Taugaveiklun er að breiðast út meðal íslenzkra stjórnmálamanna vegna hótana norskra veizluvina þeirra um aukna áherzlu á loðnuveiði við Jan Mayen. Með taugaveikluninni eykst hættan á afleikjum, til dæmis í formi hinna nýju og fávíslegu tillagna BenediktSs Gröndal utanríkisráðherra.
Fyrst reyndu Norðmenn með Rússagrýlu að kúga Íslendinga til hlýðni. Þeir sögðu, að Rússar mundu koma með ryksugur og taka alla loðnuna. Markmiðið var að fá Íslendinga í grænum hvelli til að viðurkenna 2OO mílur Norðmanna við Jan Mayen og miðlínu milli Íslands og eyjarinnar.
Þetta bar nokkurn árangur í leiðara Vísis á fimmtudaginn var. Þar var hvatt til norskra 200 mílna við Jan Mayen og til skjótra samninga við Norðmenn til að útiloka Rússa frá loðnunni. Hinum taugaveiklaða leiðara lauk svo:
“Við getum því lent í algerri sjálfheldu. Í stað þess að bíða átekta ættum við að taka aftur upp þráðinn, þar sem frá var horfið í viðræðunum við Norðmenn.” Þetta voru einmitt þau viðbrögð, sem Norðmenn óskuðu eftir.
Rússagrýlan reyndist marklaus. Nú hafa Norðmenn snúið við blaðinu og hóta sjálfir að gegna hlutverki hinna vondu Rússa. Þeir segja, að vel geti farið svo, að þeir veiði meira en þær 90.000 lestir loðnu, sem þeir voru áður búnir að gefa ádrátt um að takmarka sig við.
Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, að norskir stjórnmálamenn beiti þeim vinnubrögðum, sem geð þeirra stendur til. Hitt er ástæðulaust að taka nokkurt mark á slíkum tilraunum til kúgunar. Það er nefnilega engin kúla í byssunni.
Blekkisagnir eru algengar í pólitískum póker eins og öðrum póker. Þar dugir ekki að leggja niður rófuna, þótt andstæðingurinn láti drýgindalega. Betra er að taka lífinu með ró og neyða andstæðinginn til að sýna spilin sín. Þau reynast þá oftast ómerkilegri en gefið hafði verið í skyn.
Við eigum eftir að sjá Norðmenn veiða 300.000 lestir við Jan Mayen. Kannski fara þeir eitthvað yfir 90.000 lestir, svona til að sýnast. Það kostar okkur fórnir, en þær eru smámunir í samanburði við aðra langtímahagsmuni okkar við Jan Mayen.
Því miður fer taugaveiklun okkar manna saman við óðeðlilega mikil tengsl milli íslenzkra og norrænna jafnaðarmanna. Við munum enn tillitssemi íslenzkra jafnaðarmanna gagnvart dönskum félögum þeirra í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þá voru kratarnir að þakka fyrir danskt brauð.
Nú á tímum eru íslenzkir jafnaðarmenn allt of hallir undir norska vildarvini, sem hafa gefið Alþýðuflokknum peninga á undanförnum árum. Í ljósi þessara sönnuðu tengsla er óþægilegt til þess að hugsa, að bæði utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra Íslands eru kratar.
Við verðum að setja traust okkar á Alþýðubandalagið í rikisstjórninni. Það fékk frestað afgreiðslu tillagna Benedikts Gröndal um viðurkenningu norskra 200 mílna við Jan Mayen. Vonandi fá ráðherrar Alþýðubandalagsins nú það nesti úr flokki sínum að neita þessum tillögum algerlega.
Það skiptir litlu, hvort tillögur utanríkisráðherra eru tilslökun, áherzlubreyting eða óbreyttar tillögur frá fyrstu umferð. Hitt skiptir máli, að við eigum í bili ekki að hafa frumkvæði á þessu sviði, heldur láta Norðmenn um næstu tillögur.
Á meðan eigum við að undirbúa yfirlýsingu um, að Jan Mayen sé eyja án atvinnulífs á landgrunni Íslands Og að við gerum tilkall til afskipta af verndun fiskistofna allt í kringum eyna. Þá getum við snúið taugaveikluninni upp á Norðmenn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið