Andsvör og endurmat

Greinar

Sú spurning hlýtur að gerast áleitin um þessar mundir, hvort harðnandi þorskastríð Vestur-Þjóðverja gefi okkur ekki tilefni til viðskiptalegra gagnaðgerða og jafnvel endurmats á sambandi okkar við Fríverzlunarsamtökin og Efnahagsbandalagið.

Ljóst er, að síðustu atburðir í landhelgisdeilunni, einkum löndunarbann Þjóðverja á ísfiski, valda því, að samningahorfur hafa skyndilega versnað stórlega. Spennan veldur því, að engar horfur eru á samkomulagi á næstu vikum og jafnvel mánuðum.

Óhjákvæmilegt virðist því vera, að tollur landa Efnahagsbandalagsins á íslenzkum fiskafurðum hækki verulega um áramótin. Er það í samræmi við stefnu bandalagsins gagnvart ríkjum, sem ekki hafa fullgildan viðskiptasamning við það. Og Vestur-Þjóðverjar hafa hingað til hindrað, að samningur Íslands við bandalagið yrði gildur að því er varðar sjávarafurðir.

Tollahækkun áramótanna mun valda okkur töluverðu tjóni, sem vafalítið má reikna í hundruðum milljóna. Þetta hafa þýzk stjórnvöld sennilega í huga, þegar þau reyna með löndunarbanni að snúa upp á hendur Íslendinga. En það reikningsdæmi gengur ekki upp. Íslendingar láta ekki hræða sig til að taka afarkostum í samningum um 50 mílna fiskveiðilögsögu, þegar þeir eru að taka upp 200 mílna auðlindalögsögu.

Hins vegar er eðlilegt, að við reynum að svara löndunarbanninu í svipaðri mynt. Ein leiðin er að setja sérstakan bráðabirgðatoll á innfluttar vörur frá Þýzkalandi meðan bannið stendur. Önnur leið er að taka saman höndum um að kaupa ekki þessar vörur, en sú leið er ekki fær, nema vissa sé fyrir mjög almennri þátttöku í aðgerðunum.

Svör sem þessi eru áhrifamikil, ekki vegna tjónsins, sem þau yllu Þjóðverjum, heldur vegna táknræns gildis viljayfirlýsingarinnar, sem felst í þeim. Það veikir Schmidt kanzlara og gerir honum samanburðinn við fyrirrennarann óhagstæðan, er allir sjá að tuddalegar aðgerðir hans kalla á svör í sömu mynt.

Jafnframt gefur þorskastríðið okkur tilefni til að endurmeta gagnið, sem við höfum af viðskipta- og efnahagssamböndunum við Evrópu. Gagnið af Fríverzlunarsamtökunum hefur orðið minna en til var sáð. Það er fyrst og fremst okkar eigin stjórnvöldum að kenna, sem hafa eyðilagt þann aðlögunartíma, sem íslenzki iðnaðurinn átti að fá til að verða samkeppnishæfur. Hið sama gildir um viðskiptasamninginn við Efnahagsbandalagið.

Við virðumst verða að sæta því, að íslenzki iðnaðurinn verði undir í samkeppninni við vesturevrópskan iðnað á innlendum og erlendum markaði. Þar á ofan bætist nú, að íslenzki sjávarútvegurinn er hrakinn með háum tollmúrum frá markaði í Evrópu. Þennan tvöfalda ósigur eigum við ekki að þola athugasemdalaust.

Það virðist því kominn tími til viðskiptalegra gagnaðgerða gagnvart Vestur-Þýzkalandi og endurmats á sambandi okkar við Fríverzlunarsamtökin og Efnahagsbandalagið.

Jónas Kristjánsson

Vísir