Aldraðar gleðikonur

Greinar

Vörur, sem sýndar eru á heimilissýningu í Laugardalshöll hljóta að vera upp og ofan. Þótt sýningar lúti þessu lögmáli, eru þær eigi að síður ákaflega nytsamlegt kynningartæki fyrir seljendur og kaupendur.

Ekki þurfti að ganga lengi um á sýningunni í fyrri viku til að komast að raun um, að þar voru vandaðar, fyrsta flokks vörur innan um skammlíf en dýr tízkufyrirbæri og margvíslegt rusl.

Af lestri hinna öldruðu flokksblaða mátti hins vegar ráða, að allar sýningarvörurnar væru vandaðastar og beztar. Þar voru myndir af brosmildum kaupsýslumönnum með viðtölum við þá og lofgreinum um vörur þeirra.

Útilokað er, að allt þetta hól geti verið satt. Enda vantaði í hópinn ýmsa þá, sem beztar vörur höfðu á boðstólum. Skýringin er auðvitað sú, að hólið var verzlun milli dagblaða stjórnmálaflokkanna og kaupsýslumanna á sýningunni.

Þessi dagblöð leigðu aðgang að fréttaplássi sínu fyrir auglýsingar og peninga.

Dagblaðinu voru gerð ýmis slík boð, sem það hafnaði að sjálfsögðu. Fróðlegt var síðan að sjá í öðrum blöðum myndir af þessum gylliboðsmönnum og hólgreinar um vörur þeirra.

Lesendur geta sannfærzt um sambandið milli hólgreinanna og auglýsinganna með því að bera saman í hverju dagblaði fyrir sig, hvaða fyrirtæki auglýstu og hvaða fyrirtæki voru lofuð.

Erfiðara er að sanna beina sölu á fréttaplássi fyrir peninga, enda er sú aðferð ólíkt lævíslegri. En af tilboðum þeim, sem Dagblaðið fékk, mátti ráða, að slík sala færi vaxandi í flokksblöðunum.

Morgunblaðið og Vísir voru á kafi í hólgreinum. Þessi blöð eru líka gefin út af kaupsýslumönnum, ekki til að gæta hagsmuna lesenda, heldur til að gæta hagsmuna aðstandenda. Líklega valda þessi viðskipti litlum samvizkukvölum þar í hópi.

Tíminn endurspeglar Framsóknarflokkinn, sem lengst flokka hefur komizt í að gera stjórnmál að verzlunarvöru. Menn muna maraþonviðtölin, sem Tíminn birti á sunnudögum og tók fé fyrir. Á bak við þau er nákvæmlega sama hugsunin og í stefnu blaðsins og flokksins. Hún er sú að verzla með aðstöðu og völd.

Athyglisvert er, að Tíminn kallar sig hugsjónablað og Dagblaðið blað fjáraflamanna. Tíminn mundi væntanlega kalla þá konu fjáraflakonu, sem hvorki vildi né þyrfti að selja blíðu sína.

Merkilegust er þó kaupsýsla Þjóðviljans á sýningunni. Svokallað “málgagn sósíalisma, verkalýðshreyfingar og þjóðfrelsis” hefur dag eftir dag verið lagt undir áróður kaupsýslumanna í þakklætisskyni fyrir auglýsingar.

Þegar þessi óþrifalega sala Þjóðviljans er farin að fylla heil aukablöð, hlýtur hún að fara að valda einhverjum geðklofa þar á bæ.

Skrifin um sýninguna í Laugardalshöll eru dæmi um, hvernig hin öldruðu flokksblöð eru gegnsýrð af siðleysi því, sem stjórnmálaflokkarnir hafa ræktað í áratugi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið