Veður á Íslandi er róttækara en það var. Tímum óvenjulegs veðurfars fjölgar, til dæmis veðurfari þessa árs á Íslandi með þrálátum vorkulda og þrálátum sumarþurrki. Víða um heim fréttist af veðurhörmungum, mikilli úrkomu í Bretlandi í sumar, annars staðar miklum þurrkum, miklum skógareldum, miklum stormum og miklum hitum. Víðast eru flest ár óvenjuleg, langt frá meðalári. Frá árinu 2000 hefur jörðin búið við ellefu af þrettán heitustu árum síðustu 132 ára. Greinilegt er, að veður breytist og verður sumpart ofsafengnara en áður var. Fáir vísindamenn efast um, að breytingarnar stafa af mannavöldum.