Af atburðum ársins er líklega flestum Íslendingum um þessar mundir minnisstæðast eldgosið við Leirhnúk og jarðskjálftarnir, sem því hafa fylgt. Sem betur fer hafa ekki hlotizt veruleg vandræði af þessum umbrotum. En þau minna okkur á, hversu þunn er skorpan, sem við göngum á og köllum að hafa fast land undir fótum. Slíkar aðvaranir hafa raunar verið tíðar á undanförnum árum.
Eldgosið og jarðskjálftarnir eru alls ekki einu ótíðindi ársins. Þetta er orðið eitthvert mesta slysaár, bæði i umferðinni og á öðrum sviðum. Þegar hafa um 80 menn látizt af slysförum. Þetta er fámennri þjóð svo mikil blóðtaka, að helzt er til að jafna styrjöldum meðal stórþjóða úti í heimi.
200 mílna fiskveiðilögsagan slær þó bjarma á árið 1975. Þegar frá líður, verður útfærslan vafalaust talin hafa verið merkasti atburður ársins. Þetta er lokaskrefið í stækkun fiskveiðilögsögunnar. Að vísu er þetta skref langt frá því að vera fullkomnað. Við stöndum í erfiðu þorskastríði við Breta og höfum gert við Vestur-Þjóðverja samning, sem margir eru óánægðir með. En við væntum þess, að hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna muni um síðir færa okkur endanlega sigurinn í höfn.
Vinnufriður hefur verið góður á árinu, þrátt fyrir ákaflega erfiðar aðstæður, samdrátt þjóðartekna og almenna rýrnun lífskjara. Samtök launþega hafa sýnt virðingaverða þjóðhollustu á árinu og ríkisstjórnin hefur eftir getu stuðlað að vinnufriði.
Ekki er unnt að segja, að árið hafi verið ríkisstjórninni hagstætt. Vinsældir hennar hafa farið þverrandi á árinu og er þar því miður að verulegu leyti sjálfskaparvíti um að kenna. Líklega er meirihluti þjóðarinnar andvígur í verulegum atriðum meðferð hennar á landhelgissamningum og þorskastríði.
Enn alvarlegri er mótbyr stjórnarinnar í fjármálum og efnahagsmálum. Í árslok er það réttilega útbreidd skoðun, að ríkisstjórnin hafi á þessum sviðum verið ráðlítil og forustulítil. Hún hefur farið illa með fjármál ríkis og þjóðar. Hún hefur magnað ríkisbáknið og á meginþátt í 4 milljarða halla þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, enda hefur hún aukið skuld sína við Seðlabankann um 3,5 mílljarða. Á útmánuðum var ástandið orðið svo hrikalegt, að Seðlabankinn varð að taka 7,5 milljarða bráðabirgðalán erlendis.
Árið 1975 hefur að ýmsu leyti verið árangursríkt í íþróttum. Hæst ber sigur knattspyrnumanna á Austur-Þjóðverjum og næsthæst jafntefli handboltamanna við Júgóslava. Svo er nú komið, að islenzkir iþróttamenn á þessum sviðum setja svip sinn á kunn atvinnumannalið úti í heimi. Ekki má heldur gleyma því, að tveir beztu skákmenn okkar voru aðeins hársbreidd frá því að komast í baráttuna um heimsmeistaratitilinn.
Þannig hefur árið verið ár skins og skúra. Við skulum vona, að meðlætið veiki okkur ekki og að mótlætið herði okkur, svo að við höfum nægan manndóm til að mæta nýjum erfiðleikum og ævintýrum á hinu nýja ári.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið