Afbrigðilega fjölskyldan

Greinar

Ósköp þætti mörgum fjölskyldum þægilegt að geta sjálfar ákveðið tekjur sínar. Við getum ímyndað okkur fund, þar sem slík ákvörðun væri tekin.

Þar mundu foreldrarnir lýsa því, hve nauðsynlegt væri, að áfram sé fjárfest í húsgögnum og að keyptur verði annar bíll til viðbótar hinum fyrri.

Börnin mundu minna á peningaþörf sína vegna kaupa á gosi og gotti, íþrótta- og tómstundavörum og vegna heimsókna á bíó og diskótek.

Að öllu samanlögðu kæmi ef til vill í ljós, að heimilið þyrfti 2,1 milljón í tekjur á mánuði til að mæta meintri útgjaldaþörf. Auðvitað er þetta hækkun, sem er langt umfram verðbólgu.

Ný skoðun útgjaldaliðanna mundi ef til vill leiða í ljós, að fresta mætti endurnýjun frystikistu og hefja mætti bruggun í stað viðskipta við áfengisverzlunina. Þar með væri tekjuþörfin komin niður í 1,6 milljón krónur.

“Ágætt”, segir fundarstjóri fjölskyldufundarins. “Þeir, sem eru sammála því, að fjölskyldan fái 1,6 milljón í tekjur á mánuði, gefi merki.” Allir rétta upp hendur.

Nú vill svo til, að hér á landi er eins konar fjölskylda, sem getur ákveðið tekjur sínar með þessum hætti, alveg eins og hún sé ein í heiminum. Það er ríkisvaldið.

Þar leika ráðuneytisstjórar og aðrir ríkisforstjórar hlutverk barnanna, sem eru beðin um að leggja fram óskalista. Það gera þeir svikalaust og bæta jafnvel 20% ofan á til að tryggja sig gegn hugsanlegum niðurskurði.

Fjármálaráðherra leikur hlutverk fundarstjóra fjölskyldufundarins. Hann leggur saman listana og sker þá niður um 20%. Útkoman er kölluð fjárlagafrumvarp.

Síðan kemur röðin að alþingismönnum, sem hafa sömu hagsmuni og ráðuneytisstjórarnir og leika því einnig hlutverk barnanna. Þeir vilja ekki láta skera niður þessa brú og hinn skólann.

Að lokum samþykkja þeir fjárlög, sem eru 10% hærri en frumvarpið. Auðvitað er hækkun heildarupphæðarinnar mun meiri en hækkun verðlags milli ára. Þannig hefur það að minnsta kosti verið í raun á Íslandi í um það bil áratug.

Að þessu sinni felur fjárlagafrumvarpið í sér hækkun hlutdeildar ríkisins í þjóðarbúinu úr 28% í 32%. Það er aukning um 14% umfram verðbólgu og eðlilegan vöxt þjóðarbúsins.

Stjórnmálamenn okkar leysa málið með því að hækka skatta og taka fleiri lán, einkum með yfirboðum á skuldabréfamarkaði. Slíkar lausnir hafa venjulegar fjölskyldur ekki. Almenningur hefur fastar mánaðartekjur, sem breytast með kerfisbundnum hætti. Fólk verður að taka þessum tekjum og haga útgjöldum sínum í samræmi við það. Menn venja sig á að halda sér innan rammans og geta það.

Ríkisvaldið þarf að temja sér sömu vinnubrögð, því að ekkert bannar, að þarfir þess séu uppfylltar hægar en nú gerist. Ef ekkert þak er á meintri útgjaldaþörf, fer allt úr böndum, eins og gerzt hefur hér á landi.

Ríkisstjórnin á að leggja fyrir alþingi fjárlagafrumvarp, sem byggir á fastri niðurstöðutölu, föstu hlutfalli ríkisbúsins af þjóðarbúinu. Síðan á frumvarpið að skipta heildartölunni milli ráðuneyta og stofnana.

Þá kemur til kasta ríkisforstjóra að hafa nægan aga á rekstri sínum og halda sér innan rammans. Ekki annað en það, sem þeir þurfa sjálfir að gera á heimilum sínum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið