Um þessar mundir er verið að eyðileggja alla lífeyrissjóði landsmanna, nema sjóð opinberra starfsmanna, sem er vísitölutryggður. Á aðeins tveimur og hálfu ári rýrnar verðgildi lífeyrisgreiðslna þeirra til ellilaunafólks um hvorki meira né minna en helming.
Þetta hróplega ranglæti, hrun mikilvægasta hluta tryggingakerfis okkar, er aðeins ein af mörgum alvarlegum afleiðingum hinnar yfirgengilegu verðbólgu,, sem við búum við. Árleg verðbólga er farin að nema 30% samkvæmt tölum Hagrannsóknadeildar. Og ljóst er, að frá. miðju ári 1972 til loka þessa árs, eða á hálfu þriðja ári, mun verðbólgan nema 100%, sem jafngildir tvöföldun verðlags á þessum tíma.
Eins árs verðbólga frá miðju ári 1972 til miðs árs 1973 nam 25%, og verðbólga ársins 1973 nam 30% samkvæmt tölum Hagrannsóknadeildar. Og það versta er, að í nýútkominni skýrslu deildarinnar um þjóðarbúskapinn er ekki spáð neinum bata á þessu sviði á árinu, sem nú er að líða.
Bendir deildin á, að kauptaxtar séu þegar orðnir 15% hærri en þeir voru að meðaltali í fyrra og að fyrirsjáanlegar verðlagsbætur muni samtals hækka kauptaxta um 25% milli ára. Verðlagið fylgir náttúrlega sömu lögmálum, enda er það þegar orðið 13% hærra en það.var að meðaltali í fyrra.
Í þessum tölum Hagrannsóknadeildar er ekki tekið tillit til þeirra kjarasamninga, sem nú standa yfir, enda var ekki vitað. um útkomu þeirra, þegar skýrslan var samin. Nú er bilið milli deiluaðila hins vegar orðið svo lítið, að þegar er ljóst, að miklar almennar kauphækkanir eru framundan, fyrir utan vísitöluhækkanirnar.
Þar á ofan eru afskipti ríkisstjórnarinnar af samningunum mjög verðbólguhvetjandi. Á fundum með vinnuveitendum hefur hún hvatt til þess, að þeir semdu um meiri kauphækkanir en þeir ráða við. Í staðinn býðst hún til að leyfa verðlagshækkanir og að lækka gengi íslenzku krónunnar, svo að þeir megi líka vel við una.
Þessi tegund afskipta er mjög líkleg til að stuðla að lausn vinnudeilunnar. En um leið magnar hún verðbólguna meira en nokkur önnur tegund afskipta. Vinnufriðurinn er keyptur með verðbólgu. Vandamálinu er þar með slegið á frest. Þú færð strax fleiri krónur í vasann, en þegar þú ætlar að fara að nota þær, kemstu að rann um, að verðlagið hefur hækkað að sama skapi.
Þessi vítahringur launa og verðlags er okkur gamalkunnur, þótt við höfum aldrei lært neitt af honum. En kannski er nú komið tækifærið til að læra. Í stað hinnar gamalkunnu 10% árlegrar verðbólgu, er nú komin 30% árleg verðbólga og virðist ætla að festa sig í sessi.
Ríkisstjórnin gerir ekkert til að hamla gegn þessari þróun, þótt hún sé ákaflega ranglát gagnvart þeim, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, svo sem lífeyrisþegum. Ríkisstjórnin sprengdi upp fjárlögin fyrir jólin. Hún er núna að sprengja upp laun með tilboðum um verðhækkanir og gengislækkun. 0g hún er með í maganum hugmyndir um enn frekari skattlagningu neyzluvara almennings.
Það er von, að hagfræðingar hennar séu svartsýnir.
Jónas Kristjánsson
Vísir