Svo að segja daglega hallar undan fæti hjá andstæðingum okkar í landhelgismálunum. Athyglisverðust er stefnubreytingin, sem er að verða í Bretlandi, er áður var höfuðvígið gegn nokkurri útfærslu á fiskveiðilögsögu.
Til skamms tíma voru í Bretlandi alls ráðandi sjónarmið örfárra voldugra útgerðarfélaga, sem sendu togara sína á fjarlæg mið. Aðstaða þessara félaga var ágætt dæmi um, hve miklu fámennir þrýstihópar geta áorkað, ef þeir hafa sig mjög í frammi.
Hagsmunir þeirra fara engan veginn saman við hagsmuni almennrar útgerðar, sjómanna og fiskvinnslustöðva í Bretlandi, né heldur neytenda. Útgerð Breta á heimamiðum er mikilvægari þáttur í efnahagslífinu og snertir fleiri hafnir og fleiri kjördæmi en útgerðin á fjarlæg mið gerir. Menn eru bara fyrst að átta sig á þessu núna.
Þessir hópar hafa verið að krefjast verndar gegn ágangi erlendra veiðiskipa á Bretlandsmiðum og biðja um 200 mílna landhelgi. En það er fyrst núna,.að menn eru farnir að taka eftir þessum neyðarópum. Brezkir þingmenn eru að fara að átta sig á, að í kjördæmum þeirra eru hafnarbæir, þar sem fólk hefur hag af því, að 200 mílur verði viðurkennd alþjóðaregla.
Þessi nýi þrýstingur náði hámarki í fyrradag á lokuðum fundi ýmissa aðila, sem hafa hagsmuna að gæta í útgerð, fiskiðnaði og fisksölu í Bretlandi. Þar var ákveðið að hvetja ríkisstjórnina til að hefja samninga um útfærslu brezku fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur og til að reka á eftir endanlegri ákvörðun hafréttarráðstefnunnar um 200 mílurnar.
Þegar þeir aðilar í Bretlandi, sem hafa áhuga á 200 mílna fiskveiðilögsögu, eru farnir að skipuleggja aðgerðir sínar með þessum hætti, er þess áreiðanlega ekki langt að bíða, að brezka stjórnin verður endanlega að snúast á sömu sveif. Og þá er dottinn botninn úr virkri andstöðu Breta við 200 mílna landhelgi Íslendinga.
Hliðstæð þróun er að gerast víðar. Heimafiskimenn í bandarískum höfnum hafa náð verulegum árangri í 200 mílna stefnunni. Þeir hafa horft með skelfingu á sovézka og japanska flota spilla og eyða miðum þeirra. Og þeir hafa náð meirihluta bandarískra þingmanna á sitt band.
Bandaríska öldungadeildin samþykkti á síðasta þingi frumvarp um 200 mílna fiskveiðilögsögu og það með tveimur þriðju atkvæða. Málið hefur síðan verið í undirbúningi í fulltrúadeildinni.
Daginn fyrir lokaða fundinn í Bretlandi náði fiskimálanefnd fulltrúadeildarinnar bandarísku samkomulagi um orðalag frumvarps um 200 mílna landhelgi. Einnig þetta er mikill sigur fyrir sjónarmið Íslendinga í landhelgismálunum.
Talið er hugsanlegt, að fulltrúadeildin afgreiði frumvarpið fyrir næstu áramót. Ríkisstjórnin mun vera treg á að fallast á, að það verði að lögum. En alténd er ljóst, að Bandaríkin eru í hægfara sveiflu yfir í 200 mílna stefnuna.
Við getum látið þessa þróun vinna fyrir okkur. Hún grefur smám saman undan andstöðunni við 200 mílurnar og spillir stöðugt möguleikum brezku og vesturþýzku stjórnanna á að beita okkur hörðu í haust, þegar landhelgin stækkar.
Jónas Kristjánsson
Vísir