Í þessum dálkum hefur stundum verið kvartað um, að stjórnarskipti hafi engin áhrif. Hægri og vinstri stjórnir séu nokkurn veginn eins, þegar til kastanna kemur. Vinstri stjórnir beita svokölluðum “íhaldsúrræðum” og hægri stjórnir auka þátt ríkisins í þjóðarbúskapnum.
Ísland er ekki eina ríkið í heiminum, sem býr við þetta sérkenni. Svíþjóð er annað dæmi um, að sveifla í litrófi stjórnmálanna hefur ekki hin minnstu áhrif á gerðir stjórnvalda. Það sést á þeim tveimur árum, sem hægri stjórn hefur verið þar við völd.
Í síðustu kosningabaráttunni lögðu flokkar þeirrar stjórnar, sem nú hefur sagt af sér, mikla áherzlu á andstöðu sína gegn óhóflegum sköttum og óhóflega stóru og þunglamalegu skriffinnskukerfi ríkisins. Þessi stefna þeirra átti vafalaust töluverðan þátt í kosningasigrinum.
Reynslan er svo sú, að hægri flokkarnir hafa aukið skattbyrðina og eflt skriffinnskukerfið. Er nú svo komið, að opinberir starfsmenn þar í landi eru orðnir 1,4 milljónir á móti 2,4 milljónum í öðrum atvinnugreinum samanlögðum!
Sænskir atvinnuvegir eru að kikna undir hinni þungu yfirbyggingu. Skipasmíðar hafa nánast hrunið og aðrar frægar útflutningsgreinar á borð við járniðnað, timburvinnslu og pappírsgerð hafa glatað verulegum hluta hinna erlendu markaða sinna. Framleiðslukostnaður í Svíþjóð er orðinn of mikill.
Hægri stjórnin stakk höfðinu í sandinn á nákvæmlega sama hátt og vinstri stjórnin gerði áður. Hún hækkaði bara skattana og jók jafnframt hallann á ríkisbúskapnum. Sá halli verður í ár hvorki meiri né minni en 300.000 íslenzkar krónur á hvert mannsbarn í Svíþjóð!
Ekki gengur betur í ýmsum hliðarmálum. Stærsti stjórnarflokkurinn hafði fyrir kosningar efst á stefnuskránni að loka hinum fimm kjarnorkurafstöðvum Svíþjóðar og koma í veg fyrir byggingu fleiri slíkra. Nú eru þessar stöðvar orðnar sex og starfa af fullum krafti.
Viðurkenna verður, að hægri stjórnin í Svíþjóð tók við ákaflega erfiðu búi. Vinstri stjórnin hafði fjármagnað gífurlega birgðasöfnun hjá sænskum útflutningsfyrirtækjum í þeirri von, að alþjóðlega kreppan mundi skjótt líða hjá. En þá var heimurinn ekki lengur reiðubúinn að kaupa of dýrar sænskar vörur.
Hið athyglisverða er, að í vandræðum sínum beitti hægri stjórnin nákvæmlega sömu tilraunum til úrræða og vinstri stjórnin hefði gert. Það er eins og kerfið silist áfram sinn vanalega gang, algerlega án tillits til upphrópana og slagorða í kosningabaráttu.
Dæmi hliðstæð hinu sænska má vafalaust rekja í fleiri ríkjum Vesturlanda. Þetta er nákvæmlega sama sagan og Íslendingar hafa að segja af sveiflum sínum á undanförnum árum, fyrst til vinstri, síðan til hægri og loks til vinstri aftur. Stjórnir koma og fara á fjögurra ára fresti, en Jón Sigurðsson í Þjóðhagsstofnun heldur áfram að ríkja.
Flokkarnir beita einkaslagorðum sínum út í loftið. Undir niðri eru þeir þó allir komnir inn að miðju, allir orðnir að lýðræðissinnuðum jafnaðarmannaflokkum. Þessu þýðir ekki að mótmæla, því að kjósendur hafa séð, að ekki er hinn minnsti munur á vinstri og hægri stjórnum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið