Þeir, sem óttast eitrun af völdum ryks frá væntanlegri kísiljárnverksmiðju í Hvalfirði, geta nú þegar farið að biðja fyrir sér, því að þetta ryk er hugsanlega komið í tún um allt Ísland. Rykið frá nýjustu kísiljárnverksmiðjunni í Noregi er nefnilega bundið í saltpétursáburð, sem seldur er þar innanlands og til útlanda, þar á meðal til Íslands.
Rykið frá slíkum verksmiðjum er því ekki aðeins meinlaust, eins og stuðningsmenn Hvalfjarðarverksmiðjunnar hafa haldið fram, heldur beinlínis hollt fyrir gróður, úr því að það er notað í áburð.
Þessar fréttir eru ekki eina áfallið, sem andstæðingar kísiljárnverksmiðjunnar hafa orðið fyrir að undanförnu. Enda má sjá af þeim sótröftum, sem eru á sjó dregnir í þeim herbúðum um þessar mundir, að flótti er brostinn í liðið.
Nýjustu rökin úr þeirri átt eru, að útbreiddir séu sjúkdómar eins og krabbamein og hjartaáfall, sem sumpart eigi sér ókunnar forsendur. Ein þeirra forsenda gæti hugsanlega verið tilvera kísiljárnverksmiðja. Þar sem næstum ókleift sé að sanna nokkuð af eða á í því efni, sé vissara að reisa ekki verksmiðjuna margumræddu í Hvalfirði.
Rökrétt framhald af þessari varfærni væri að leggja niður allt atvinnulíf í landinu, bæði líkamlega vinnu og skrifstofuvinnu, þar sem ókleift sé að sanna, að menn fái ekki krabbamein eða hjartaáfall af hverri þeirri atvinnu, sem menn geta talið upp.
Eftir ítarlega athugun verksmiðjumálsins bæði hér heima og í Noregi hefur Náttúruverndarráð komizt að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjuna megi reisa. Þessi niðurstaða er annað áfallið, sem andstæðingar verksmiðjunnar hafa orðið fyrir á skömmum tíma.
Náttúruverndarráð segir rykið frá slíkum verksmiðjum meinlaust en hvimleitt. Það leggur því til, að rykið verði síað og bundið eins og farið er að gera í hliðstæðum verksmiðjum í Noregi. Ráðið leggur til, að öllum þekktum mengunarvörnum verði beitt í Hvalfjarðarverksmiðjunni og að lífríkisathuganir fari fram á svæðinu bæði áður og eftir að verksmiðjan tekur til starfa. Allt er þetta sjálfsagt mál.
Enn eitt áfall þeirra, sem staðið hafa fyrir móðursýkisskrifum og -ræðum um kísiljárnverksmiðjuna, er, að í ljós hefur komið, að afstaða nágrannanna til verksmiðjunnar er önnur en þeir hafa haldið fram.
Fyrst samþykkti verkalýðsfélagið á Akranesi vinsamlega ályktun í garð hinnar fyrirhuguðu verksmiðju. og síðan skrifaði meirihluti kjósenda í þeim tveim hreppum, sem næstir eru verksmiðjunni, undir ályktun, sem einnig er vinsamleg í garð verksmiðjunnar.
Barátta undanfarinna ára um kísiljárnverksmiðjuna er afar lærdómsrík. Þjóðin hefur séð úlfalda gerðan úr mýflugu í mengunarumræðunum og getur því betur varað sig næst, þegar ný verksmiðja verður á dagskrá. Þá verður erfiðara að æsa fólk upp af tilefnislausu. Menn munu þá rifja upp fyrir sér hinn fullkomna ósigur móðursýkismanna í máli Hvalfjarðarverksmiðjunnar.
Jónas Kristjánsson
Vísir