Forsætisráðherra lítur alvarlegum augum á málið og dómsmálaráðherra telur, að það verði skoðað.
Ríkisstjórn okkar minnir í landhelgismálinu á Kildare lækni í sjónvarpinu, sem var á stöðugum flótta undan réttvísinni. Ríkisstjórnin er á flótta undan umbjóðendum sínum, kjósendum í landinu. Stundum þæfist hún fyrir almenningsálitinu með yfirlýsingum á borð við þær, sem hér getur að f.raman, og stundum hleypur hún á eftir almenningsálitinu.
Bretar hafa gengið mjög hart fram í þessu þorskastríði. Atgangur Þeirra náði hámarki, þegar þeir gerðu varðskipinu Þór fyrirsát í mynni Seyðisfjarðar og sigldu hvað eftir annað á það. Þessi atlaga var staðfest á ljósmyndum og kvikmyndum. Þessi atburður réð úrslitum um, að fyrri hugmyndir um slit á stjórnmálasambandi við Breta fengu byr undir báða vængi.
Ríkisstjórnin var í fyrstu treg til að tjá sig um málíð og lýsti því svo yfir, að hún liti alvarlegum augum á það.
Eftir margvísleg undanbrögð og samráð út og suður ákvað ríkis!stjórnin að slíta stjórnmálasambandinu. Síðan fór hún strax að reyna að komast hjá framkvæmdum í málinu. Fyrst var beðið eftir komu Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og síðan eftir árangri ferðar forsætisráðherra til London. Loks sagðist stjórnin mundu slíta sambandinu, ef herskipin kæmu aftur inn í fiskveiðilögsöguna.
Herskipin komu aftur og fóru meira að segja að skipuleggja veiðar á alfriðuðu svæði, einu af mikilvægustu hrygningarsvæðum þorsksins. Nú voru allir sannfærðir um, að ríkisstjórnin kæmist ekki hjá því að framkvæma hótun sína og loforð. Brezkir ráðamenn og fjólmiðlar töldu stjórnmálaslit óhjákvæmileg og hið sama gerðu tveir íslenzku ráðherranna.
Hvað gerir svo ríkisstjórnin? Auðvitað lítur hún alvarlcgum augum á málið! Og hún ætlar að hafa samráð við þingnefndir, sem hún var raunar búin að gera fyrir löngu.
Langt er síðan Dagblaðið hélt því fram, að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að framkvæma hótunina um stjórnmálaslit. Þetta taldi Morgunblaðið ósvífinn áburð Dagblaðsins. Hið sanna hefur nú komið rækilega í ljós. Í heilan mánuð hefur ríkisstjórnin hliðrað sér hjá framkvæmdum. Og auðvitað hlæja Bretar að öllu saman.
Íslendingar líta yfirleitt svo á, að Atlantshafsbandalagið geti ekki sætt sig við aðgerðir brezkra herskipa á Íslandsmiðum. Til áréttingar þeirri skoðun er okkur lífsnauðsynlegt að slíta stjórnmálasambandi við Breta. Þar á ofan ber okkur að draga tímabundið úr samstarfinu við Atlantshafsbandalagið, meðal annars með yfirlýsingu um, að fulltrúar okkar muni ekki sitja við hlið fulltrúa árásarþjóðar á fundum ráðsins.
Við eigum að nýta okkur til fullnustu þann afleik Breta að senda herskipin í annað sinn á vettvang og í þetta sinn til að skipuleggja veiðar á alfriðuðu svæði.
Ríkisstjórnin þarf nú að fara að hætta að nudda hin alvarlegu augu og hætta að ræða um, að málið verði skoðað.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið