Heildarhallinn á rekstri fiskveiða og fiskvinnslu Íslendinga mun lækka úr 1.740 milljónum króna á ári í 150 milljónir króna á ári við tilkomu bráðabirgðalaganna, sem sett voru á föstudaginn.
Þessar aðgerðir til minnkunar á tapi einnar mikilvægustu greinar atvinnulífsins eru árangur mikils starfs á vegum hins nýja sjávarútvegsráðherra, Matthíasar Bjarnasonar.
Þar sem þetta eru þær greinar, sem verst eru settar í núverandi efnahagsöngþveiti, eru bráðabirgðalögin eitt mikilvægasta skrefið í þeirri skipulegu endurreisn efnahagslífsins, sem nú stendur yfir.
Aðgerðir laganna nægja samt ekki fiskveiðiflotanum og allra sízt nýju skuttogurunum, sem eru reknir með rosalegu tapi. Hefur sjávarútvegsráðherra gengizt fyrir því, að bankarnir munu nú auka rekstrarlán til útgerðarinnar um 50%. Ennfremur hyggst ríkisstjórnir styrkja skuttogaraútgerð umfram það, sem kemur fram í lögunum.
Einn mikilvægasti þáttur bráðabirgðalaganna er, að útvegað er fjármagn til að greiða þá gífurlegu hækkun á olíuverði, sem orðið hefur á undanförnum misserum. Talið er, að olíusjóðurinn þurfi um 1.530 milljónir í þessu skyni. 300 milljónir fást af gengishagnaði í Seðlabanka og 1.230 milljónir króna af sérstöku gjaldi á útflutning sjávarafurða. Verður lagt 5,5% á útflutning saltfisks og skreiðar og 4% á annan útflutning sjávarafurða.
Annar mikilvægasti þáttur laganna er, að afganginum af gengishagnaðinum, eða 1.250 milljónum króna, verður varið til að greiða afborganir og vexti af skuttogurum og til ýmissa annarra þarfa fiskveiða og fiskvinnslu. Þar á ofan verður stofnfjársjóður fiskiskipa styrktur um 565 milljónir á ári með því að hækka greiðslur fiskvinnslustöðva úr 10% í 15% af aflaverðmæti og greiðslur báta, sem landa erlendis, úr 16% í 21%.
Augljóst er, að þessar ráðstafanir eru einkum gerðar á kostnað fiskvinnslunnar, enda hefur gengissigið og gengislækkunin á þessu ári bætt stöðu hennar en ekki fiskveiðanna. En þar með er líka búið að mjólka fiskvinnsluna eins og unnt er. Þess vegna er ákvæði í lögunum um, að fiskverð megi nú ekki hækka meira en um11%.
Til þess að verja fiskvinnsluna gegn frekari verðsveiflum á erlendum markaði er í lögunum gert ráð fyrir því, að greiðslur úr og í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins nemi 75% í stað 50% af verðbreytingum.
Athyglisvert er, að engin ákvæði laganna beinast að lækkun aflahlutar sjómanna, þótt því sé oft haldið fram, að hann sé svo hár, að fiskiskipin geti ekki borið sig, þótt þau séu með stöðugan mokafla. Þvert á móti er gert ráð fyrir því, að kjör sjómanna batni nokkuð, því að þeir fá að sjálfsögðu 11% hækkun fiskverðs að fullu í sinn hlut.
Að öllu samanlögðu má það teljast afreksverk hjá þeim mönnum, sem sömdu bráðabirgðalögin, að geta minnkað árlegt tap sjávarútvegsins úr 1.740 milljónum króna í aðeins 150 milljónir og gera það eingöngu með millifærslum innan sjávarútvegsins sjálfs, án þess að ríkissjóður komi til skjalanna. Þessar aðgerðir kosta þar með ekki neinar álögur á almenning í landinu.
Jónas Kristjánsson
Vísir