfram í einstrengingslegri blindni, án tillits til álitshnekkis í umheiminum.

Ísrael hefði ekki farið að breytast í skrímsli, ef það hefði ekki getað treyst á því sem næst skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna. Ísrael er að verulegu leyti fjármagnað af bandarískum peningum og allt til hins síðasta varið bandarískri utanríkisstefnu á alþjóðavettvangi.

Með ólíkindum er, hvílík heljartök vinir Ísraels hafa á bandarískum stjórnmálum. Þrýstistofnun þeirra, sem nefnist Aipac, hefur lengi verið fyrirmynd þeirra, sem eru að læra, hvernig á að beita þrýstingi gagnvart þingmönnum, ráðherrum og öðrum stjórnmálamönnum.

Nú fer hinn bandaríski stuðningur ört minnkandi. Á sama tíma sér margt æskufólk í Ísrael siðblindu ríkisstefnunnar, neitar að gegna herþjónustu og flýr úr landi. Eftir sitja að völdum hálftrylltir rabbíar og ofbeldishyggjumenn, sem minna óþægilega á nasista.

Því miður virðist Ísrael óumflýjanlega stefna í átt til hinnar stjórnmálalegu eyðimerkur Suður-Afríku. Það er sár hugsun þeim, sem virtu Ísrael fyrir áratug.

Jónas Kristjánsson

DV

Merk og dýr sjálfsblekking

Greinar

Raunverulegt aðalhlutverk ríkisvalds á Íslandi er að færa fé úr sjávarútvegi til landbúnaðar. Þetta felur í sér mesta peningaflutning í landinu. Hann nemur í ár nokkrum Keflavíkurflugstöðvum, því að landbúnaðurinn brennir sex milljörðum af ríkisfjárlögum ársins.

Fjárheimtan er tiltölulega einföld. Ríkið hefur tekið sér vald til að skrá gengi krónunnar með handafli og hagar skráningunni á þann hátt, að sjávarútvegurinn sé rekinn á því sem næst núlli, samkvæmt umfangsmiklum reikningum í opinberum hagfræðistofnunum.

Þetta er samkvæmt hinni rómversku fyrirmynd í skattheimtu að rýja þegnana, en flá þá ekki. Þjóðarauðurinn er að mestu upprunninn í hinni einu, sönnu stóriðju landsins, fiskveiðunum, en er síðan dreift um þjóðfélagið til að halda uppi velmegun og landbúnaði.

Til réttlætingar kerfinu hefur byggzt upp viðamikið kerfi hugsjóna, er hefur byggðastefnu að þungamiðju. Talið er þjóðlegt og mannlegt að haga málum á þennan hátt og jafnframt er fordæmd sú auðhyggja, sem talin er felast í gagnrýni á hið aldagamla millifærslukerfi.

Svipað ástand var fyrir tveimur og þremur öldum, þegar íslenzkir embættismenn úr stétt landeigenda héldu uppi einokunarverzlun konungs til að hindra myndun lausalýðs á mölinni og draga úr atvinnufreistingum, sem kynnu að magna kjarakröfur vinnumanna.

Millifærslan hefur lifað góðu lífi öldum saman og fram á þennan dag, af því að hugsjón byggðastefnunnar hefur náð almennri viðurkenningu. Þurrabúðarmenn nútímans, íbúarnir við sjávarsíðuna, taka að vísu óljóst eftir millifærslunni, en skilja ekki eðli hennar.

Fólkið í útgerðarplássunum er að vísu stundum að velta fyrir sér, hversu mikið af þjóðartekjunum myndist þar og hversu litlu af þeim sé varið þar. En það dregur ekki af þessu þá ályktun, að millifærsluna eigi að stöðva, heldur vill það fá hluta herfangsins til baka.

Hugsjóna- og hagsmunamenn byggðastefnunnar halda stíft fram þeim áhugamálum, sem þeir segjast eiga sameiginleg með þurrabúðarfólki. Þau felast einkum í að fá til sín sem mest af opinberri þjónustu, er greiðist af sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, ríkissjóði.

Þannig er pólitísk orka fólks í sjávarplássum virkjuð í baráttu fyrir ríkispeningum í vegi, flugvöll, síma, rafmagn, skóla, sundlaug og vegagöt í fjöll. Baráttan er háð undir merkjum byggðastefnu, sem útvegar smáaura í þetta, en dreifir alvöruupphæðum til landbúnaðar.

Sjávarsíðan fær til baka með þessum hætti aðeins hluta af verðmætasköpun sinni. Fyrst eru nefnilega teknir til landbúnaðar og brenndir þar til ösku sex milljarðar króna árlega af aflafé stefnunnar. Tiltölulega lítið verður því afgangs til annarra verkefna byggðastefnu.

Vanmáttur þurrabúðarfólks fellur í farveg andstöðu við Reykjavíkursvæðið, þaðan sem ríkisvaldinu er stýrt. Íbúar fiskibæja heimta meira í sinn hlut, í mynd aukinnar byggðastefnu. Þeir átta sig ekki á, að hagsmunir Reykjavíkur og sjávarsíðunnar eru hliðstæðir.

Miklu hagkvæmara væri fyrir íbúa fiskveiðibæja að fá því framgengt, að gengi krónunnar verði ekki skráð með handafli, heldur eftir framboði og eftirspurn á svipaðan hátt og í alvöruríkjum. Þá yrði miklu meira af arðinum eftir heima fyrir í bæjum gjaldeyrisöflunar.

Stuðningur sjávarsíðunnar við ríkjandi byggðastefnu og við aukna fjáröflun til hennar er merkasta og dýrasta dæmið, sem til er um sjálfsblekkingu hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Atkvæði greidd í verki

Greinar

Fólk greiðir atkvæði með ýmsum öðrum hætti en í kosningum einum. Það gerir það með því að haga sér á þennan veg frekar en hinn, þegar það á um kosti að velja. Niðurstöður þessara atkvæðagreiðslna fólks úti í bæ eru oft þveröfugar við það, sem stjórnvöld mæla með.

Ríkisstjórnin hefur undanfarna mánuði tjáð fólki, að gengi íslenzku krónunnar yrði áfram haldið föstu, enda væri lítið gagn í gengislækkun, sem mundi leiða til aukinnar verðbólgu. Ef fólk hefði tekið mark á þessu, hefði það ekki flýtt sér að kaupa innfluttar vörur.

Þeim mun meiri ástæða var fyrir fólk að fara sér að engu óðslega í kaupum á gjafavörum og tízkuvörum í desember, að ríkisstjórnin hafði boðað tollalækkun þessara leikfanga peningafólks á kostnað nauðsynja lágtekjufólks, sem lifir á fiski, grænmeti og ávöxtum.

Ennfremur hafa ráðherrar á undanförnum vikum og í áramótaprédikunum tekið undir gagnrýni á háa raunvexti, sem séu að sliga atvinnulífið, húsbyggjendur og þjóðfélagið í heild. Ef fólk hefði trúað þessu, væri það nú að kaupa spariskírteini, meðan vextir eru enn háir.

Í rauninni flæddu peningar um þjóðfélagið í síðasta mánuði. Kaupæðið fyrir jólin var gífurlegt. Greinilegt var, að margt fólk hafði mikið eyðslufé handa milli. Ennfremur var augljóst, að það lagði ekki peningana fyrir, heldur vildi koma þeim í lóg sem allra fyrst.

Ef þetta fólk hefði trúað, að tímabili hárra raunvaxta væri um það bil að ljúka, hefði meira af því keypt sér og sínum ríkisskuldabréf eða aðra pappíra hinna háu vaxta, til dæmis sem jólagjafir. Þannig hefði það varðveitt hinar háu vaxtatekjur mörg ár fram í tímann.

Þetta hefði auðvitað hlaðið upp peningum í stofnunum, sem taka við fé til útlána. Hið þveröfuga gerðist í desember, að lausafjárstaða banka versnaði svo snögglega, að aukning innlána varð í heild minni á síðasta ári en árið áður, þrátt fyrir töluvert góða byrjun.

Tiltölulega mild verðbólga var um nokkurra mánaða skeið árið 1986 og fram á 1987. Þetta olli háum raunvöxtum, sem hefðu gert sitt gagn og lokið ætlunarverki sínu, ef verðbólgan hefði haldizt í skefjum. Um síðir hefði þjóðin farið að spara og ríkið hætt að sóa.

Aldrei reyndi á, hvort raunvextirnir næðu þessum árangri og gætu síðan lækkað aftur. Verðbólgan var vaxandi í fyrra og hungur ríkisins í lánsfé var áfram óseðjandi. Hins vegar eru ráðherrarnir, sem eyðilögðu tilraunina, farnir að kvarta um, að vextir séu of háir.

Ef raunvextir yrðu nú lækkaðir með handafli, yrði enn minna fé lagt til hliðar og skömmtun lánsfjár yrði enn strangari en nú. Það mundi bæta hag þeirra, sem hafa pólitískan forgang að lánsfé, en spilla stöðu allra hinna, sem ekki teljast til gæludýra kerfisins.

Ríkisstjórnin hefur ekki aðeins klúðrað jafnvægi lánamarkaðarins, heldur hefur hún valdið þjóðinni ómælanlegu tjóni með fastgengisstefnu, sem hefur gert innfluttar vörur óeðlilega ódýrar og kallað á óhóflegan innflutning, svo sem við sáum bezt í jólaösinni.

Þjóðin trúir ekki ríkisstjórn, sem nú segist ætla að halda genginu föstu og jafnvel lækka raunvexti. Í desember notaði fólk ekki sparifé sitt til að ná til langframa í háa raunvexti, heldur til að kaupa útlendar vörur á hagstæðu gengi, meðan það taldi vera enn vera tækifæri.

Með þessu er fólk að greiða atkvæði gegn veiklundaðri ríkisstjórn, sem er farin að kenna ógerðum kjarasamningum um hagtjón, er stjórnin hefur þegar unnið.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýi kvótinn er úreltur

Greinar

Deilur alþingismanna um aukið kvótakerfi í fiskveiðum eru eðlileg afleiðing stjórnarhátta, sem hafa gengið sér til húðar. Kerfið var gallað frá fyrstu, en tilraunir til að skera annmarkana hafa leitt til nýrra lýta, sem hafa orðið sífellt tilefni endurskoðunar og átaka.

Niðurstaða nýjustu kvótalaganna, sem alþingismenn hafa hnakkrifizt um síðustu daga, er magnaðri miðstýring fiskveiða og meira geðþóttavald sjávarútvegsráðherra en nokkru sinni fyrr. Að lögunum settum hefjast svo ný átök til undirbúnings næstu lotu í lagasmíði.

Heimildir ráðherra til að ráðskast að geðþótta með hagsmuni í sjávarútvegi eru að gera hann að einvaldsherra greinarinnar. Það einvald kann að vera sæmilega menntað um þessar mundir, en gæti hæglega afmyndazt í höndum næsta ráðherra eða hins þarnæsta.

Sagnfræðin segir okkur, að svokallað menntað einræði þykir oft fínt í fyrstu, en leiðir alltaf fljótlega til hrakfalla. Hagfræðin segir okkur, að miðstýring á óskipulegum raunveruleika þykir oft nauðsynleg í hita leiksins, en leiðir jafnan innan skamms til ófarnaðar.

Meira að segja hafa yfirvöld í Sovétríkjunum siglt í kjölfar yfirvalda í Kína og gefizt upp á frekari miðstýringu af því tagi, sem felst í kvótalögunum. Í þessum höfuðríkjum kvótastefnu á öllum sviðum efnahagslífs er þegar farið að víkja frá henni í veigamiklum efnum.

Kvótalögin í sjávarútvegi minna á Framsóknarflokkinn eins og kvótareglurnar í landbúnaði gera, enda hefur flokkurinn um margra ára skeið lagt til ráðherra beggja sviða. Hann er þó ekki eini sökudólgur málsins, því að allir flokkar hafa tekið þátt í smíði kerfisins.

Árum saman hefur hér í blaðinu verið sagt, að bezt væri að taka upp sölu veiðileyfa í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskstofnarnir eru. Þessari skoðun hefur aukizt fylgi á síðustu mánuðum. Nokkrir lærdómsmenn hafa ritað dagblaðagreinar til stuðnings sölu veiðileyfa.

Með veiðileyfum bindur ríkið heildarmagn aflans og verndar þar með fiskstofnana. Um leið leyfir það veiðunum að leita hins eðlilega og hagkvæma farvegs, er leiðir til sem mests árangurs með sem minnstri fyrirhöfn, án þess að skömmtunarstjórar séu á hverju strái.

Þetta er ekki auðveldur biti í hálsi stjórnmálamanna. Deilur þeirra snúast nefnilega að nokkru leyti um, hverjir þeirra eigi að skipa hlutverk skömmtunarstjóra, hvort það eigi að vera ráðherrann með embættismönnum sínum eða þingmenn ýmissa kjördæmishagsmuna.

Þótt veiðileyfi séu boðin upp og seld þeim, sem bezt býður, geta stjórnmálamenn áfram gælt við ýmsa sérhagsmuni og greitt þá niður, til dæmis af stórfé því, sem aflast með sölu veiðileyfa. Þannig geta þeir áfram stuðlað að byggð á þessum stað frekar en hinum, ef þeir vilja.

Uppboð veiðileyfa leiðir til sérhæfingar. Sumir munu sérhæfa sig í að eiga góð skip til að leigja öðrum. Afla skipstjórar munu gera bandalög við góðar áhafnir um að taka skip á leigu. Það geta líka vinnslustöðvar gert, til dæmis í félagi við starfsfólk eða sveitarstjórnir.

Sala veiðileyfa er leið markaðslögmála að því markmiði, að beztu skipunum stýri mestu aflakóngarnir með beztu áhafnirnar og landi hjá þeim vinnslustöðvum, sem hagkvæmastar eru í rekstri og bezt borga. Þannig græðir þjóðfélagið á góðu hlutfalli árangurs og fyrirhafnar.

Greindarskortur, hagsmunastríð og íhaldssemi valda því, að þingmenn eru ekki að setja lög um sölu veiðileyfa, heldur um kvóta, einveldi, skömmtun og fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV

Aldagamalt afturhald

Greinar

Hin illræmda einokunarverzlun Danakonungs á Íslandi á sautjándu og átjándu öld bar greinileg einkenni landbúnaðarstefnunnar, sem er hornsteinn ríkisvalds og stjórnmála Íslendinga á ofanverði tuttugustu öld. Sagan endurtekur sig öldum saman í lítt breyttri mynd.

Doktorsritgerð Gísla Gunnarssonar sagnfræðings um einokunarverzlunina kom út á íslenzku fyrir jólin. Þar kemur meðal annars fram, að íslenzki landaðallinn studdi einokunarverzlunina og barðist gegn afnámi hennar, þegar brezk fríverzlunarstefna breiddist út.

Markmið íslenzka embættis- og landeignaaðalsins komu vel fram í ummælum Ólafs Stephensens stiftamtmanns, er hann sagði áríðandi, að “landjarðir verði eigi yfirgefnar vegna of mikilla tillokkana fólks að sjó”. Þetta er sama stefna og ríkir hér á landi tveimur öldum síðar.

Landeignamenn fyrri tíma vildu halda sjávarútvegi í skefjum til að aftra atvinnufreistingum á mölinni og hindra tilsvarandi kjarakröfur dugmikilla vinnumanna. Þeir töldu líka, að sjávarsíðan yki lausagang á lýðnum og græfi undan hefðbundinni skipan þjóðfélagsins.

Nokkrum öldum síðar vinna allir stjórnmálaflokkarnir enn að þessu sama markmiði. Verulegum hluta af peningum sameiginlegra sjóða okkar er varið til að hamla gegn flutningi fólks á mölina, þar sem tækifærin eru. Byggðastefnan er sögð vera þjóðleg verndarstefna.

Landeigendur fyrri alda komu því svo fyrir í einokunarkerfi konungs, að verði á sjávarvörum var haldið lágu til að halda uppi háu verði á ullarvörum. Þannig var sjávarútvegur látinn fjármagna landbúnað á einokunartímanum eins og hann er látinn gera enn þann dag í dag.

Goðar þjóðveldisins áskildu sér rétt til að stjórna vöruverði, meðal annars til að gæta hefðbundins jafnvægis milli atvinnuvega. Hliðstætt eftirlit stunduðu síðar sýslumenn og aðrir embættismenn í nafni konungs. Kvótakerfi og verðlagsráð eiga sér fornar rætur.

Allir stjórnmálaflokkar landsins eru í höfuðdráttum sammála um, að varið skuli til landbúnaðar sex milljörðum króna af sameiginlegu fé á þessu ári. Peningarnir spretta í sjávarútvegi, en eru hirtir þaðan með atvinnupólitískri skráningu á gengi krónunnar.

Einokunarverzlun sautjándu aldar var aðferð valdastéttar þess tíma til að láta sjávarútveginn fjármagna landbúnaðinn. Stjórnmál nútímans snúast um hið sama. Fjárlög eru smíðuð utan um millifærsluna, genginu er haldið uppi með valdi og útgerðin drepin í kvótadróma.

Munurinn er þó sá, að hinn landlausi lýður, sem landeigendur kúguðu með einokunarverzlun fyrir nokkrum öldum, var valdalaus með öllu. Nú er hins vegar fólkið á mölinni komið með kosningarétt og er orðið í meirihluta kjósenda og gæti borið hönd fyrir höfuð sér.

Fólkið í sjávarplássunum hefur hins vegar látið telja sér trú um, að hagsmunir þess lúti byggðastefnu landeigenda, sem gefur vegagöt í fjöll og aðrar ruður af borði landbúnaðarins. Það hefur látið telja sér trú um, að malarfólkið á Reykjavíkursvæðinu sé óvinurinn.

Þurrabúðarfólk nútímans kýs sex stjórnmálaflokka, sem hafa það eitt sameiginlegt að gæta sömu hagsmuna og yfirvöld landsins hafa gætt öldum saman, sjá til þess, að hefðbundnu þjóðfélagsmynztri sé sem minnst breytt og brenna öllu tiltæku fé í þjóðlegri byggðastefnu.

Sagnfræðilega er vel við hæfi, að ættarlaukur kaupfélaga fái nú sem sjávarútvegsráðherra auknar heimildir til að kvóta sjávarútveginn í þágu fortíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

London göngur

Ferðir

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöðinni (K2), skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Tower

Við höldum áfram meðfram síkinu, sem var þurrkað á síðustu öld og gert að grasvelli, og nálgumst innganginn í Tower of London, eitt helzta einkennistákn borgarinnar. Miðkastalinn, sem gnæfir hæst, er Hvítiturn, White Tower, elzti hluti kastalans, reistur af Vilhjálmi sigursæla (bastarði) árið 1077 og árin þar á eftir, í fyrstu fremur til viðvörunar borgarbúum en til ytri varna. Hann er einn elzti kastali slíkrar stærðar í Vestur-Evrópu, ágætt dæmi um ferköntuð turnvirki Normanna.

Þá voru Rómverjar horfnir á braut fyrir meira en sex öldum og litlar sögur höfðu farið af London á engilsaxneskum tíma. Borgin byrjaði fyrst að dafna sem miðstöð kaupsýslu eftir valdatöku Normanna.

Ríkharður ljónshjarta byrjaði á virkisveggjum umhverfis Hvítaturn seint á 12. öld. Undir lok 13. aldar var Tower í stórum dráttum búinn að fá á sig þá mynd, sem hann ber enn í dag.

Löngum var Tower konungssetur, allt fram á 17. öld, vopnageymsla og fjárhirzla. Enn eru krýningardjásnin geymd þar og höfð til sýnis. Þar er m.a. stærsti demantur heims, 530 karata Star of Africa úr Cullinan-steininum, og hinn sögufrægi, 109 carata Kohinoor-demantur. Fjársjóðanna og Tower í heild er gætt af hinum frægu Beefeaters í einkennisbúningi frá túdorskum tíma á 16. öld.

Í Tower voru hafðir í haldi frægir fjandmenn ríkisins, svo sem Anne Boleyn, María Stúart og síðastur manna Rudolf Hess á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Frá Middle Tower förum við yfir fyrrverandi síkið inn um hliðið á Byward Tower og erum þá komin inn á milli innri og ytri virkisveggja. Við förum framhjá Bell Tower, sem Jóhann landlausi reisti snemma á 13. öld, okkur á vinstri hönd, og göngum að Traitors Gate á hægri hönd. Þar í gegn var fyrrum hægt að flytja fanga á bátum inn í kastalann.

Hér fyrir innan er Bloody Tower, þar sem Ríkharður III er sagður hafa látið myrða ungu prinsana. Um turninn förum við inn í miðgarðinn, þar sem við sjáum brátt biðröðina að krýningardjásnunum. Hún hreyfist hratt, svo að ekkert er að óttast. En ráðlegt er að vera komin sem fyrst eftir kl. 9:30, þegar Tower er opnaður, til að forðast manngrúann.

Yfir miðgarðinum gnæfir Hvítiturn með 4-5 metra þykkum veggjum og turnum á hornum. Innan dyra er merkilegt vopnasafn á neðri hæðunum, en uppi á hinni þriðju er Kapella heilags Jóhannesar frá 1080, enn nokkurn veginn í upprunalegu horfi, eitt fegursta dæmið um snemm-normanska byggingarlist í Englandi.

Tower Bridge

Úr Tower förum við fram á bakka árinnar, þaðan sem hægt er að fá sér bátsferð inn til Westminster. Frá ánni er einmitt eitt bezta sjónarhornið að White Tower. En við beinum sjónum okkar að öðru einkennistákni borgarinnar, Tower Bridge.

Þetta er neðsta brúin yfir Thames, reist 1886-94 í gotneskri stælingu frá Viktoríutíma. Hún er vindubrú, sem getur furðu snöggt hleypt skipum í gegn. Af henni er ágætt útsýni yfir ána og herskipið Belfast, sem liggur við festar ofan við brúna og er til sýnis.

St Katharine´s Dock

Ef við göngum árbakkann undir brúna, komumst við framhjá Tower hóteli að St Katharine´s Dock, friðsælli lystisnekkjuhöfn. Hún var gerð árin 1827-28 og var þá ein aðalhöfnin í London, enda sú, sem næst var City.

Nú hefur verið safnað þar nokkrum gömlum skipum, þar á meðal Discovery, sem Scott fór á í suðurpólsferðina. Í gömlu vöruhúsi hefur verið innréttuð Dickens Tavern, þar sem gott er að sötra bjór að skoðunarferð lokinni, áður en skotizt er einstigi norðan hafnar upp til Tower Hill, þar sem þessi gönguferð hófst.

3. gönguferð:

City

Þegar við komum upp úr Bank neðanjarðarstöðinni (J/I2), erum við á frægu horni, þar sem mætast sjö af höfuðstrætunum í City. Hér getum við litið inn eftir Þráðnálarstræti, Threadneedle Street. Þar er Englandsbanki á vinstri hönd, Konunglega kauphöllin á hægri og Verðbréfamarkaðurinn í bakgrunni.

Þetta er hjarta bankahverfisins í þungamiðju kaupsýsluhverfisins, City.
Þráðnálarstræti minnir á markaðinn, sem hér var í gamla daga, eins og aðrar nálægar götur minna líka á: Cornhill, Poultry, Cheapside, Eastcheap og Bread Street. En fátt annað minnir hér á gamla tíma. Eftir eyðingu í seinni heimsstyrjöldinni var þessi hluti borgarinnar endurreistur í andstyggilegum bankastíl undanfarinna áratuga.

Og þó. Við skulum ganga um 100 metra eftir Cornhill og skjótast inn í annað eða þriðja sundið, sem liggur yfir til Lombard Street. Þarna finnum við völundarhús göngusunda, sem minna á gamla tíma. Þar eru til dæmis notalegir nágrannar, kráin George & Vulture og vínbarinn Jamaica Wine House. Hinn fyrri er sex alda gamall og hinn síðari er þriggja alda.

Ef við höldum áfram göngusundin milli Cornhill og Lombard Street og förum yfir Gracechurch Street, komum við að Leadenhall markaði, sem hefur verið rekinn frá rómverskum tíma. Þar er nú selt í smásölu kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir og ostur. Aðaláherzlan er á villibráð. Þar kaupa menn lynghænur og orra fyrir stórhátíðir.

Frá markaðnum förum við Gracechurch Street niður að Monument, sem er minnisvarði um brunann mikla árið 1666, þegar nánast allt City brann til kaldra kola. Einu sinni var útsýni frá toppi varðans, en það hafa háhýsi eftirstríðsáranna að mestu eyðilagt.

Næst liggur leiðin vestur yfir King William Street, inn Arthur Street og þaðan um göngusund vestur að Cannon Street neðanjarðarstöðinni (J2). Rétt við Arthur Street verður á vegi okkar vínbarinn Olde Wine Shades (bls. 44) í húsi, sem er frá 1663, þremur árum fyrir brunann mikla.

Á þessari hringleið um hjarta City hefðum við getað skoðað nokkrar af kirkjum þeim, sem arkitektinn Christopher Wren byggði árin eftir brunann. Sérstakir aðdáendur hans geta samtals fundið í City 29 kirkjur af teikniborði hans, en við látum okkur nægja eina, þá sem sagt verður frá í næstu gönguferð.

4. gönguferð:

St Paul´s

Frá St Paul´s neðanjarðarstöðinni (H1) fyrir aftan dómkirkjuna í City getum við gengið umhverfis höfuðkirkju hins borgaralega Bretlands til að komast inn í hana að framanverðu.

Christopher Wren reisti St Paul´s Cathedral á árunum eftir brunann mikla 1666. Þar höfðu áður staðið a.m.k. tvær kirkjur, hin fyrsta reist árið 604. Talið er, að miðaldakirkjan hafi verið enn stærri en kirkja Wrens, sem er þó ein af allra stærstu dómkirkjum heims.

St Paul´s hefur grunnlögun enskrar, gotneskrar kirkju, krosskirkja með mjög langan kór, en útfærð í endurreisnarstíl með rómönskum bogagöngum. Reiptog varð milli Wren, sem aðhylltist hlaðstíl, og byggingarnefndar, er taldi þá stílgerð kaþólska, og neyddi hann til að sveigja kirkjuna til fægistíls mótmælendatrúarmanna. Yfir miðmótum hennar gnæfir 30 metra breitt hvolf, æði hlaðrænt að formi, eins konar eftirmynd Péturskirkju í Róm. Auk þess fékk Wren því framgengt, að vesturturnarnir tveir voru í hlaðstíl.

Við göngum aðalskipið inn á miðmótin undir hvolfinu, björtu og víðu. Því er haldið uppi af átta öflugum hringbogum. Utan við hvolfið, sem við sjáum neðan frá, er múrhleðsla, er heldur uppi luktaranum efst, og svo blýkápan, sem sést að utanverðu eins og luktarinn.

Á mótum aðalskips og syðra þverskips er hringstigi upp á svalir, hinar hljóðbæru Whispering Gallery, með útsýni niður í kirkjuna, og Stone Gallery, með útsýni yfir borgina. Hinir loftdjörfu geta haldið áfram upp í Golden Gallery við grunn luktarans ofan á hvolfinu og fengið þaðan stórbrotið útsýni í góðu skyggni.

Kraftaverki er líkast, að St Paul´s skyldi standast loftárásir síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar allt hverfið í kring brann til grunna og kirkjan ein stóð upp úr eldhafinu.

5. gönguferð:

Gray´s Inn

Gönguferðina um hulin port og yfirskyggða garða lögmannastéttar borgarinnar hefjum við hjá Chancery Lane neðanjarðarstöðinni (G1). Frá götunni High Holborn göngum við eitt af þremur sundum, nr. 21 eða Fulwood Place eða Warwick Court, inn í völundarhús sunda, porta, stílhreinna húsa og fagurra garða, indæla vin í skjóli fyrir skarkala borgarinnar.

Hér eru skrifstofur lögfræðinganna í Gray´s Inn, einu af fjórum lögmannafélögum borgarinnar, Inns of Court, stofnað á 14. öld. Elztu húsin eru frá 17. öld, en garðarnir nokkru yngri, teiknaðir af Sir Francis Bacon. Gray´s Inn er opið almenningi 8-19.

Staple Inn

Við förum eitt sundið aftur út á High Holborn. Andspænis, nokkru austar við götuna, sjáum við Staple inn, tvö timburhús, fjögurra alda gömul, frá 1586-96. Þessi framhlið er eina dæmið í borginni um, hvernig fínu göturnar litu út á dögum Elísabeter I. Taktu eftir bindingsverki bita og gafla og alls konar útskotum. Í miðjunni veita bogagöng aðgang að portunum að baki.

Lincoln´s Inn

Rétt vestar mætir Chancery Lane aðalgötunni High Holborn. Þar beygjum við til vinstri suður meðfram austurhlið Lincoln´s Inn. Við förum framhjá Stone Buildings Gate, því að við ætlum inn um Gatehouse með upprunalegum eikarhliðum frá 1518, hátt í fimm alda gömlum.

Hliðhúsið úr tígulsteini er með ferningslaga hornturnum, opið 8-19. Að baki er Old Square með gömlum húsum frá Túdor-tíma, öll úr rauðum tígulsteini, endurgerð 1609. The Old Hall er frá 1490. Kapellan við norðurhlið torgsins er frá 1619-23.

Við förum áfram til vesturs inn í sjálfa garðana, aðlaðandi og friðsæla, umlukta gamalli og gróinni byggingarlist frá því áður en góður smekkur komst úr tízku. Úr görðunum göngum við til suðurs um New Square og hlið frá 1697 út í Carey Street, þar sem við erum að baki hallar Borgardóms í London.

Temple

Kringum Borgardóm, Royal Courts of Justice, göngum við að austanverðu niður á Fleet Street, þar sem blasir við okkur portið inn í Middle Temple, enn eitt lögmannaþorpið á gönguferð okkar. Hliðhúsið úr rauðum tígulsteini frá 1684 er eftir hinn margumrædda Wren. Þar að baki eru ótal göngusund, port og torg, ekki eins græn og gróin og í hinum Inns of Court, sem við erum búin að fara um.

Sérstaklega er gaman að Middle Temple Hall frá 1562-70, einkum þakbitunum og eikarskilrúmunum. Salurinn er lokaður 12-15. Sagt er, að Shakespeare hafi sjálfur leikið hér í Jónsmessunæturdraumi 1602.

Til austurs liggur mjótt sund að Inner Temple, hins síðasta af lögfræðingafélögunum á göngu okkar. Þar er merkust Musteriskirkjan, hringlaga að hætti Kirkju hinnar heilögu grafar í Jerúsalem. Hún var reist 1160-85 og er eitt elzta gotneska mannvirki Bretlandseyja, opin 9:30-16.

Kirkjan var miðja mikils klausturs, sem regla Musterisriddara kom á fót um 1160. Reglan var leyst upp á 14. öld og þá eignuðust lögmenn húsakynnin og eiga enn.

Við göngum um Inner Temple Gateway gegnum hliðhús úr bindingsverki frá 1610 og endurreist 1906 í gamla Túdor-stílnum.

Fleet Street

Hér erum við í Fleet Street, vestasta hluta City, hinni miklu götu fjölmiðlunar fyrri áratuga. Nú eru margir fjölmiðlarnir fluttir. Rétt við Middle Temple Gateway er Temple Bar, er drottningin má ekki aka hjá, nema með sérstöku leyfi borgarstjórans í City, sem er kosinn af gildum handverks- og kaupsýslumanna.

Ef við göngum Fleet street til austurs, framhjá Inner Temple Gateway, verður fljótt á vegi okkar el Vino (bls. 45), vel þeginn vínbar eftir langa göngu um hulin port og yfirskyggða garða.

Frá norðurhlið götunnar liggja fjölmörg smásund, meðal annars til dr. Johnson´s House frá um 1700. Sömu megin götunnar er Cheshire Cheese (bls. 50), gömul krá frá 1667. Hér taka við blaðhúsin og fréttastofurnar niður að Ludgate Circus, þar sem St Paul´s blasir við á hæðinni fyrir ofan.

Hér undir brautarteinunum er vínbarinn Mother Bunch´s (bls. 45). Ef við göngum vestur New Bridge Street að Blackfriars neðanjarðarstöðinni, er andspænis stöðinni kráin Black Friar (bls. 50) (H2).

6. gönguferð:

Covent Garden

Skemmtilegsta hverfið í London er leikhúsahverfið Covent Garden. Við förum létt með að skoða það, þar sem við sitjum að mestu um kyrrt á sjálfum markaðnum (F2), svo sem lýst var fyrr hér í bókinni (bls. 47).

Austur frá markaðnum liggur Russell Street, þar sem mannþröngin á vínbörunum nær út á götu. Örlitlu austar við götuna er Konunglega leikhúsið. Við fyrstu þvergötu til norðurs er Konunglega óperan og Blómahöllin, sérkennilegt dæmi um byggingarlist undir áhrifum frá Crystal Palace, úr járni og gleri.

Auk King Street norðan markaðar, Henriette Street sunnan markaðar og Russel Street austan markaðar, er skemmtilegast að ganga Tavistock Street, sem liggur sunnan við Henrietta Street, og New Row í framhaldi af King Street. Í þessum götum er kaffihúsalífið og göturápið skemmtilegast í borginni.

Syðst í hverfinu er leikhúsgatan Strand, sem liggur milli Fleet Street og Trafalgar Square. Vestast er önnur leikhúsgata, St Martin´s Lane, milli Trafalgar Square og Long Acre. Norðarlega í hverfinu er Neal´s Yard og Neal Street með heilsufæði- og handíðabúðum.

Segja má, að Covent Garden sé hverfi hins náttúrulega skemmtanalífs, meðan Soho var um tíma hverfi hins ónátturulega, þótt veitingahúsin góðu hafi jafnan haldið þar velli og hverfið sé aftur á uppleið. Sem betur fer er Covent Garden í uppgangi um þessar mundir. Skemmtilegar smáverzlanir, kaffihús og vínbarir eru sífellt að bætast við.

Trafalgar Square

Við endum óskipulega göngu um Covent Garden með því að ganga suðvestur Strand, framhjá Charing Cross brautarstöðinni að Trafalgar Square (E2), hinnar eiginlegu miðju borgarinnar. Þar við mynni götunnar Whitehall er riddarastytta af Karli I, þaðan sem allar fjarlægðir og vegalengdir á Bretlandi eru reiknaðar.

Á miðju torgi gnæfir Nelson flotaforingi á 52 metra hárri granítsúlu, umkringdur fjórum ljónum og þúsundum lifandi dúfna, sem eru mikið eftirlæti barna, er heimsækja borgina. Ofan við torgið er lág og lítilfjörleg framhlið National Gallery (bls. 58).

Til hliðar er hin fagra kirkja, St-Martin-in-the-Fields, reist 1722-26 í léttum, gnæfrænum stíl, sem minnir á rómverskt musteri með óviðkomandi turni og spíru. Að innan er hún með víðari og bjartari kirkjum. Hún er nú orðin að félagsmálamiðstöð og skjóli utangarðsfólks.

7. gönguferð:

Soho

Frá Trafalgar Square (E2) er stutt að ganga vestan við National Gallery framhjá Royal Trafalgar (bls. 9) og Pastoria (bls. 20) hótelum upp að Leicester Square, þungamiðju bíóhverfisins í Soho. Þar er rólegur garður með þægilegum bekkjum til að hvíla lúin bein.

Rétt fyrir vestan torgið er Piccadilly Circus, forljótt torg með æpandi ljósaskiltum. Á því miðju er eitt af einkennistáknum borgarinnar, styttan af Eros, alþjóðlegur mótsstaður ungmenna á faraldsfæti, margra gersamlega út úr heiminum.

Frá Piccadilly Circus göngum við til baka rúmlega hálfa leið til Leicester Square og beygjum til norðurs Wardour Street, sem liggur þvert um kínverska hverfið. Þar er Chuen Cheng Ku, kjörinn hádegisverðarstaður (bls. 33).

Við förum yfir Shaftesbury Avenue, eina af miklu leikhúsgötunum, göngum nokkur skref til vesturs og síðan norður Rupert Street og í framhaldi af því Berwick Street. Í þeim tveimur götum er ágætur og skemmtilegur útimarkaður grænmetis, ávaxta og blóma. Hann hefur verið hér síðan 1778.

Frá norðurenda markaðsins þræðum við hliðargötur um friðsælan Soho Square til Charing Cross Road, þar sem Foyle (bls. 72) og hinar bókabúðirnar eru. Skemmtilegust er hliðargatan Cecil Court til austurs, þar sem eru mætar fornbókaverzlanir.

Ef við göngum suður allan Charing Cross Road, endum við á upphafspunktinum, Trafalgar Square. Nálægt leiðarlokum er gott að hvíla sig á kránni Salisbury (bls. 51). En hafa má til marks um hnignun Soho að meira að segja á þessari fögru krá er búið að setja upp eitt leiktæki.

Kynlífsiðnaðurinn og skríllinn hertóku smám saman Soho, nema veitingahúsin, og hröktu ánægjuna yfir í Covent Garden. Meira að segja krárnar 60-70, sem margar eru frá fyrri hluta 18. aldar, urðu flestar hverjar ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Þetta er nú byrjað að lagast aftur.

8. gönguferð:

Pall Mall

Aðalgatan í St James´s hverfinu er Pall Mall, þar sem við hófum gönguferð nr. 1 um skemmtilegustu búðir miðborgarinnar. Í þetta sinn ætlum við hins vegar að kynnast öðrum þáttum andrúmsloftsins í St James´s, hverfi hinna fínu karlaklúbba.

Við förum enn frá Trafalgar Square (E2), í þetta sinn til suðvesturs eftir Pall Mall. Hérna megin við horn Regent Street er fyrsti klúbburinn sunnan götunnar, Institute of Directors. Síðan koma Travellers Club á nr. 106 og Reform á nr. 104, þaðan sem Phileas Fogg átti að hafa farið kringum jörðina á áttatíu dögum. Stóra höllin er Royal Automobile Club. Síðan kemur Oxford & Cambridge Club á nr. 71. Norðan götunnar er Army & Navy andspænis RAC.

St James´s Palace

Við enda götunnar komum við að St James´s Palace, hinni raunverulegu konungshöll Bretaveldis, þar sem drottningin tekur á móti erlendum sendiherrum. Þaðan kemur nafnið, að vera við hirð St James´s. Buckingham Palace er bara konungsbústaður, ekki konungshöll.

Í þessari lágreistu og sérkennilegu höll frá Túdor-tíma, reistri árið 1532, bjuggu konungar Bretlands frá 1698, þegar Whitehall-höll brann, til 1837, er Buckingham-höll tók við. Frá svölunum á hliðhúsinu úr rauðum tígulsteini með áttstrendum turnum tilkynnir kallari valdatöku nýrra konunga.

Í St James´s Palace búa nú ýmsir hirðmenn. Áfast höllinni til vesturs er Clarence House, heimili drottningarmóður. Til hliðar og aftan við St James´s Palace eru tvær hallir, Marlborough House til austurs og Lancaster House til vesturs.

St James´s Street

Klúbbarnir eru áfram í röðum við St James´s Street, sem liggur til norðvesturs frá höllinni. Við hlið Berry Brothers vínbúðarinnar (bls. 64) er mjótt sund inn í Pickering Place. Handan götunnar, aðeins ofar, er Carlton, mesti íhaldsklúbburinn. Nokkrum skrefum ofar er mjó gata, sem liggur að hótelunum Dukes og Stafford (bls. 14). Enn ofar, hvor sínum megin götunnar, eru klúbbarnir Brook´s á nr. 61 og Boodle´s á nr. 28. Loks uppi undir Piccadilly gatnamótum er klúbburinn White´s.

Við eigum bara eftir að rölta meðfram Ritz-hóteli við Piccadilly vestur að Green Park neðanjarðarstöðinni (D3) til að ljúka stuttri gönguferð um fínasta, brezkasta og rólegasta hverfi miðborgarinnar.

9. gönguferð:

Mayfair

Við erum þegar búin að skoða austurhluta Mayfair í fyrstu gönguferðinni, milli frægustu verzlana miðborgarinnar, svo að í þetta sinn getum við látið nægja vesturhliðina og suðurhornið. Þetta er hverfi auðs og glæsibrags með þremur virðulegum gróðurtorgum, Grosvenor Square, Berkeley Square og Hanover Square, sem við sleppum í þessari gönguferð.

Frá Green Park stöðinni (D3) við enda 8. gönguferðar göngum við Piccadilly til suðvesturs yfir Half Moon Street og beygjum næstu smágötu. Þar komum við fljótt að Shepherd Market, þar sem svokölluð Mayfair-hátíð var haldin allt frá 17. öld. Þar er nú 19. aldar smáþorp götusunda með hvítum smáhúsum, gömlum verzlunum og veitingastofum, svo og útikaffihúsum, enn ein af mörgum vinjum í nútímaborginni.

Síðan förum við til vesturs út að Park Lane, sem afmarkar Mayfair og Hyde Park. Þar göngum við framhjá frægum lúxushótelum: Hilton, Dorchester og Grosvenor House, alla leið norður til Marble Arch, sem upphaflega var hlið Buckingham-hallar, en síðan flutt vegna þrengsla. Hér skemmtu menn sér í gamla daga við að horfa á opinberar hengingar, teygingar og sundurlimanir.

Hyde Park

Frá Marble Arch förum við undir götuna yfir í Speakers´ Corner í horni Hyde Park. Hér var árið 1872 komið á málfrelsi, þar sem menn gátu flutt ræður um hvaðeina, án þess að vera stungið inn. Um langt skeið töluðu hér einkum trúarofstækismenn og aðrir sérvitringar, en síðustu árin hefur aftur fjölgað alvöruræðum, einkum flóttamanna frá löndum, þar sem málfrelsi er heft. Mest er um að vera á sunnudögum.

Hyde Park er stærsta opna svæðið í London, ef vesturhlutinn, Kensington Gardens, er talinn með. Þetta eru 158 hektarar graslendis, voldugra trjáa, ljúfra blómabeða og vatnsins Serpentine, sem búið var til árið 1730.

Hér er gott að slaka á í sveitasælu, hanga á útikaffihúsi eða fara í bátsferð. Í andstæðu við svonefnda franska garða, sem eru formfastir og þrautskipulagðir, er Hyde Park enskur garður, óformlegur og losaralegur, með frjálsum gróðri.

Upprunalega girti Hinrik 8. garðinn og gerði að veiðilendu sinni. En fyrir hálfri fjórðu öld var hann gerður að almenningsgarði.

Í suðausturhorni garðsins, milli beljandi umferðaræða, eru litlir gróðurreitir milli Hyde Park og Green Park. Þar standa m.a. Wellington sigurboginn og Aspey House, sem einu sinni hafði hið fína heimilisfang: London nr. 1. Þar bjó Wellington hershöfðingi, er sigraði Napóleon við Waterloo. Milli eyjanna og frá þeim liggja göng undir umferðaræðarnar á alla vegu. Við ljúkum hér þessari gönguferð, í næsta nágrenni Hyde Park Corner neðanjarðarstöðvarinnar (C3).

10. gönguferð:

Horse Guards

Við komum okkur fyrir á suðurhorninu, þar sem skrúðgöngugatan The Mall mætir torginu með minnisvarða Viktoríu drottningar fyrir framan Buckingham Palace (D3). Klukkan er 10:45 á virkum degi, — og virkum degi með jafnri tölu mánaðardags, ef vetur er. Hér er bezt að vera til að fylgjast með öllu, miklu frekar en í manngrúanum við hallargirðinguna.

Við notum tímann til að líta í kringum okkur. Til norðvesturs er Green Park. The Mall er til norðausturs. St James´s Park er til austurs. Og Buckingham Palace er að baki minnismerkisins til vesturs. Þar blaktir drottningarfáninn við hún, þegar hún er heima. The Mall er hin hefðbundna skrúð- og sigurgönguleið frá Trafalgar Square til Buckingham Palace, vörðuð glæsilegum trjám og görðum á báða bóga.

Rétt fyrir 11 koma Horse Guards um torgið norðanvert frá Knightsbridge yfir á The Mall. Horse Guards er konunglega riddaraliðssveitin í glæsilegum búningum. Hún ríður hér daglega framhjá á leið sinni að Horse Guards Parade torginu við hinn enda St James´s Park.

Buckingham Palace

Eftir þessa skrautsýningu virðum við fyrir okkur Buckingham Palace, sem er 19. og 20. aldar stæling á fyrri tíma stíl og hefur verið konungsheimili, síðan Viktoría drottning flutti þangað 1837. Höllin er klædd Portland-steini og er í stíl við minnismerkið og The Mall.

Við höllina eru varðmannaskipti 11:30 alla daga á sumrin og annan hvern dag á veturna. Nokkru fyrir þann tíma koma viðtakandi varðmenn frá Wellington Barracks við Birdcage Walk og við færum okkur til suðurs á stéttinni til að sjá þá betur. Þeir ganga á formlegan hátt, en þó ekki með gæsagangi, undir hljómmiklum mörsum.

St James´s Park

Að skrautsýningunni lokinni getum við beðið eftir, að fráfarandi riddaraliðsmenn og hallarverðir komi sömu leiðir til baka, er hinir viðtakandi fóru. Ella getum við gengið um St James´s Park, sem Hinrik 8. lét gera árið 1536. Í austurenda vatnsins í garðinum er Duck Island, þar sem pelikanar, svanir, endur og aðrir fuglar eiga hreiður sín. Frá brúnni yfir vatnið (E3) er ágætt útsýni, bæði til vesturs að Buckingham Palace og austur að Whitehall, þar sem við verðum í elleftu og síðustu gönguferðinni.

11. gönguferð:

Whitehall

Í þetta sinn förum við sem oftar frá borgarmiðju á Trafalgar Square (E2), en nú til suðurs eftir Whitehall, stjórnarráðsgötu borgarinnar. Nafn götunnar er orðið svo frægt, að það hefur færzt yfir á embættismannakerfi Bretaveldis. Upphaflega hét gatan eftir fornri konungshöll, Whitehall. Sú höll var fyrst erkibiskupsins af Jórvík, en Hinrik 8. tók hana af Wolsey kardínála árið 1530 og gerði að sinni eigin. Hún var konungshöll til 1698, er hún brann og St James´s Palace tók við.

Banqueting House

Merkasta hús götunnar er Banqueting House, handan Horseguards Avenue, sem er andspænis Horse Guards. Hús þetta er hið eina, sem eftir er af Whitehall, reist 1619-22 af hinum fræga arkitekt Inigo Jones. Það er eitt fegursta hús borgarinnar, í palladískum endurreisnarstíl, allt teiknað í nákvæmu mælirænu hlutfallaformi, breiddin helmingur lengdarinnar.

Framhliðin er gnæfræn og virðist tveggja hæða, með jónískum veggsúlum að neðan og rómverskum að ofan. Að innan er húsið hins vegar aðeins einn salur, með risastórum hlaðstíls-málverkum eftir Rubens.

Banqueting House var móttökusalur hinnar fornu hallar og um leið miðpunktur hennar. Nú er húsið orðið ósköp einmana innan um voldugar stjórnarráðsbyggingar síðari tíma.

Við höldum áfram suður Whitehall, framhjá lokaðri götu, Downing Street, götu forsætisráðherra og fjármálaráðherra ríkisins. Aðeins sunnar, á miðri Whitehall, er Cenotaph, minnisvarði um fallna brezka hermenn í heimsstyrjöldinni fyrri. Við komum senn að Parliament Square, þar sem voldug myndastytta af Churchill trónir á horninu næst okkur.

Westminster

Hér erum við komin í hjarta Westminster, hins gamla konungsbæjar, sem löngum var andstæða kaupmannabæjarins City. Konungarnir vildu vera í hæfilegri fjarlægð frá uppreisnargjörnum og illa útreiknanlegum rumpulýð borgarinnar. En London nútímans hefur einmitt orðið til við samruna City og Westminster í eina stórborg. Nú er Westminster hverfi stjórnmálamanna og embættismanna, arftaka konungsvaldsins.

Á Parliament Square eru styttur fleiri kunnra stjórnmálamanna en Churchill eins. Þar er t.d. Disraeli, Palmerston og meira að segja Abraham Lincoln.
Við blasir Westminster Palace, venjulega kölluð Houses of Parliament, enda byggð sem þinghús Bretaveldis, ákaflega víðáttumikil, reist 1840-65 í nýgotneskum stíl.

Westminster Hall

Hér var fyrst reist konungshöll um árið 1000, hin fyrsta í London. Fremst við torgið eru leifar konungshallarinnar, Westminster Hall, upphaflega reist af syni Vilhjálms bastarðs, Vilhjálmi Rufus, árin 1097-99.

Westminster Hall er merkasta hús veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma í Englandi. Á sínum tíma var þetta stærsti salur Evrópu. Árin 1397-99 fékk hann þá mynd, sem hann hefur enn í dag. Frægastar eru bálkasperrurnar í þaki, ensk uppfinning, sem gerði kleift að brúa víðara haf með timburþaki en áður hafði þekkzt. Undir þessum bitum voru á miðöldum haldnar konunglegar veizlur, en síðan sat þar ríkisréttur með mörgum frægum réttarhöldum. Þar var Karl I dæmdur til dauða.

Westminster Palace

Þinghúsið mikla er sambyggt hinu gamla Westminster Hall og stendur á bak við það frá götunni séð. Næst og vinstra megin við Westminster Hall er grannur og frægur Clock Tower með klukkunni Big Ben. Hinum megin, við suðurenda hallarinnar, er hinn breiðari og stærri Victoria Tower.

Því miður er ekki auðvelt að njóta hallarinnar sem heildar úr þessari átt nú um stundir, því að fram fer viðamikil hreinsun á henni. Kaflinn frá Westminster Hall að Victoria Tower hefur þegar verið hreinsaður og sýnir vel hina mildu og ljósu liti, sem höllin bar í upphafi, gullinn og ljósbrúnan kalkstein.

Bezta útsýnið til hallarinnar er af brúnum yfir Thames, Westminster og Lambeth Bridge, og af bakkanum handan árinnar. Frá þeim stöðum séð rennur höllin saman í skipulega heild, þar sem formfasta hliðin, sem snýr að ánni, er mest áberandi.

Handan við Abingdon Street, götuna framan við höllina, er Jewel Tower, annað miðaldaminni, fyrrum fjárhirzla konungs.

Westminster Abbey

Sömu megin götunnar snýr Westminster Abbey afturhluta að Westminster Palace. Þetta er krýningar-, giftingar- og greftrunarkirkja brezkra konunga og minningarstaður um þjóðhetjur ríkisins. Meðan St Paul´s er höfuðkirkja borgarinnar, er Westminster Abbey höfuðkirkja ríkisins.

Að stofni er kirkjan hluti Benediktínaklausturs. Smíðin hófst árið 960 og var síðan haldið áfram eftir 1055, upphaflega í normönskum stíl, en eftir 1220 meira í gotneskum stíl. Hún er franskrar ættar, hærri og mjórri en enskar kirkjur. Aðalskipið er 31 metri á hæð, hið hæsta í Englandi.

Vesturturnarnir eru yngstir, í gotneskri stælingu frá upphafi 18. aldar.
Kirkjan hefur verið hreinsuð að utan, svo að mildir litir hleðslusteinsins koma vel í ljós. Þar sem við stöndum að kirkjubaki sjáum við vel turna og svifsteigur frá tíma Hinriks 7.

Við göngum svo meðfram kirkjunni að norðanverðu, þaðan sem hún er fegurst að sjá. Þar er mest áberandi stór rósagluggi með stílfögrum svifsteigum í kring. Áður en við förum inn í kirkjuna, bregðum við okkur inn í friðsælan Dean´s Yard til að sjá kirkjuna að sunnanverðu.

Inn í kirkjuna förum við að vestanverðu, þar sem útsýnið er stórfenglegt inn eftir aðalskipinu. Andspænis innganginum er minnismerki um Winston Churchill og að baki þess leiði óþekkta hermannsins.

Bæði þverskipin eru hlaðin minnismerkjum. Innar í kirkjuna komumst við um hlið í norðurskipi. Eftir að hafa skoðað nyrðra þverskipið förum við ferilganginn til kapellu Hinriks 7. í ríkulega skreyttum, gotneskum stíl í austurenda kirkjunnar. Þar eru yfir 100 styttur.

Frá kapellunni förum við á brú til baka yfir að helgidómi Játvarðs I. Þar er krýningarhásætið frá 1300, þar sem nær allir enskir konungar frá Vilhjálmi bastarði hafa verið krýndir. Undir hásætinu er Scone-steinninn, krýningarsteinn skozkra konunga allt frá 9. öld, þar á meðal hins sögufræga Macbeths.

Héðan liggur leiðin yfir í syðra þverskipið, þar sem eru minnisvarðar margra fremstu rithöfunda á enskri tungu. Þar eru líka dyr til klausturs, sem gengið er um til að komast í Chapter House, sammiðja, átthyrndan sal, sem reistur var árið 1250 og notaður á miðöldum fyrir fundi enska þingsins.

Útrásir

Miðborgin í London er nægur heimur út af fyrir sig í augum ferðamanns, sem er þar aðeins eina eða tvær vikur. Ef meiri tími er til umráða, getur verið gaman að skreppa úr miðborginni, til dæmis með bát eða bílaleigubíl.

Greenwich

Niður með ánni er Greenwich, ekki aðeins frægt fyrir breiddargráðuna núll. Þar er líka skógi vaxinn garður umhverfis stjörnuskoðunarstöðina, brezka siglingasafnið, opið 10-17, sunnudaga 14-17, svo og hið hraðskreiða seglskip Cutty Sark, þar fyrir utan. Bátsferðin til Greenwich tekur 45 mínútur.

Kew

Upp með ánni eru Kew-garðar eða bótanísku garðarnir, opnir 10-16/17. Þeir eru fagrir, meira en 120 hektarar að flatarmáli og hafa að geyma yfir 25.000 mismunandi plöntutegundir. Bátsferðin til Kew tekur 75 mínútur.

Hampton Court

Enn ofar er hin fagra Hampton Court, höll Wolsey kardínála, er Hinrik 8. tók eignarnámi, ásamt ógrynni málverka og minjagripa, sem nú eru til sýnis, svo og einhverjum fegurstu görðum í heimi.

Windsor

Rétt handan við Heathrow-flugvöll er smábærinn Windsor með Windsor-kastala, sveitasetri drottningar. Hann er opinn mánudaga-laugardaga 10:30-17 og sunnudaga 13:30-17.

Windsor er elzti og stærsti íbúðarkastali í heimi, upphaflega reistur af Vilhjálmi bastarði sem hringlaga virki, en síðan öldum saman aukinn og stækkaður. Frægust er Georgskirkja, eitt bezta dæmið um enska byggingarlist 15. aldar. Í kastalanum eru nokkur söfn til sýnis, svo sem brúðusafn Maríu drottningar og hinar konunglegu vistarverur, þegar drottningin er ekki að nota þær.

Ef börn eru með í förinni, er rétt að tengja heimsóknina við ferð í Windsor Safari Park, sem er opinn villidýragarður í Windsor Great Park. Þar er hægt að skoða, sumpart út um lokaða bílglugga, ljón, tígrisdýr, fíla, zebradýr, nashyrninga, úlfalda, gíraffa, apa og dádýr, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þar má einnig sjá hnísur og höfrunga leika listir sínar.

Í bakaleiðinni er sniðugt að koma við í tívolí-skemmtigarðinum Thorpe Park í Staines, rétt fyrir sunnan Heathrow-flugvöll.

Góða ferð!

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson