Ævintýrið um kolbítinn, sem eignaðist konungsríkið, er til í óteljandi myndum í þjóðsögum margra landa. Það hefur löngum verið og er enn vinsælt söguefni að lýsa þyrnum stráðri vegferð smælingjans upp í hinn æðsta sess. Hitt er svo enn meira fagnaðarefni, þegar slík ævintýri gerast í raun og veru.
Leikritið Inúk fæddist ekki til mikilla áhrifa. Það var ekki samið og æft til sýninga í Þjóðleikhúsinu sjálfu, heldur fyrst og fremst til sýninga í skólum og úti á landi. Fámennum flokki leikara var falið að búa til heimildaleikrit, aðallega til notkunar í fræðsluskyni. Þetta framtak Þjóðleikhússins var athyglisverð nýjung, þótt sennilega hafi enginn spáð þeirri sigurgöngu, sem leikritið átti eftir að fara.
Vinnubrögð leikaranna sex voru mjög óvenjuleg. Þeir vildu gefa innsýn í menningarþróun með Grænlendingum og fengu til liðs við sig þjóðfræðing, sem sérstaklega hafði kynnt sér þá þjóð. Allur hópurinn fór á vettvang til Grænlands til að sjá aðstæður af eigin raun. Og upp úr þessu þjóðfræðilega efni sömdu leikararnir sjálfir leikritið Inúk, settu það á svið og hófu að sýna í skólum.
Eftir góðar viðtökur hér heima fór Inúk út í heim, fyrst til Norðurlanda og síðan víðar um Evrópu. Alls hefur leikflokkurinn sýnt leikritið í ellefu löndum og víð sívaxandi vinsældir. Nú síðast var hópurinn í tveggja mánaða ferð til Hollands, Spánar og Póllands og sýndi Inúk 40 sinnum fyrir fullu húsi og furðu lostnum gagnrýnendum, sem hældu verkinu á hvert reipi.
Og þetta er bara byrjunin. Leikflokknum berst nú hvert tilboðið á fætur öðru til sýninga í Skotlandi, Sviss, Vestur-Þýzkalandi, Ungverjalandi, Júgóslavíu og meira að segja í Venezuela. Er ekki annað hægt að sjá en flokkurinn geti haft næg verkefni næstu misseri við að gera garðinn frægan erlendis.
Aldrei hefur íslenzk leiklist unnið slíkan sigur. Það virðist ekki skipta máli, þótt leikið sé á íslenzku fyrir erlenda leikhúsgesti. Efnið og leikurinn kemst til skila. Þrátt fyrir einangrað tungumál hefur íslenzk leiklist rutt sér til rúms úti í hinum stóra heimi. Þetta er sannkallað ævintýri.
Þjóðleikhúsið og leikflokkur þess komast nú ekki hjá því að fylgja þessum sigri eftir. Beinast liggur við að halda áfram að gera leikflokkinn út á erlend mið meðan vinsældirnar endast. Einnig er nauðsynlegt að halda áfram tilraunum af þessu tagi, þótt enginn megi búast við, að ævintýrið endurtaki sig.
Sumir sjá í þessu möguleika á að afla gjaldeyris á annan hátt en með fisk úr sjó. Aðrir hugsa fremur um áhrifin á þróun leiklistar hér á landi. Hið nýja höfuðleikverk ÍsIands er ekki samið af einangruðum höfundi á herbergi sínu, heldur af leikurunum sjálfum og sérfræðingum þeirra og úti á vettvangi mannlífsins.
Til hamingju, Inúkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið