Afskræmd þjóðargjöf

Greinar

Alþingismenn voru þjóðræknislegri vímu á Þingvöllum á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar, þegar þeir samþykktu að minnast afmælisins með því að þjóðin færði landinu ný klæði að gjöf.

Að baki þjóðargjafarinnar lá vitundin um, að Íslendingar hafa misþyrmt landi sínu í ellefu aldir. Fyrst var skógurinn höggvinn og fénaði beitt í sárin. Síðan tók vindurinn við og fullkomnaði verknaðinn.

Á ellefu alda afmælinu átti að snúa vörn í sókn. Þá var ákveðið að verja nokkrum hundruðum milljóna á ári í fimm ár til þess að klæða landið gróðri á nýjan leik. Þetta var þjóðargjöfin.

Forfeður okkar höfðu eytt landinu í eymd sinni og þekkingarskorti. Nú ætluðu auðugir afkomendur þeirra að bæta fyrir brotið og vinna að því að koma Íslandi aftur í samt lag.

Í nokkur ár hefur þjóðargjöfin gert landgræðslumönnum kleift að dreifa þúsundum tonna af fræi og áburði á auðnir landsins. Hver er svo árangurinn af þessu starfi?

Hann er sá, að bændur hafa sett fleira sauðfé á fjall. Þetta sauðfé hefur étið þjóðargjöfina og meira til. Þrátt fyrir þjóðargjöfina fer gróður landsins ört minnkandi.

Ingvi Þorsteinsson magister hefur í 20 ár mælt og kortlagt gróður landsins, einkum á afréttum og hálendi landsins. “Það er enginn vafi á, að við erum á verulegu undanhaldi,” sagði hann í viðtali við Dagblaðið fyrir rúmri viku.

“Rannsóknir okkar benda til þess, að það sé of margt sauðfé í landinu eins og dreifingu þess er háttað nú, jafnvel allt að þriðjungi of margt,” sagði Ingvi í viðtalinu.

Um þjóðargjöfina sagði hann m.a.: “Hún hefur ekki komið að því gagni, sem vonir stóðu til, enn sem komið er,” vegna þess að einn þáttinn vantar, skipulega landnýtingu, þannig að fjöldi og tegundir búfjár væru í samræmi við landgæði.

“Aðeins í þremur sýslum landsins er ekki um gróðureyðingu að ræða af völdum ofbeitar, en hún er talin mjög mikil í átta sýslum. Í heild er gróður talinn vera vaxandi í aðeins tveimur sýslum,” sagði Ingvi í viðtalinu.

Í skóglendinu er ástandið lítið betra: “Um fjórðungur skóglendis er í afturför vegna beitar en aðeins þriðjungur er í framför.”

Dagblaðið vill túlka niðurstöður Ingva Þorsteinssonar á þann hátt, að þjóðargjöfin hafi verið notuð til að gera sauðfjáreigendum kleift að láta þjóðina borga meiri landbúnaðarstyrki, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur en nokkru sinni fyrr.

Ísland hefur hins vegar verið svikið um þá gjöf, sem alþingismenn hugðust færa því til yfirbótar fyrir misgerðir liðinna alda. Í reynd hefur hugsjónin verið notuð til hagsmunabralls, og landinu áfram látið blæða út.

Alþingismenn bera fulla ábyrgð á þessum landráðum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið