Aðvörun meirihlutans er gild

Greinar

Áhugamenn um framhald varna á Íslandi hafa á skömmum ferli ríkisstjórnarinnar fengið ærin tækifæri til að óttast meðferð hennar á varnarmálunum. Þeir hafa fulla ástæðu til að efast um að ráðherrar Framsóknarflokksins standist ráðherrum Alþýðubandalagsinn snúning. Og von manna um staðfestu tveggja varnasinna í þingliði Framsóknarflokksins hlýtur að vera tiltölulega ótrygg.

Þess vegna lá beint við að safna í eins konar bænarskrá til ríkisstjórnarinnar, safna undirskriftum undir áskorun um, að hún stuðlaði ekki að ótímabærri brottför varnarliðsins. Slík undirskriftasöfnun er vitanlega ekki sambærileg við leynilega þjóðaratkvæðagreiðslu,- en áhugamennirnir höfðu því miður ekki ákvörðunarrétt um slíka atkvæðagreiðslu. Þess vegna gripu þeir til sama ráðs og aðrir hópar hafa gripið til, þegar þeir hafa óttazt valdníðslu af hálfu stjórnvalda Þeir báðu beint um undirskriftir kjósenda.

55.522 kjósendur skrifuðu undir áskorunina. Eins og Sigurður Líndal sagði í Vísi fyrir skömmu þá er þessi þátttaka “miklu betri en nokkurn óraði fyrir”. Hún sýnir, að varnarsinnar eru ótrúlega öflug fylking, miklum mun fjölmennari en sveit hernámsandstæðinga. Hún hlýtur að neyða þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins til að taka tillit til sjónarmiða undirskrifenda, á sama hátt og hreppsnefnd Selfoss tók að kröfu sýslunefndar mark á undirskriftum andstæðinga Votmúlakaupa og efndi til allsherjaratkvæðagreiðslu um málið.

Greinar Sigurðar Líndal hér í Vísi eru það bezta, sem skrifað hefur verið gegn undirskriftasöfnuninni. En röksemdafærsla hans fellur í veigamiklu atriði. Hann gefur sér niðurstöðuna í forsendunum.

Sigurður telur, að langvinn návist varnarliðsins hafi smám saman sljóvgað þjóðernisvitund Íslendinga og eflt múgmennsku þeirra. Þetta sé skýringin á hinni miklu þátttöku í undirskriftasöfnuninni. Til þess að unnt sé að halda fram slíkum áhrifum varnarliðsins, er nauðsynlegt að sýna fyrst fram á, að Íslendingar séu ameríkaniseraðri og meiri múgmenni en nágrannaþjóðirnar í Evrópu. En það gerir hann ekki og getur ekki. Ensk tunga er áhrifaminni hér en á Norðurlöndum og líklega er múgmennska einnig minni hér. Hafa þjóðir þeirra landa þó ekki erlendan her.

Það er ódýrt að gefa sér sem forsendu, að varnarliðið hafi gert Íslendinga sinnulausa, nautnasjúka og hermangssinnaða, og þess vegna sé ekki mark á undirskriftum þeirra takandi. Það er einnig ódýrt að hafna undirskriftunum á þeim forsendum, að áhugamennirnir um varið land áttu ekki kost á leynilegri atkvæðagreiðslu.

Eftir stendur, sem Sigurður Líndal segir, að þátttakan í undirskriftasöfuninni var “miklu betri en nokkurn óraði fyrir”. Þessi mikla þátt taka stafar sumpart af því, að ríkisstjórnin er með framkomu sinni í varnarmálunum búin að hræða þjóðina. Hún hefur kallað það yfir sig, að meirihlutinn hefur risið upp og gefið henni aðvörun, sem er þyngri baggi í poka Einars Ágústssonar utanríkisráðherra í vesturreisunni en málamiðlun innan óstarfhæfrar ríkisstjórnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir