Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki tekið rétta stefnu í endurnýjun gamla bæjarins. Ákvörðun síðustu viku, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stóðu að, tekur ekki vandamál gamla bæjarins nógu föstum tökum.
Ákveðið var að auka verulega atvinnutækifærin í gamla bænum og jafnframt auka íbúatölu hans lítillega eða úr 5.000 manns í 7.000 manns. Þarna bjuggu 12.000 manns, áður en fólksflóttinn til úthverfanna byrjaði.
Fulltrúar Alþýðubandalagsins vildu sem minnsta uppbyggingu á þessu svæði, bæði vegna verndunar þess og til að hindra umferðaröngþveiti og kostnaðarsöm mannvirki fyrir umferðina. Hjá Alþýðuflokknum kom hins vegar fram það sjónarmið, að ganga ætti lengra í íbúafjölgun gamla bæjarins en meirihlutinn vildi gera.
Þetta síðasta sjónarmið fer næst þeim tillögum, sem settar voru fram í leiðara Dagblaðsins 13. desember í fyrra. Þær stefndu að verulegri endurbyggingu gamla bæjarins með þeim hætti, að álag á umferðarmannvirkjum yrði sem minnst og mannlíf í gamla bænum yrði sem mest.
Dagblaðið vildi stefna að íbúafjölgun gamla bæjarins upp í 12.000 manns eins og áður var. Þetta má gera með því að reisa háhýsi íbúða á svæðinu milli Hverfisgötu og Skúlagötu og skipuleggja íbúðir ofan á væntanlegum verzlunar- og skrifstofuhúsum Laugavegsássins.
Á þessum stað er glæsilegt útsýni yfir Sundin til Esjunnar. Og þrátt fyrir hina þéttu byggð er unnt að sinna þörfum barna með því að skipuleggja leiksvæði á skýldum þökum hinna lægri húsa á svæðinu. Íbúar þessa svæðis ættu í mörgum tilvikum að geta komizt fótgangandi til vinnu.
Slík stefna mundi draga úr því, að menn þyrftu að þveitast á bílum sínum ofan úr Breiðholti eða innan úr Korpúlfsstaðatúni niður í bæ. Minna ójafnvægi yrði milli búsetu og atvinnutækifæra í gamla bænum en hinar samþykktu tillögur gera ráð fyrir.
Samt sem áður mundu atvinnutækifærin verða fleiri en búsetutækifærin. Þess vegna lagði Dagblaðið til, að reist yrðu við Hverfisgötuna nokkur bílageymsluhús með innakstri frá Skúlagötu. Sú gata yrði breikkuð og sett í verulega gott hraðsamband við aðra borgarhluta. Þar með ætti að vera unnt að hindra umferðaröngþveiti bæði á leiðunum að og frá gamla bænum og svo innan hans sjálfs.
Ef menn hafa góð tækifæri til að leggja bílum sínum við Hafnarstræti og Hverfisgötu, ætti að vera tiltölulega auðvelt að framkvæma hugmyndir um yfirbyggðan gönguás frá Aðalstræti upp að Hlemmtorgi og um verndun þröngra gatna fyrir óhóflegri bílaumferð.
Þessar hugmyndir eru allar liður í þeirri stefnu, að borgarhlutar séu fjölhæfir en ekki einhæfir, sumir til dæmis ekki aðeins lifandi á daginn og aðrir á kvöldin. Þær eiga að gæða gamla bæinn meira lífi en hinar samþykktu tillögur gera ráð fyrir. Og um leið eiga þær að greiða fyrir samgöngum í borginni allri.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
