Áfram með orkuverin

Greinar

Okkur hefur að undanförnu ekki gengið eins vel og við hefðum óskað í virkjun orkulinda landsins. Orkukreppan í heiminum hefur sýnt okkur, að virkjun vatnsafls og jarðvarma þarf að vera eitt af helztu forgangsverkefnum okkar. En ýmsar ástæður valda því, að okkur miðar of hægt í þessum efnum.

Ein meginástæðan er sú, að vinstri stjórnin lét hjá líða að taka ákvörðun um ný stórvirki á þessu sviði. Hinar mikilvægu virkjanir, sem nýlokið er, verið er að ljúka eða verður senn lokið, svo sem Laxá, Lagarfoss og Sigalda, eru arfleifð frá viðreisnarstjórninni. Hléið, sem síðan varð á dögum vinstristjórnarinnar, veldur því nú, að við erum ekki nægilega vel búnir undir nýjar virkjanir.

Önnur ástæða er fólgin í fjárhagserfiðleikum undanfarinna mánaða. Ríkisvaldið hefur átt í erfiðleikum með að finna lausn á fjárhagslegri fyrirgreiðslu vegna hitaveitu frá Svartsengi til byggðanna á Suðurnesjum- Og Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki fengið næga gjaldskrárhækkun til að ljúka hinu mikla dreifikerfi fyrir Reykjavíkursvæðið.

Stjórnvöld eru nú að reyna að vinna upp fyrri tafir og finna fjárhagslegar lausnir á verkefnum, sem komin eru á framkvæmdastig. Mikilvægt er, að þetta takist sem bezt og fljótast. Einna ánægjulegasta sporið í rétta átt er, að tekizt hefur að stytta áætlaðan byggingartíma orkuversins við Kröflu úr fjórum árum í tvö ár. Með þeirri virkjun ætti hinum þráláta orkuskorti á Norðurlandi að linna.

Við megum ekki láta það taka okkur mörg ár að búa svo um hnútana, að jarðhiti og vatnsafl leysi olíuna alveg af hólmi í rafmagnsframleiðslu og húsahitun. Lagning hitaveitu í nágranna. byggðir Reykjavíkur og um Suðurnes eru einna veigamestu verkefnin á þessum sviðum og mega ekki tefjast, þrátt fyrir fjárhagserfiðleika opinberra aðila.

Jarðhitinn er ekki síður mikilvægur en vatnsaflið, því að fundnar hafa verið ódýrar leiðir til að framleiða rafmagn úr jarðhita. Kröfluvirkjun er fyrsta stóra skrefið á þessu sviði og verður væntanlega fyrirboði mikillar útþenslu á nýtingu þeirrar auðlindar.

Óttinn við stóriðju má ekki lama þessa þróun eins og hann gerði á valdatíma vinstri stjórnarinnar. Við megum ekki vera að því að heyja stórstyrjöld um hvert einasta slíkt iðjuver. Slagurinn um álverið var of illskeyttur og karpið um málmblendiverksmiðjuna gengur út í öfgar. Slíkar deilur tefja þróun stóriðju hér á landi og tefja um leið möguleika okkar á að nýta orkulindirnar, sem nú eru verðmætari en nokkru sinni fyrr vegna hins háa verðs á olíu.

Þótt við hefjum stórsókn í að byggja upp orkufrekan iðnað með erlendu fjármagni, þarf það ekki að dreifa huga okkar frá möguleikum okkar sjálfra í þróun innlends léttaiðnaðar. Og við getum einnig samtímis hraðað athugunum á því, hvernig nýta megi jarðhitann á hagkvæman hátt til ylræktar. Við þurfum að sækja fram á öllum sviðum í senn.

Okkur nægir ekki að framleiða eigin rafmagn og húsahitagjafa. Við þurfum líka að láta auðlindir landsins gera okkur að raunverulegri iðnaðarþjóð. Olíukreppan á að vera okkur nægileg hvatning á öllum þessum sviðum.

Jónas Kristjánsson

Vísir