Í sekk og ösku Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er brúnin farin að lyftast á einstaka manni. Hinum fyrrverandi meirihluta í borgarstjórn hefur hlotizt óvænt liðsinni núverandi meirihluta.
Skoðanakönnun, sem Dagblaðið gerði í desember á fylgi stjórnmálaflokkanna í landinu og í Reykjavík sérstaklega, gaf fyrrverandi meirihluta ekkert tilefni til bjartsýni, þótt sjálfstæðismenn annars staðar á landinu mættu vel við una.
Könnunin benti til, að Sjálfstæðisflokkurinn væri í landinu í heild búinn að endurheimta fylgið, sem hann tapaði í kosningunum í fyrra. Undantekningin var Reykjavík.
Í alþingiskosningunum í fyrra fékk Sjálfstæðisflokkurinn 32,7% fylgis í landinu öllu og 39,5% í Reykjavík. Samkvæmt könnuninni í desember var fylgi flokksins komið í 42,2% í landinu öllu, en ekki nema í 41,2% í Reykjavík.
Að vísu miðaðist könnunin við atkvæði í alþingiskosningum, en ekki borgarstjórnarkosningum. Hún gaf þó vísbendingu um, að vinstri flokkarnir hefðu sýnt fram á, að ekki yrði heimsendir í Reykjavík, þótt þeir færu þar með völd.
Nú um áramótin hins vegar byrjaði hinn nýi meirihluti vinstri flokkanna í Reykjavík að sýna fram á, að vinstri stjórnin mundi verða borgurunum dýrari en hin hægri hafði verið. Hún ætlar sér að hirða 12% útsvar í stað 11% áður.
Áformað hafði verið að hafa síðari umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkur 18. janúar. Henni hefur nú verið frestað fram í febrúar. Ástæðan er sú, að hinn nýi meirihluti er að bíða eftir, að alþingi komi saman og heimili 12% útsvar.
Meirihlutinn hefur ekkert tillit tekið til hinnar miklu athygli, sem mismunurinn á skattheimtu Reykjavíkur og nágrannabæjanna hefur vakið. Annaðhvort skortir meirihlutann í Reykjavík jarðsamband við skattborgarana eða hann er orðinn of öruggur með sig.
Á Seltjarnarnesi og í Mosfellssveit, Hafnarfirði og Garðabæ hafa bæjaryfirvöld ákveðið að nota ekki til fulls heimildir til álagningar útsvars og fasteignagjalda. Á sama tíma eru yfirvöld í Reykjavik að bíða eftir auknum heimildum.
Horfur eru því á, að Reykvíkingar verði á þessu ári að greiða 12% útsvar meðan sumir nágrannarnir sleppa með 10%. Sumir íbúar Nesvegar greiða þá 20% meira útsvar en aðrir íbúar sömu götu.
Í leiðara Dagblaðsins síðasta fimmtudag var dregið í efa, að í Reykjavík krefðust aðstæður hærra útsvarshlutfalls en í nágrannabæjunum. Að vísu væri meira af lágtekjufólki í Reykjavík og meira af fólki, sem þyrfti á fjárhagsaðstoð að halda.
Þessi munur er þó ekki meiri en svo, að Reykjavík ætti að geta unnið hann upp á stærðinni. Í stóru bæjarfélagi eiga rekstur og framkvæmdir að vera ódýrari á mann en í litlum bæjarfélögum. Reykjavík ætti því alveg að komast af með 10-10,5% útsvar.
Þorstinn í 12% útsvar er til þess fallinn að sýna Reykvíkingum fram á, að vinstri stjórnir séu dýrari í rekstri en hægri stjórnir. Þótt hinar síðari séu ekki góðar, þá séu hinar fyrri enn verri. Þær kunni enn síður með fé að fara.
Ef skattgreiðendur átta sig almennt á þessu, er hætt við, að þeir skipti um meirihluta í næstu borgarstjórnarkosningum. Á nýju ári er meirihlutinn að gefa minnihlutanum nýja von, sem hann hafði ekki í lok síðasta árs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið