Almannavarnir kyrktar

Greinar

Hvernig stendur á því, að ríkisstjórnin vill Almannavarnir ríkisins feigar? Er hún raunverulega svo andsnúin vörnum og öryggi landsins, að hún getur ekki einu sinni séð hinar innlendu varnir, Almannavarnir ríkisins, í friði? Eða er öngþveitið svo mikið í 30.000 milljóna ríkiskerfinu, að það gleymist að láta 9 milljónir renna til varna almennings?

Ríkisstjórnin hefur skorið svo rækilega niður ráðgerðar fjárveitingar til þessa starfs, að starfsliði er fækkað um helming, úr sex í þrjá menn. Fræðslustarf í skólum er lagt niður, sömuleiðis aðstoð við almannavarnir sveitarfélaga. Og beina línan til Víkur í Mýrdal, sem er nauðsynleg vegna hættu á Kötlugosi, er lögð niður.

Almannavarnir voru smám saman byggðar upp hér á landi á sjöunda áratugnum. Þær áttu að skipuleggja björgunarstarf og aðrar varnir gegn náttúruhamförum, stórslysum og hernaðarátökum. Þær áttu að samræma starf ýmissa björgunarsveita, slysavarnafélaga, skáta, flugs og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, Rauða krossins, ríkis og sveitarfélaga.

Meðal þess sem Almannavarnir ríkisins gerðu á þessum uppbyggingartíma, var að semja áætlun um skyndilegan brottflutning Eyjamanna til meginlandsins, ef eldgos yrði í Vestmannaeyjum. Þessi áætlun kom að ómetanlegu gagni fyrir réttu ári, þegar eldgosið í Heimaey hófst.

Þegar vinstri stjórnin tók við völdum, var hin hægfara uppbygging almannavarna stöðvuð. Fjárveitingar voru ekki auknar frá ári til árs eins og.áður hafði verið. Árið 1973 var fjárveitingin t.d. hin sama og hún var 10 árum áður eða 4 milljónir króna. Það var ekki fyrr en eldgosið í Eyjum hófst, að þessi stífla brast. Almannavarnir fengu þá aukið fé og mannafla til að gegna skyldum sínum,í sambandi við gosið. Fé þetta kom að mestu úr Viðlagasjóði, en ekki úr ríkissjóði.

Starfsmenn almannavarna öfluðu sér mikillar reynslu á gostímanum. Þessa reynslu hefði átt að varðveita og nota til frekari uppbyggingar almannavarna. Áhugi almennings á þessu starfi jókst líka verulega og mörg sveitarfélög fóru að sinna þessu vanrækta verkefni af fullri alvöru. Ef allt væri með felldu, ætti eldgosið að vera grundvöllurinn að skjótri uppbyggingu fullkominna almannavarna hér á landi.

Hvaða verkefni er mikilvægara en að gæta lífs og lima borgaranna? Sérfræðingar frá Sameinuðu þjóðunum hafa bent á ótal verkefni á þessu sviði. Þau kosta ekki mikið fé, enda var fjárþörf Almannavarna ríkisins ekki talin nema meiru en 15 milljónum króna á þessu ári. Þetta er ekki mikið fé á þeim tímum, er það kostar 100 milljónir að byggja hvern skóla. Af hverju þurfti þá að skera þessar 15 milljónir niður í sex milljónir?

Ríkisstjórnin sýnir í þessu máli sama takmarkalitla ábyrgðarleysið og hún sýnir í afstöðunni til varnarliðsins á Keflavíkurvelli. Varnir virðast vera algert bannorð í eyrum þessarar gæfulausu ríkisstjórnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir