Allt vill lagið hafa

Greinar

Skipulagi Reykjavíkur verður í náinni framtíð sem hingað til að haga þannig, að greið umferð sé bæði fyrir einkabíla og gangandi fólk, sem notar strætisvagna. Þýðingarlaust er að tala um einkabílinn sem blikkbelju, er sé óalandi og óferjandi. Draumsýnir sumra erlendra skipulagsmanna um miðborgir, þar sem eingöngu aki almenningsvagnar, eru áreiðanlega einstaklega erfiðar í framkvæmd. Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið, benda til þess.

Jafnvel þótt strætisvagnaferðir verði ókeypis, láta bíleigendur ekki hrekja sig úr bílum sínum upp í almenningsvagna. Þeir taka frekar á sig mikil óþægindi en neita sér um að fara á eigin bíl í og úr vinnu. Þetta er sálræn staðreynd, sem taka.verður tillit til.

Skiljanlegt er, að draumsýnir um einkabílalausar miðborgir skjóti upp kollinum í borgum, þar sem umferðin er orðin að öngþveiti. Í Reykjavík eru menn hins vegar svo lánsamir, að umferðin gengur yfirleitt greiðlega, nema þegar verið er að malbika götur eða þegar árekstrar verða. Og með skynsamlegu gatnaskipulagi má vafalaust halda greiðri umferð í Reykjavík í náinni framtíð.

Mesta vandamálið hjá okkur er skortur á bílastæðum í miðborginni. Það er hins vegar hægt að leysa með bílageymsluhúsum, sem eru vel staðsett, annað hvort alveg við Austurstræti og Laugaveg eða í næsta nágrenni þeirra. Með slíkum húsum má einnig auðveldlega losa það göturými, sem nú er undir um það bil 80 bílastæðum á þessum götum.

Það væri bjartsýni að ætla bíleigendum stæði við Umferðarmiðstöðina og reikna með því, að þeir taki strætisvagn þaðan inn í miðbæ. Hins vegar er bíleigendum lítill greiði gerður með því að leyfa þeim að aka Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti, því að þar er umferðin þung og bílastæði sjaldan auð.

Flestir eru sammála um, að heppilegast sé að loka þessum ás fyrir bílaumferð. En um leið er æskilegt, að einhverjir hafi framtak til að reisa við ásinn bílageymsluhús, sem hægt sé að aka inn í frá nálægum götum.

Alveg eins og nauðsynlegt er að taka tillit til þarfa einkabílsins, er mikilvægt að hlúa sem mest að strætisvagnakerfinu og hafa það þannig úr garði gert, að sem flestir freistist til að nota það. Strætisvagnarnir létta á umferðarþunganum og spara bílastæði.

Sjálfsagt er að halda áfram að greiða niður strætisvagnafargjöld eins og nú er gert. Einnig er líklega skynsamlegt að gefa strætisvögnunum forgang, þegar þeir aka af stað frá viðkomustöðvum, eins og nú er rætt um að gera. Það getur líka vel verið heppilegt að leyfa strætisvögnum og ef til vill líka leigubílum að aka eina akrein um Laugaveg, Bankastræti og Austumtræti, þegar þessar götur eru orðnar göngubrautir En það atriði verður að kanna ofan í kjölinn og taka fullt tillit til gangandi fólksins.

Reykjavíkurborg er á réttri leið í viðureigninni við þessi vandamál. Þau eru ekki svo stór í sniðum, að nein hætta sé á, að tilgangslausar draumsýnir verði hafðar til viðmiðunar. Með tiltölulega einföldum aðgerðum er unnt að greiða götu bæði einkabíla og strætisvagna á þann hátt, að allir megi sæmilega vel við una.

Jónas Kristjánsson

Vísir