Agnið hefur verið lagt fyrir Gylfa Þ. Gíslason, formann Alþýðuflokksins. Stjórnarflokkarnir bjóðast til að styðja hann í embætti forseta sameinaðs alþingis. Má líta á þetta boð sem fyrstu innborgun vinstristjórnarflokkanna í væntanlega þátttöku Alþýðuflokksins í uppvakinni vinstristjórn.
Alþingi kemur saman í dag, án þess að neitt liggi fyrir um væntanlegt stjórnarsamstarf. Eðlilegast væri við slíkar aðstæður, að þingflokkarnir skiptu með sér forsetaembættum eftir stærð flokkanna. Með slíkri skiptingu væru þingmenn ekki að spá neinu um niðurstöðu stjórnarmyndunar.
Ef Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið, samtökin og Alþýðuflokkurinn gera hins vegar með sér samkomulag um skiptingu forsetaembætta, eru þessir flokkar að gefa til kynna, að þeir séu allir að vinna að nýrri vinstristjórn.
Talið er mjög freistandi fyrir Gylfa að vera forseti Sameinaðs alþingis á landnámshátíðinni á Þingvöllum. Hann yrði þá mjög í sviðsljósinu í því virðulega embætti. Auk þess væri á ýmsan hátt heppilegt fyrir Gylfa að vera þingforseti en ekki ráðherra í nýrri vinstristjórn. Hann bæri þá takmarkaða ábyrgð á ábyrgðarleysi útvíkkaðrar vinstristjórnar.
Á meðan freistingarnar sækja á Gylfa, er lítið um áþreifanleg svör forustumanna vinstriflokkanna við tilraunum Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til stjórnarmyndunar. Bæði Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn tala eins og véfréttir og forðast að gefa á sér færi.
Tilraun Geirs er samt ekki gagnslaus, þótt hún leiði ekki til stjórnarmyndunar. Hagrannsóknastofnun ríkisins hefur gert úttekt á þjóðarbúinu, sem foringjar allra flokka geta haft til hliðsjónar í umræðum um stjórnarmyndun.
Svo virðist sem bráðabirgðaaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi ekki megnað að draga neitt úr efnahagsöngþveitinu. Enn vantar fimm milljarða króna til að fjárfestingarsjóðir og ríkissjóður nái endum saman, tvo milljarða til að sjávarútvegur og fiskiðnaður skrimti á jöfnu, og átta til níu milljarða upp á, að jafnvægi náist í viðskiptum við útlönd.
Á næstu dögum reynir endanlega á, hvort einhverjir flokkar vilji taka höndum saman við Sjálfstæðisflokkinn um nauðsynlegan uppskurð á þjóðarbúinu og ríkisbúinu. Vandinn liggur ljós fyrir og spurt er, hverjir vilji taka til höndum.
Ef tíminn líður fram á næstu helgi, án þess að áþreifanlegur árangur náist í viðræðum þeim, sem Geir Hallgrímsson hefur frumkvæði að, fer að verða ljóst, sem marga grunar, að vinstriflokkarnir vilji fá tækifæri til að reyna að endurlífga vinstristjórn. Þá er eðlilegt, að forseti Íslands feli Ólafi Jóhannessyni slíka tilraun.
Of snemmt er að spá því, hvort sú stjórnarmyndun takist. Eysteinn Jónsson leggur þunga áherzlu á, að svo megi verða, og komið hefur í ljós, að margir forustumenn Alþýðuflokksins eru veikir fyrir hugmyndinni. Ef tekst að veiða Gylfa á forsetaagninu, er endurlífgun vinstristjórnar komin hálfa leið í höfn.
Jónas Kristjánsson
Vísir