Sinnaskipti eða sauðargæra?

Greinar

Eðlilegt er, að menn greini á um, hvort sinnaskipti kommúnistaflokka á Vesturlöndum séu raunveruleg eða ekki. Dagblaðið hefur áður skýrt frá ágreiningi um þetta atriði, sem reis á þingi áhugamanna Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík síðustu helgina í ágúst.

Þar töldu ýmsir fulltrúar, einkum frá Noregi, Kanada og Hollandi, að vesturevrópskir kommúnistar mundu komast í ríkisstjórnir. Yrði að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, enda væru þessir kommúnistar búnir að sætta sig við veruna í Atlantshafsbandalaginu, auk almennra þingræðislegra leikreglna.

Aðrir fulltrúar, einkum frá Ítalíu, Frakklandi og Þýzkalandi, töldu hinn svonefnda Evrópukommúnisma vera úlf í sauðargæru. Kommúnisminn væri alltaf samur við sig, enda miðstýrt frá Moskvu.

Ekki þarf ýkja langt minni til að rifja upp, að fyrir aðeins fimm árum voru flestir kommúnistaflokkar í Vestur-Evrópu hreintrúaðir á Moskvulínuna. Því skyldu menn trúa því, að nú séu þeir orðnir eins konar vinstri kratar, trúir leikreglum lýðræðisins á Vesturlöndum?

Margir muna líka, að oft hefur línan frá Moskvu sagt þessum flokkum að starfa innan kerfisins á Vesturlöndum, meðal annars með því að koma á samstarfi við aðra vinstri flokka, bæði á þingi og í verkalýðshreyfingunni. Menn spyrja því, hvort Evrópukommúnisminn sé ekki bara ný lína frá Moskvu, sniðugri en hinar fyrri.

Þessi túlkun dugar ekki, ef málið er skoðað nánar. Ráðamenn Sovétríkjanna eru ekki svo sniðugir, að þeir úthúði Carillo, foringja spánskra kommúnista, og skoðanabræðrum hans bara til að fegra þá í augum Vesturlandabúa. Þeir eru ekki að leika sér, þegar þeir saka Carillo um trúvillu, svik og Sovéthatur.

Línan milli Moskvu og flestra vesturevrópskra kommúnistaflokka hefur hreinlega rofnað skyndilega, enda var spennan lengi búin að vaxa, þrátt fyrir rétttrúnað gagnvart Moskvu á yfirborðinu. Þar skiptir mestu máli, að skoðanastjórar vestrænna kommúnista eru hreinlega búnir að gefast upp á að verja Sovétríkin og hið afskræmda þjóðskipulag þeirra.

Við hinn hugsjónalega ágreining bætist svo þorsti vestrænna kommúnistaleiðtoga í að fá að taka þátt í völdunum, komast í ríkisstjórnir. Þar er ekki um að ræða neina von um að ná völdum, heldur aðeins þátttöku í völdum með þátttöku í samsteypustjórnum, ósköp svipað því, sem hefur gerzt þrisvar sinnum eftir stríð á Íslandi. Og þær stjórnir hafa verið keimlíkar hægri stjórnum.

Ítalskir kommúnistar eru orðnir þátttakendur í valdakerfinu og eru raunar komnir í samsteypustjórn með Kristilegum að öllu öðru leyti en að nafninu til. Franskir kommúnistar búast við að taka þátt í vinstri stjórn þar í landi eftir næstu kosningar. Báðir flokkar ganga svo langt að lýsa stuðningi við núverandi skipan varnarmála í löndum þeirra. Og Carillo hinn spánski vill komast í Atlantshafsbandalagið.

Kannski við eigum eftir að sjá Ragnar Arnalds og Lúðvík Jósepsson vitna á fundum Natóvina um ágæti Atlantshafsbandalagsins. það væri sannarlega tímanna tákn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið