Allt í óvissu

Greinar

Viðræður ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins, sem nú eru á lokastigi, hafa gengið eins vel og hægt var að vona. Þátttakendur í viðræðunum eru sammála um, að þar hafi ríkt góður andi, enda mun ríkisstjórnin hafa tekið töluvert tillit til óska Alþýðusambandsins og breytt áformum sínum til samræmis við það.

Ekki var við því að búast, að viðræðurnar leiddu til sérstakra samninga. Alþýðusambandið fer ekki með samninga fyrir hönd aðildarfélaga sinna. En Alþýðusambandið fékk sem stærsti fulltrúi launþega í landinu tækifæri til að hafa veruleg áhrif á væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málum, sem varða lífskjör almennings.

Athyglisvert er þó, að Alþýðusambandið hefur þrátt fyrir allt þetta ekki talið ástæðu til að draga til baka stríðsyfirlýsinguna, sem fólst í áskoruninni til aðildarfélaganna um að segja upp samningum vegna gengislækkunarinnar. Sú áskorun er því í gildi enn. og á forsíðu Þjóðviljans í dag er varaforseti Alþýðusambandsins, Snorri Jónsson, að rukka inn uppsagnir frá aðildarfélögunum.

Þjóðin hefur því ekki neina tryggingu gegn því, að allt fari í bál og brand á vinnumarkaðinum. Hún sér bara, að Þjóðviljinn er daglega að egna sjálfsmorðssveitirnar til átaka, um leið og blaðið ræðst með sínu venjulega, ruddalega orðbragði að fulltrúum Alþýðusambandsins í viðræðunum við ríkisstjórnina og sakar þá um að reka erindi ríkisstjórnarinnar.

Nú er skammt að bíða bráðabirgðalaganna, sem ríkisstjórnin hyggst gefa út að loknum þessum viðræðum. Kjarni þeirra verður væntanlega sá, að frysting kaupgreiðsluvísitölunnar, sem vinstristjórnin hóf 1. júní í sumar, haldi áfram í átta mánuði í viðbót eða til 1.júní á næsta ári.

Í áframhaldandi frystingu felst áframhaldandi kjaraskerðing. En munurinn er sá, að nú á að greiða sérstaka láglaunauppbót á mánaðarlaun, sem eru lægri en 54.000 krónur. Þeir sem hafa 50.000 krónur eða minna, fá 4.000 króna uppbót. Og þeir, sem hafa 50.000-54.000 krónur, fá stiglækkandi uppbót, þannig að endanleg laun þeirra verða 54.000krónur. Þeir sem meiri laun hafa, fá enga uppbót.

Talið er hugsanlegt, að hliðstæð uppbót verði greidd á eftir-og helgidagavinnu. Þá er ekki gert ráð fyrir, að fyrirhuguð 3% launahækkun 1. desember verði fryst. Ekki er heldur gert ráð fyrir, að frysting kaupgreiðsluvísitölunnar verði ótakmörkuð, heldur hækki laun, ef vísitalan fer upp úr ákveðnu hámarki. Og loks munu niðurgreiðslurnar á landbúnaðarvörum ekki lækka nema um 12,5%.

Af þessu er ljóst, að ríkisstjórnin hefur tekið verulegt tillit til sjónarmiða Alþýðusambandsins og hyggst framkvæma margvíslegar ráðstafanir til að milda þær byrðar, sem efnahagsráðstafanir leggja á herðar hinna lægst launuðu í landinu.

Ekki er enn ljóst, hvort forustumenn einstakra launþegafélaga taka nokkurt tillit til þessarar merkilegu tilraunar, sem m.a. dregur úr tekjumismun í þjóðfélaginu. Þeir hafa aðstöðu til að eyðileggja þessa tilraun og breikka tekjubilið í þjóðfélaginu eins og þeim tókst að gera fyrir rúmlega hálfu ári, með þeim alvarlegu efnahagsafleiðingum, sem allir geta nú séð.

Jónas Kristjánsson

Vísir