Atómstöðin.

Greinar

Llkur benda til þess, að Keflavíkurflugvöllur sé atómstöð og hafi verið það árum saman, sennilega án vilja og vitundar íslenzkra stjórnvalda. Þetta er eðlileg ályktun á grundvelli þeirra upplýsinga, sem birzt hafa í Dagblaðinu að undanförnu.

Hér í blaðinu hefur verið vitnað í nokkur erlend sérfræðirit, þar sem því er haldið fram, að kjarnorkuvopn séu á Keflavíkurflugvellí. Er talið líklegast, að þetta séu kjarnaoddar í kafbátasprengjum Orion-flugvéla varnarliðsins.

Einn þeirra sérfræðinga, sem um þetta hafa ritað, er Barry Schneider, starfsmaður upplýsingastofnunar um varnarmál í Washington. Birtist grein bans í fréttabréfi bandarískra kjarnorkuvísindamanna.

Í viðtali við Dagblaðið á föstudaginn skýrði Schneider frá því, að þessi skoðun byggðist á ýtarlegum athugunum hans árið 1974. Hefði hann m.a. rætt við bandaríska þingmenn, sem höfðu haft aðgang að leyniskjölum um útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum.

Dagblaðið hefur skýrt frá viðtölum sínum við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og flotaforingjann, sem stjórnar varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Hvorugur þeirra valdi þann kost að vísa til samkomulags íslenzkra og bandarískra stjórnvalda um, að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn.

Í staðinn vísuðu þeir til leyndarkrafa um, að þeir mættu hvorki játa né neita fyrirspurnum um tilvist kjarnorkuvopna á Keflavikurflugvelli. Þessi svör benda til þess, að þeir séu að tryggja sig gegn því að verða kallaðir ósannindamenn síðar, ef gert yrði uppskátt um kjarnorkuvopnin.

Viðbrögð íslenzkra ráðamanna hafa ekki verið eins skynsamleg. Stjórnmálamennirnir segjast einfaldlega ekki trúa því á Bandarlkjamenn, að þeir hafi hér kjarnorkuvopn. Aðrir segjast hafa skoðað sig um á Keflavíkurflugvelli og ekki séð neina skotpalla né önnur merki um kjarnorkuvopn.

Slíkar fullyrðingar eru marklausar, því að leikmenn geta ekki metið, hvort sprengjur í flugvélum séu búnar kjarnaoddum eða ekki. Þetta minnir okkur enn einu sinni á, hversu nauðsynlegt okkur er að hafa eigin hernaðarsérfræðinga, óháða varnarliðinu.

Hugsaalegt er, að varnarliðið geti ekki gegnt hlutverki sinu í öryggiskeðju Atlantshafsbandalagsins án þess að hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða. En um slíkt verður að hafa samráð við þau stjúrnvöld, sem lána land til slíkrar aðstöðu.

Séu hér kjarnorkuvopn í trássi við samkomulagið um varnarliðið, hafa Bandarikjamenn rofið það og má því láta það falla úr gildi án hins umsamda uppsagnarfrests, ef íslenzk stjórnvöld telja sér slíkt henta. Kjarnorkuvopnunum fylgir því töluverð pólitísk áhætta.

En á þessu stigi er kjarni málsins sá, að Keflavíkurflugvöllur er sennllega atómstöð og að Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir vilji, að svo verði áfram.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið