Fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningunum um helgina var ekki bundin við Reykjavíkur-og Reykjanessvæðið, heldur tiltölulega jöfn um land allt. Aðeins Austurland og Norðurland vestra sátu eftir í þessari þróun og hækkaði þó hlutfall Sjálfstæðisflokksins af heildarfylginu á Austurlandi um 1,5%.
Á Vestfjörðum, Vesturlandi, Norðausturlandi og Suðurlandi jókst hlutfall flokksins um 4-5%. Áður var flokkurinn orðinn stærsti flokkurinn á Suðurlandi, en varð það nú einnig á Vestfjörðum. Og hann er um það bil að verða stærsti flokkurinn á Vesturlandi.
Liðin er sú tíð, að Framsóknarflokkurinn átti þorra fylgisins á Norðausturlandi. Vaxandi þéttbýlismyndun og fólksfjölgun á svæðinu hefur eflt Sjálfstæðisflokkinn verulega. Þetta er svipuð þróun og hefur orðið á Vesturlandi og Vestfjörðum. Enn stærri er flokkurinn á Suðurlandi, þar sem hann er kominn upp í tæp 43% fylgisins, eða svipað og hann hefur stundum haft í alþingiskosningum í Reykjavík.
Í höfuðborginni fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega helming fylgisins. Reykjanesið í heild er orðið hliðstætt flokksvígi. Þar fékk hann sinn mesta sigur í þessum kosningum og náði rúmlega 47% atkvæða.
Hlutdeild Sjálfstæðisflokksins af heildaratkvæðamagninu á Reykjanesi jókst um nærri 11%. Þetta er gífurlega há tala, sem jafngildir um 30% fylgisaukningu umfram fólksfjölgun og 50% aukningu atkvæðamagns.
Þetta er sama þróun og kom í ljós í byggðakosningunum fyrir mánuði. Þá varð Sjálfstæðisflokkurinn langstærsti flokkurinn í öllum kaupstöðum og kauptúnum svæðisins og meirihlutaflokkur í sumum þeirra.
Höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins nær því yfir Reykjavík og Reykjanesskagann allan. Það er ákaflega mikilsvert fyrir stjórnmálaflokk að hafa um helmings fylgi í mestu vaxtarhéruðum landsins og spáir það góðu um framtíð flokksins.
Suðurland er einnig í þann veginn að verða hluti þessa virkis. Það er athyglisvert, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hærra atkvæðahlutfall á Suðurlandi en Framsóknarflokkurinn hefur í sínu gamla höfuðvígi, á Austurlandi.
Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar glatað áður öruggri háborg sinni á Austurlandi og Norðausturlandi og býr þar í meira jafnvægi við aðra flokka en áður var. Hann er nú flokkur aðeins þriðjungs fylgis á landsbyggðinni og sjöunda hluta í Reykjavík og á Reykjanesi.
Stjórnmálaþróun síðustu ára með öllum sínum glundroða og erfiðleikarnir við myndun nýs meirihluta eftir kosningarnar sýna kjósendum fram á nauðsyn þess, að stórir flokkar séu efldir og smáir flokkar lagðir niður. Með þeim hætti er unnt að efla jafnvægi í stjórnmálum og efnahagsmálum landsins. Hin mikla fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins um land allt er, ásamt hruni Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, vísbending um, að kjósendur stefni í átt til fárra flokka og jafnvel tveggja flokka kerfis.
Jónas Kristjánsson
Vísir