Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið fremur máttlítill fyrsta hálfa árið í stjórnarandstöðu. Fátt eitt hefur heyrzt frá honum, enda loft jafnan þrungið vopnagný frá bræðravígum stjórnarflokkanna. Menn sögðu, að Sjálfstæðisflokkurinn allur væri aðeins á við hálfan Vilmund.
En svo sýndi skoðanakönnun Dagblaðsins í síðustu viku, að kjósendur voru alls ekki búnir að gleyma Sjálfstæðisflokknum. Hún sýndi ekki 25 þingmanna styrk eins og var fyrir síðustu kosningar og enn síður 20 þingmanna styrk eins og verið hefur síðan. Hún sýndi 30 þingmanna styrkleika.
Þetta er hvorki meira né minna en helmingur sæta á alþingi. Ef könnunin gefur rétta mynd, ætti Sjálfstæðisflokkinn aðeins að skorta tvo þingmenn í starfhæfan meirihluta í báðum deildum, ef kosið yrði nú til alþingis. Þetta er gífurlega og ótrúlega mikið fylgi.
Þess ber að gæta, að áður hafa skoðanakannanir Dagblaðsins ofmetið fylgi Sjálfstæðisflokksins lítillega og gæti svo einnig verið nú. Samt er engin ástæða til að efast um, að könnunin endurspegli í stórum dráttum sterkan straum kjósenda frá Framsóknarflokki og einkum Alþýðuflokki til flokksins.
Efast má um, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi skilið þessa miklu velgengni. Það er aðeins í borgarstjórn Reykjavíkur, að broddur hefur verið í andstöðu flokksins. Fítonsandinn hljóp ekki í þingmenn flokksins fyrr en síðari hluta síðustu viku, þegar niðurstaða skoðanakönnunarinnar varð kunn.
Til skamms tíma er eins og neista hafi skort í Sjálfstæðisflokkinn. Nýjar stefnuskrár í efnahagsmálum og landbúnaðarmálum breyta þar litlu. Þær eru í verulegum atriðum gamlar og þreytulegar, ekki líklegar til að vekja mikinn eldmóð.
Þar á ofan hefur Sjálfstæðisflokkurinn enga tilraun gert til að leysa forustuvanda sinn. Og sá vandi hefur hingað til verið talinn svo geigvænlegur, að flokkurinn mundi ekki treysta sér til næstu kosninga fyrr en að honum leystum. Nú virðist hins vegar svo, sem þessi vandi skipti litlu.
Kjarni málsins er auðvitað sá, að stjórnarandstaða þarf engin eigin vandamál að leysa, þegar hún hefur annan eins andstæðing og ríkisstjórnina. Það er einmitt ríkisstjórnin, sem hefur bjargað málum Sjálfstæðisflokksins – að sinni. Flokkurinn getur setið með hendur í skauti og grætt fylgi í svefni.
Hinar óheyrilegu andstæður í ríkisstjórninni fara ekki framhjá kjósendum. Ríkisstjórnin lifir frá einum úrslitakosti til annars, einum harmleik til annars, einu öngþveiti til annars. Hún er eins og flak, sem steytir á hverju skerinu á fætur öðru.
Fyrst tókst ríkisstjórninni þetta sæmilega. Mönnum fannst ofur eðlilegt og lýðræðislegt, að til væri ágreiningur, sem leysa þyrfti með prútti og þjarki, hótunum og málamiðlunum. En þar kom, að kjósendum fór að ofbjóða. Þá hugarfarsbreytingu endurspegla niðurstöður könnunarinnar.
Það er ekki á eigin verðleikum, heldur óvinsældum ríkisstjórnarinnar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að raka að sér fylgi að undanförnu. Enda segjast sumir sjálfstæðismenn vilja, að ríkisstjórnin sitji sem lengst, svo að fylgisaukningin fjari ekki út.
Ummæli margra hinna spurðu í könnun Dagblaðsins sýna, að hinir nýju stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins stjórnast af óbeit og ótrú á ríkisstjórninni fremur en af dálæti á flokknum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið