Atvinnulífið er ríkisrekið

Greinar

Fyrir stuttu var í leiðara Vísis fjallað um, hvernig sósíalisminn í fjármálakerfi Íslands hefur magnazt á undanförnum áratugum. Í framhaldi af þessu benti Þjóðviljinn á, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði lengst allra flokka átt sæti í ríkisstjórnum á þessum tíma.

Athugasemd Þjóðviljans er réttmæt. Allir flokkar eru samsekir í þessari þróun, enda búa þeir allir að meira eða minna leyti yfir sósíalistískum þáttum. Þessir þættir geta verið góðir eða vondir eftir atvikum. Í stjórn Sjálfstæðisflokksins á málefnum Reykjavikur hafa þessir þættir oft komið fram á jákvæðan hátt. En í stjórn fjármála þjóðarinnar á sósíalismi sízt heima.

Einna skýrasta dæmið um þetta er ríkisrekstur útgerðar stóru togaranna. Ríkið fjármagnar beint og óbeint 95% af stofnkostnaði sumra þessara skipa og lætur síðan bæjarútgerðirnar reka þau á kostnað útsvarsgreiðenda.

Togaraverkfallið var raunverulega ekki leyst með samningum sjómanna og bæjarútgerða, heldur með samningum bæjarútgerða og ríkis um nýja dreifingu á taprekstri skipanna, þannig að þau greiði sig niður á lengri tíma en áður var samið um.

Broslegt millispil í þessum samningum var krafan um þjóðnýtingu stóru togaranna. Það er raunar formsatriði, hvort núverandi rekstur þeirra er talinn þjóðnýttur eða bæjarnýttur. Frumkvæðið að hönnun skipanna, smíðasamningum og smíðakaupum, svo og að fjármögnun þeirra var í höndum ríkisins með þeim árangri, sem allir sjá.

Raunar er sjávarútvegur þjóðarinnar að meira eða minna leyti þjóðnýttur. Útgerðarstjórarnir minna í vaxandi mæli á deildarstjóra hjá hinu opinbera. Ríkið sér um, að reksturinn komi nokkurn veginn út á núlli og að ekkert eigið fjármagn að gagni myndist í útgerðinni.

Þetta gerir ríkið annars vegar með of hárri skráningu gengis krónunnar, sem heldur útgerðinni í seilingarfjarlægð frá gjaldþroti og hins vegar með flóknum og fjármálalegum björgunaraðgerðum, sem gera ríkið að ráðandi afli íslenzkrar útgerðar.

Landbúnaðurinn er ríkisrekinn í enn meira mæli en sjávarútvegurinn. Fjármálaumsvif ríkisins á því sviði skipta mörgum milljörðum króna á ári hverju. Búið er að gera bændur að ánauðugum landsetum, sem verða að gera svo vel að hokra á vegum ríkisins, hvort sem þeir vilja eða ekki.

Almenn stefna ríkisins í fjármálum atvinnulífsins hefur verið sú að sölsa undir sig sem allra mest af lausu fjármagni þjóðarinnar. Ein leiðin er að frysta bankafé í Seðlabankanum. Önnur leiðin er að yfirbjóða bankana í útgáfu spariskírteina. 0g þriðja leiðin er að ofskatta þjóðina.

Þetta herfang eyrnamerkir ríkið síðan sérstökum sjóðum, sem standa undir fjárfestingu og rekstri margra veigamestu greina atvinnulífsins. Þar sem fjármögnunin er líklega mikilvægasti þáttur atvinnulífsins, eru þessar greinar að meira eða minna leyti ríkisreknar, þótt talað sé um einkarekstur á pappírnum.

Slíkur sósíalismi fjármálanna þekkist hvergi í nálægu landi, hvort sem þar ráða ríkjum borgaraflokkar eða jafnaðarflokkar. Enda er hann ein auðveldasta leiðin til að lama viljaþrek þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir