Gengislækkunin mun vafalítið rýra lífskjörin í landinu um 8-10% á næstu mánuðum. Þetta er óskemmtileg tilhugsun, sem veldur því, að menn taka gengislækkuninni ekki með neinum fögnuði.
En hinu má ekki heldur gleyma, að annars konar ráðstafanir, sem um tíma voru taldar koma til greina, hefðu rýrt lífskjörin með sama hætti. Uppbótaleiðin hefði ekki síður haft slík áhrif. Kjarni málsins er sá, að framhjá versnandi lífskjörum varð ekki komizt.
Gengislækkunin hefur það fram yfir aðrar ráðstafanir, að hún tryggir betur en aðrar leiðir framhald fullrar atvinnu í landinu. Hún gerir íslenzka atvinnuvegi samkeppnishæfari bæði á erlendum og innlendum markaði og byggir upp gjaldeyrisvarasjóð, sem skapar þjóðinni lánstraust til atvinnuaukandi framkvæmda.
Þetta gera flestir ábyrgir menn sér ljóst, þótt sumir þeirra hafi rekið upp ramakvein, meira af gömlum vana en af innri sannfæringu. Þess vegna er enn von til þess, að sæmilegur friður verði um gengislækkunina, svo að hinum hagstæðu áhrifum hennar verði ekki eytt.
Ríkisstjórnin hyggst í samráði við aðila vinnumarkaðsins gera ráðstafanir í þágu hinna verst settu í þjóðfélaginu, láglaunafólks og elli- og örorkulífeyrisþega. Þessar ráðstafanir eiga að hindra, að gengislækkunin leiði til félagslegs böls í landinu.
Þeir, sem betur eru settir, verða að taka á sig byrðar gengislækkunarinnar og sætta sig við, að lífskjör þeirra verði svipuð og þau voru á árinu 1972. Í þessum hópi verður uppmælingaraðallinn að vera, ef eitthvert vit á að vera í ráðstöfununum.
Ábyrgir menn verða að reyna að hafa vit fyrir þeim, sem vilja æsa til verkfalla í kjölfar gengislækkunarinnar. Við núverandi aðstæður mundi hækkun launa í krónutölu aðeins leiða til jafnmikilla verðhækkana, sem jafnóðum mundu eyða launahækkuninni og rýra enn verðgildi krónunnar. Þjóðarbúið hefur orðið fyrir slíkum áföllum í viðskiptakjörum og sölutregðu útflutningsatvinnuveganna, að launahækkanir væru ekkert annað en sjálfsblekking.
Við þetta bætist, að samdráttur er nú nauðsynlegur í byggingaframkvæmdum, ekki aðeins hjá hinu opinbera, heldur einnig hjá fyrirtækjum og fjölskyldum. Framleiðsluatvinnuvegirnir verða að minnsta kosti um sinn að hafa forgang að starfskröftum þjóðarinnar, meðan verið er að safna nýjum gjaldeyrisvarasjóði og nýju lánstrausti.
Að sjálfsögðu verður að gæta þess, að samdrátturinn verði ekki úr hófi og leiði ekki til atvinnuleysis í landinu. Í þessu efni ætti að vera unnt að rata réttan meðalveg félagslegra og efnahagslegra sjónarmiða.
Fyrstu mánuðir þessa árs verða okkur örlagaríkir. Gengislækkunin hefur fært þjóðinni möguleika á að rífa sig upp úr stöðnuninni á undan mörgum nágrannaþjóðunum. Það kostar nokkra þolinmæði að nýta þessa möguleika og forðast aðgerðir, sem spilla þeim. Ef þetta lánast, er þjóðin aftur komin á uppleið.
Jónas Kristjánsson
Vísir