Menn gæta sín stundum illa i hita stjórnmálabardagans, ekki sízt þegar tilfinningamál á borð við fiskveiðilögsöguna eru i brennidepli. Þessa hefur einmitt gætt í öllum herbúðum hér á landi síðustu dagana. Á Norðfirði gerðu menn tilraun til að grýta brezka sjóliða, en án árangurs, sem betur fer. Og fleíri gera mistök en þessir fáu Norðfirðingar
Ríkisstjórnin hefur dregið á flot Jón Jónsson, forstöðumann Hafrannsóknastofnunarinnar, og búið til úr honum stofnun. Hann hefur bréflega vitnað með undanþágusamningnum við Vestur-Þjóðverja og það í nafni Hafrannsóknastofnunarinnar. Í bréfinu segir hann stofnunina telja samninginn skásta kostinn. Þetta er síðan tekið hrátt upp í fréttum og áróðri dagblaða ríkisstjórnarinnar.
Nú er Jón Jónsson engin hafrannsóknastofnun, enda hefur allur þorri sérfræðinga stofnunarinnar mótmælt bréfi hans sem rökleysu. Bréf sérfræðinganna er hæfileg rassskelling á Jón og ríkisstjórnina fyrir frámunalega ómerkilegt herbragð, sem jafngildir þvi, að forsætisráðherra segði: Ég er ríkið.
Annað dæmi um, hvemig málin fara úr böndum, er hvatning Samstarfsnefndar um landhelgismál, þar sem skorað var á þjóðina að fara í verkfall í dag til að mótmæla samningnum við Vestur-Þjóðverja. Að baki þessarar tilraunar til að brjóta á bak aftur lýðræðislega hefð í landinu eru virðuleg samtök á borð við Alþýðusamband Íslands.
Sem betur fer tók þjóðin lítið mark á þessari áskorun, enda er málið í höndum Alþingis, rétt kjörinnar fulltrúasamkomu þjóðarinnar. Ef samstarfsnefndin hefði hugsað málið af skynsemi, hefði hún látið útifundinn nægja og væntanlega haft af honum sóma. En hún skaut yfir markið og varð sér til skammar.
Þriðja dæmið er tilraun málgagna ríkisstjórnarinnar til að breiða yfir galla samningsins víð Vestur-Þjóðverja og ýkja kostina út yfir allan þjófabálk. Reynt er að láta líta svo út sem samningurinn feli í sér samdrátt í veiðum Vestur-Þjóðverja á Íslandsmiðum með því að birta gamlar tölur frá 1973. En samningurinn felur ekki í sér samdrátt frá aflamagni áranna 1974 og 1O75.
Einnig er reynt að gera lítið úr því, að engin viðurkenning á 200 mílum felst í samningnum, ekkert afnám refsitolla Efnahagsbandalagsins og engin viðurkenning á því, að veiðum Vestur-Þjóðverja eigi að ljúka hér við land að tveggja ára samningstímanum liðnum.
Fjórða dæmið er loddaraleikur Lúðvíks Jósepssonar, sem í fyrra vildi leyfa Vestur-Þjóðverjum að veiða 80.000 tonn á Íslandsmiðum og meðal annars á 54.000 ferkílómetra veiðisvæðum innan gömlu 50 milna markanna. Þá var hann i stjórn. Núna í stjórnarandstöðunni þykist hann vera þrútinn af hneykslun út af 6O.000 tonnum og 25.000 ferkilómetrum. Gömlum lýðskrumurum af þessu tagi á ekki að flagga.
Samningarnir við Vestur-Þjóðverja eru búnir og gerðir og hafa fengið löglega staðfestingu alþingis. Við skulum þvi reyna að fá stjórnmálamennina til að hætta að fljúgast á og ljúgast á um þá. Við skulum heldur einbeita okkur að Bretum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið