Aðgerðir gegn öngþveiti

Greinar

Við þykjumst vera orðnir verðbólgunni vanir hér á Íslandi. Við höfum áratugum saman búið við um 10% verðbólgu á ári. Sú óhóflega verðbólga hefur um langan aldur verið einn mesti höfuðverkur stjórnvalda. En lengi getur vont versnað. Síðustu tvö árin hefur ríkt eyðslustefna, sem hefur tvöfaldað hraða verðbólgunnar. Hún hefur numið um 20% á ári þessi tvö ár. Hún er því ekki lengur bara óhófleg, heldur geigvænleg.

Flokksráðsfundur sjálfstæðismanna lýsti því yfir um helgina, að eitt brýnasta verkefnið í efnahagsmálunum sé “að óðaverðbólgan verði stöðvuð og komið á jafnvægi í atvinnu- og efnahagsmálum á nýjan leik”.

Til þess að skrúfa niður verðbólguna þarf samræmdar aðgerðir á mörgum sviðum. En einna mikilvægast er, að ríkisvaldið hætti að vera í fararbroddi í verðbólguþróuninni. Ríkið þarf að ganga á undan með góðu fordæmi og lækka segl þenslustefnunnar. Ef tekið er mið af fjárlögum næsta árs, sem afgreidd verða í næsta mánuði, eru allar horfur á, að ríkið auki á þremur árum, 1971-1974, hlutdeild sína í þjóðarbúinu úr 20% í 30%, sem sagt langt umfram verðbólgu. Þessari þróun þarf greinilega að snúa við.

Um þetta segir í framangreindri yfirlýsingu, “að dregið verði úr ríkisrekstri, – aukins sparnaðar og hagsýni gætt í opinberum rekstri – og opinberum framkvæmdum stillt í hóf eftir megni, meðan þensluástand ríkir, í því skyni, að vinnuafl beinist að framleiðslustörfum”.

Önnur helztu verkefni í efnahagsmálum eru yfirleitt þessu tengd. Bæði atvinnuvegirnir og heimilin munu hafa hag af því, ef ríkið dregur saman seglin. Skattar þurfa þá ekki að vera eins gífurlegir og þeir eru um þessar mundir.

Samkvæmt framangreindri yfirlýsingu á stefnan að vera, “að tekjuskattur verði afnuminn af almennum launatekjum og létt verði á heildarskattbyrðinni” og “að atvinnuvegunum verði tryggður heilbrigður rekstrargrundvöllur, m.a. með hóflegri og réttlátri álagningu skatta og viðunandi afskriftareglum”.

Hin mikla verðbólga ríkisstjórnarinnar hefur einnig gert kjarasamninga marklitla og skapað ringulreið í launamálum. Launþegar sjá ekki aðra leið en vísitölubindingu til að verjast kjaraskerðingu verðbólgunnar. En sú hin sama vísitölubinding magnar svo aftur verðbólguna og gerir úr henni vítahring.

Á þessu sviði þarf að fara nýjar leiðir og hafa þá að leiðarljósi, eins og segir í framangreindri yfirlýsingu sjálfstæðismanna, “að sköpuð verði skilyrði til jafnra og árvissra launa- og kjarabóta, sem fyrst og fremst miði að því að bæta kjör hinna lægst launuðu”.

Í yfirlýsingunni er einnig bent á, að virkustu aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu fólgnar í samdrætti ríkiskerfisins,lækkun skatta á heimilum og atvinnuvegum og minnkun á hraða verðbólgunnar. Allt eru þetta samtengd atriði, sem geta í sameiningu haft mikil áhrif til bóta.

Nú ríður á miklu, að ríkisstjórnin vakni af værum blundi og grípi til þessara fjölþættu aðgerða til að hindra efnahagslegt öngþveiti á næsta ári.

Jónas Kristjánsson

Vísir