Annars flokks ástand

Greinar

“Þegar öllum, sem vildu sjá, var ljóst, að stórkostleg verðhækkunaralda var að skella á í heiminum á ýmsum nauðsynlegustu rekstrar- og neyzluvörum, var þeim vanda mætt hér með því að herða á ákvæðunum um að kaupa vörur gegn gjaldfresti, stytta leyfilegan lánstíma. Hvað halda menn, að slíkar ráðstafanir hafi kostað þjóðina í auknu innkaupsverði?”

Þetta er eitt dæmanna, sem Jón Sólnes alþingismaður rakti nýlega á Alþingi, er hann flutti tillögu um, að rofið yrði járntjaldið, sem er milli

Íslands og umheimsins í gjaldeyrismálunum. Hann telur réttilega, að Íslendingar hafi alvarlega dregizt aftur úr nágrönnum sínum á þessu sviði.

Í Danmörku er svipað kerfi og á öðrum Norðurlöndum, nema Íslandi. Þar syðra er frílistinn ekki háður neinum umsóknum né eyðublaðavafstri. Ferðamannagjaldeyrir er svo að segja frjáls og án umsókna og eyðublaða. Lántökur einstaklinga og fyrirtækja allt að 600 milljónum íslenzkra króna eru algerlega frjálsar og hærri lántökur tiltölulega greiðar. Þar taka bankar við fé til geymslu fyrir erlenda aðila og eru ósparir á að auglýsa þá þjónustu. Þannig mætti lengi telja.

Okkar kerfi þótti nokkuð gott fyrir fimmtán árum, þegar það leysti ömurlegt og gerspillt haftakerfi af hólmi. En í fimmtán ár höfum við staðið í stað, meðan nágrannar okkar hafa aukið gjaldeyrisfrelsið. Jón Sólnes telur, að úrelt kerfi okkar stuðli ekki aðeins að almennri minnimáttarkennd í meðferð fjármagns, heldur valdi einnig almennu vantrausti Íslendinga á gjaldmiðli sínum.

Eyðublöð í 3-4 eintökum þarf til að sækja um gjaldeyri til greiðslu áskriftar að tímariti, félagsgjalds eða smágjafar. Pósthús geta ekki afgreitt erlendar póstkröfur án stimpils frá gjaldeyrisstofnun. Engin erlend lán má taka á eigin ábyrgð, án milligöngu banka og gjaldeyrisyfirvalda. Hér er ekki einu sinni unnt að skila erlendum gjaldeyri án þess að sækja um það á sérstöku eyðublaði.

Þetta kerfi heldur náttúrlega uppi fjölmennu prentverki og embættismannakerfi. Að baki þess stendur rótgróin oftrú á yfirburðum eyðublaða- og skriffinnskukerfis.

Frelsi nágrannaþjóðanna í gjaldeyrismálum hefur ekki leitt til gjaldeyrisþurrðar, né til þess að vanskil hafi lent á bönkum eða ríki. Hins vegar hafa þjóðirnar með þessum hætti náð inn í löndin verulegu magni af erlendu lánsfé, sem hefur stuðlað að uppbyggingu þarlendra atvinnuvega.

Með því að taka upp slíkt kerfi telur Jón Sólnes, að Íslendingar hafi “möguleika á því að hefja gjaldmiðil þjóðarinnar til þess vegs, að hann njóti á hverjum tíma fyllsta trausts, bæði hjá þjóðinni sjálfri og hjá öðrum, eins og hæfir sjálfstæðu, frjálsu og fullvalda ríki. Það er ekki þýðingarminnsti þátturinn í sjálfstæðisbaráttu einnar þjóðar, að gjaldmiðill hennar sé traustur, bæði inn og út á við. Að hann standi fyrir sínu, hvar sem er, hvenær sem er, hafta- og hömlulaust.”

Eftir fimmtán ára hlé er orðið tímabært fyrir okkur að rífa okkur upp úr ástandi annars flokks þjóðar með annars flokks gjaldmiðil og taka upp gjaldeyrisfrelsi nágrannaþjóðanna.

Jónas Kristjánsson

Vísir