Hugsanlegt er, að á öndverðum næsta vetri verði í fyrsta sinn í manna minnum unnt að fjalla af viti á Alþingi um fjármál ríkisins. Fjármálaráðherra hefur lagt fram tvö lagafrumvörp, sem miða að slíku. Og ekki er vitað um neina fyrirstöðu gegn frumvörpunum á þingi.
Margoft hefur verið gagnrýnt, að fjárlagafrumvörp eru marklítil. Þau fjalla ekki um fjárhag ríkisins í heild. Til dæmis vantar í þau ótal liði, sem síðan koma í ljós í frumvörpum til lánsfjárlaga. Menn rífast því um fjárlagagöt, sem eru önnur en hin raunverulegu.
Sem dæmi. um markleysi fjárlagafrumvarpa má nefna, að síðasta frumvarpið vanmat tekjur ríkisins um meira en tvo milljarða og gjöldin um meira en fimm milljarða, lántökur um meira en þrjá milljarða og hallann um tæpa þrjá milljarða, allt samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Fjármálaráðuneytið gaf raunar til kynna í fylgiskjali með því frumvarpi, að stefnt væri að raunhæfari fjárlagafrumvörpum í framtíðinni. Þar var fjárlagagatið sett upp í stíl Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og þar komu fram ofangreindar upplýsingar um misræmi.
Nú á að stíga til fulls skrefið til skynseminnar. Samkvæmt hinum nýju frumvörpum virðist framvegis eiga að nota reglur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og hafa íslenzk fjárlög sambærileg við fjárlög annarra landa. Slík breyting hefur ótrúlega mikið tölfræðilegt gildi.
Ein veigamesta breytingin er, að lánsfjárlög falla inn í fjárlög. Yfirlit yfir lánaöflun og lánaráðstöfun verður í 1. grein fjárlaga. Og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður hluti af greinargerð með fjárlagaframvarpi hvers árs. Þannig fæst heildarmynd af dæminu.
Nú er ástandið hins vegar þannig, að fjárlagafrumvarpið varð að lögum fyrir síðustu jól, en lánsfjárlagafrumvarpið er enn í meðförum Alþingis og það þótt nærri fimm mánuðir séu liðnir af árinu, sem frumvarpið fjallar um. Að þessu leyti hefur ástandið aldrei verið verra.
Það verður því mikil og snögg breyting til bóta, ef Alþingi samþykkir nýju framvörpin tvö. Þá verður væntanlega búið fyrir næstu jól að fá á hreint fjárhagsáætlun ríkisins fyrir árið 1986, það er að segja nokkrum dögum áður en áætlunin á að taka lagalegt gildi.
Frumvörpin fela í sér, að framvegis muni fjárveitinganefnd Alþingis fjalla um lánsfjárlög sem hluta af fjárlögum. Það ætti að auðvelda meðferð málsins að fjalla þannig um það í heild í einni nefnd í stað tveggja áður. Þetta er spor í rétta átt.
Fleira er í frumvörpunum. Fjárreiður almannatrygginga flytjast úr B-hluta í A-hluta fjárlaga. Þar finnst einnig samastaður fyrir fjármál endurlána ríkissjóðs, sem hingað til hafa hreinlega verið í lausu lofti. Allar opinberar lánahreyfingar fara nú í fjárlögin.
Að þessum frumvörpum samþykktum verður hægt að ræða og rífast um af viti, hverjar séu og eigi að vera tekjur ríkisins og gjöld, lántökur og halli eða gróði. Umræða, sem hingað til hefur verið marklítil, getur orðið markvissari og færst nær raunveruleikanum.
Sum stjórnarfrumvörp þessa vetrar hafa ekki verið beysin. Þau mættu gjarna bíða afgreiðslu nú á síðustu dögum þingsins. Í staðinn mætti gefa forgang þessum tveimur ágætu frumvörpum fjármálaráðherra, svo að eitthvað varanlegt liggi eftir 107. löggjafarþingið.
Jónas Kristjánsson.
DV