Opnun vegarins yfir Skeiðarársand er án efa ein af mestu samgöngubótum síðustu ára og er viðeigandi minnisvarði um ellefu alda búsetu í landinu. Vegurinn um sandinn er hápunkturinn á löngu og erfiðu átaki þjóðarinnar í viðleitninni við að koma öllum byggðum Íslands í gott vegasamband.
Vegurinn er opnaður snöggtum fyrr en menn þorðu að vona fyrir nokkrum árum. Kemur þar tvennt til. Annað var ágæt hugmynd Jónasar Péturssonar, fyrrverandi alþingismanns, um að efnt yrði til happdrættis til að fjármagna verkið. Og þjóðin sýndi vilja sinn í verki með mikilli þátttöku í þessu happdrætti. Hitt atriðið er frábær frammistaða þeirra, sem skipulögðu verkið og lögðu veginn.
Samt má einnig segja, að vegurinn yfir Skeiðarársand sé nokkuð síðbúinn. Hann er í flokki með vegum þeim, sem einkenndu vegagerð sjöunda áratugsins. Þá voru lagðir vandaðir vegir um Austfirði og Vestfirði þvera og endilanga og skilyrðin til búsetu þannig stórlega bætt í þeim sveitum, sem áður voru afskekktastar. Þá voru tímar Vestfjarðaáætlunar, Austfjarðaáætlunar og gífurlegrar fjármögnunar Vegasjóðs. Vegurinn um sandinn er síðbúinn hápunktur vegagerðarstefnu þess tíma.
Með áttunda áratugnum hófst svo stefna var anlegrar vegagerðar. Hún mætti nokkurri tortryggni úti á landi, þar sem menn töldu hana einkum vera í þágu íbúa Reykjavíkursvæðisins, enda teygðu varanlegu þjóðvegirnir sig í þrjár áttir frá höfuðborginni.
Nú, þegar menn hafa nokkurra ára reynslu af varanlegu slitlagi milli Selfoss og Reykjavíkur, eru menn almennt hættir að hafa horn í síðu hinnar dýru vegagerðar áttunda áratugsins. Menn átta sig á, að þessi góði vegur er aðeins upphafið að varanlegum hringvegi um landið allt
Lagning varanlegs slitlags á þjóðvegi fór vel af stað fyrstu tvö ár þessa áratugar. En eftir stjórnarskiptin hljóp tregða í undirbúning framkvæmda, þannig að upp á síðkastið hefur ekki verið samfelld vinna að varanlegri vegagerð eins og áður var.
Er þó ljóst, að vel verður að halda á spöðunum, ef takast á að leggja tvöfalda braut varanlegs slitlags hringinn kringum landið og út á Snæfellsnes og Vestfirði fyrir næstu aldamót, eins og marga dreymir um. Ef það á að takast, verður undirbúningurinn og sjálf vegagerðin að vera samfelld frá ári til árs.
Áætlað hefur verið, að þessi draumur muni kosta 1-2% af þjóðartekjunum næsta aldarfjórðunginn. Það er ekki há hlutfallstala, ef hún er skoðuð í ljósi þess, hve vanþróaðir við erum í vegakerfinu. Og þetta eru peningar, sem skila sér í hagkvæmara viðhaldi bíla og vega og ekki síður í stórbættum skilyrðum til búsetu úti í dreifbýlinu.
Þjóðin hefur lagt sinn hringveg og opnað hann til umferðar. En rykið, sem grúfir yfir þjóðvegum landsins þessa dagana, minnir okkur á, að enn er annar hringvegur ólagður. Enn sem komið er nær hann aðeins úr Kollafirði suður og austur til Selfoss með afleggjara út á Reykjanesskaga. Við þurfum því að herða okkur og stefna ótrauð að varanlegum hringvegi á aldarfjórðungs afmæli malarhringvegarins frá 1974.
Jónas Kristjánsson
Vísir