Alþýðuflokkurinn heldur sínu

Greinar

Mest kemur á óvart sú niðurstaða skoðanakönnunar Dagblaðsins á fylgi stjórnmálaflokkanna, að Alþýðuflokkurinn skuli enn halda að mestu leyti fylgisaukningu kosninganna í sumar. Samkvæmt könnuninni hefur hann nú 21% fylgi í stað 22% í sumar.

Því hefur verið haldið fram, meðal annars í leiðurum Dagblaðsins, að fylgið sé að hrynja af Alþýðuflokknum vegna erfiðrar stöðu hans í ríkisstjórninni. Niðurstaða skoðanakönnunarinnar knýr okkur og aðra til að endurskoða þetta álit.

Að vísu mega menn ekki taka niðurstöður skoðanakannana of alvarlega. Við minnumst þess þó eins og fleiri, að skoðanakannanir Dagblaðsins fyrir kosningar þessa árs fóru ótrúlega nærri réttum úrslitum. Við treystum þeim því betur en áður.

Um þetta sagði Eiður Guðnason þingmaður í viðtali við Dagblaðið í gær: ” … ég hef tilhneigingu til að hafa nokkra trú á ykkar skoðanakönnunum í ljósi reynslunnar. Fyrir síðustu kosningar töldu ýmsir, að þetta væri lítið að marka, en annað kom í ljós.”

Um úrslitin almennt sagði Eiður: “Ég held, að ríkisstjórnin sé ennþá svona hóflega vinsæl. Hvað hún verður það lengi, er aftur annað mál. Það fer náttúrlega eftir því, hvað gerist hér á næstu mánuðum, fram til 1. marz.”

Svipuð sjónarmið komu fram hjá ýmsum, sem þátt tóku í könnuninni. Þeir sögðu, að ríkisstjórnin hefði setið svo skamma hríð, að lítil reynsla væri enn komin á störf hennar. Biðlund þessa fólks kann að þrjóta síðar í vetur, ef ríkisstjórnin verður þá ekki talin hafa staðið sig nógu vel.

Annað hvort er, að kjósendur telja Alþýðuflokkinn ekki hafa svikið kosningaloforð með eftirgjöfum í ríkisstjórn eða þá, að þeir telja fyrirvara þingmanna flokksins og yfirlýsingar þeirra um sérstöðu vera fullnægjandi í hinni pólitísku taflstöðu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið