Íslenzkur almenningur fagnar jólum að þessu sinni með nokkru meiri peningaráð en að undanförnu. Þrátt fyrir miklar verðhækkanir er enn nokkuð eftir af áhrifum kauphækkananna síðastliðið sumar og haust. Kaupmenn tala um mikla sölu. Flestir munu hafa orðið að halda mjög í við sig í gjafakaupum á jólum síðustu árin, og nú losnar um viðjar. En vel mega menn vita af hættunni á skerðingu tekna innan skamms.
Ríkisstjórnin hefur látið alþingi samþykkja margs konar frumvörp um aukna skattheimtu á landsmenn. Meira af slíku er í bígerð. Á þessum dögum hefur athyglin beinzt að gífurlegum vanda undirstöðuatvinnugreina. Frystihúsin sjá fram á, að tapið verður 4,5 til 5 milljarðar á næsta ári að óbreyttum aðstæðum. Sjávarútvegurinn er í miklum vanda. Ofveiði þorsks heldur áfram, og aðgerðir stjórnvalda hafa lítið gert til að eyða ótta landsmanna um hrun þorskstofnsins.
Landsmenn munu ekki láta slík áhyggjuefni spilla jólagleði sinni. Það sýnir meðal annars hin mikla jólasala. Meiri hætta er á, að lífsgæðakapphlaupið keyri úr hófi fram og gjafir, matur og drykkur sitji í fyrirrúmi fyrir kristilegu hugarfari og náungakærleik, sem eiga að vera grundvallaratriði þessarar trúarhátíðar.
Jólahátíðin á að treysta bönd milli skyldmenna og vina. Þau eru hátíð barnanna, sem gleðjast við gjafir og ljósadýrð, og öll erum við börn í því tilliti. Jólin eiga að vera hátíð hjartans og hugans, þar sem litlu skiptir, hvort gjöfin er eitthvað dýrari eða ódýrari, heldur hugarfarið, sem að baki liggur. Jafnframt því, sem Íslendingar gleðjast yfir sínum tiltölulega góða hlut, skyldu þeir leiða hugann að alvarlegri efnum. Hvernig erum við staddir og hvernig er sá heimur, sem við þekkjum?
Kirkjan hefur þessa daga beint athygli að hörmulegu ástandi í veröldinni, þar sem tugir þúsunda barna deyja úr hungri dag hvern. Bent hefur verið á, að miklu má fá áorkað fyrir upphæðir, sem fólk hér leggur í einstaka gjöf. Fyrir 800 krónur má fá mjólk handa barni í heilt ár. Fyrir 2800 krónur er unnt að kaupa námsbækur fyrir heilan bekk. Fyrir 6000 krónur má gera brunn með fersku vatni, og fyrir 18 þúsund krónur má gera skýli fyrir fjölskyldu flóttamanna.
Þetta ættu menn að hugleiða, þegar þeim finnst kannski “of lítið” að gefa gjöf, sem kostar 800 krónur um þessi jól. Sérhver smáupphæð, sem gengur til hinna fátæku í heiminum, getur bjargað mannslífi. Vandamál okkar eru sem betur fer léttvæg í slíkum samanburði.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið