Vandann má leysa

Greinar

Kaupmáttur daglauna hefur rýrnað um 13% frá árunum 1972/1973 og um 25% frá árinu 1974 samkvæmt upplýsingum Kjararannsóknanefndar. Fulltrúar launþega og vinnuveitenda á umræðufundi sjónvarpsins á þriðjudaginn voru sammála um, að þessar tölur væru réttar.

Fulltrúarnir voru einnig sammála um, að hið opinbera hafi aukið sinn hlut af köku þjóðarteknanna á þessum sama tíma. Var minnzt á átta prósentustig í því sambandi.

Er það í samræmi við tölur frá Þjóðhagsstofnun um, að hlutur hins opinbera af þjóðartekjum hafi aukizt samanlagt á tíma síðustu vinstri stjórnar og núverandi helmingaskiptastjórnar úr 28% í 36%. Þetta þýðir í rauninni, að hið opinbera hefur aukið sinn geira um 30% fyrir utan aðra stækkun hans vegna verðbólgunnar og aukinna þjóðartekna.

Upphaflega stafaði kjararýrnunin af óhagstæðum utanríkisviðskiptum. Þau hafa nú batnað svo á nýjan leik, að þau eru orðin jafngóð og þau voru fyrir rýrnun. Samt stendur kjararýrnunin enn algerlega óbætt. Skýringin á því er að sjálfsögðu sú, að ríkið hefur tekið til sín mismuninn.

Í samningunum í fyrra reyndu fulltrúar launþega og vinnuveitenda að fá ríkisstjórnina til að slaka á græðginni, létta af sköttum og gera aðrar ráðstafanir til að draga úr hlut ríkisins og auka hlut almennings og atvinnuvega. Við öllu þessu var daufheyrzt þá. Og hið sama virðist vera uppi á teningnum núna.

Framferði tveggja síðustu ríkisstjórna og þingmannaliðs þeirra má líkja við gegndarlaust ölæði Nerós Rómarkeisara. Hvar sem sést til krónu er hún þrifin inn í skömmtunarstofnanir hinna samtryggðu stjórnmálaflokka, hvort sem þær kallast Framkvæmdastofnun, stofnlánasjóðir eða bara bankar.

Peningum þessum er svo grýtt í Borgarfjarðarbrýr, Kröflur, málmblendiver og Þörungavinnslur, svo að frægustu dæmin séu nefnd, auðvitað að ógleymdum landbúnaðinum og vinnslustöðvum hans.

Frekja þessara manna er svo gegndarlaus, að helzti vísindamaður landsins í rannsóknum á þörungavinnslu var rekinn úr starfi vegna efasemda hans og fenginn annar í staðinn, sem bjó til þær tölur, sem stjórnmálamennirnir vildu sjá. Þannig varð til endaleysa Þörungavinnslunnar hf.

Fimmfaldan uppskurð þarf á efnahagslífi landsins. Í fyrsta lagi þarf að slíta tengsl stjórnmála og lánastofnana. Í öðru lagi framkvæma tillögur Dagblaðsins í landbúnaðarmálum. Í þriðja lagi framkvæma tillögur Kristjáns Friðrikssonar í málum sjávarútvegs og iðnaðar. Í fjórða lagi framkvæma tillögur Arons Guðbrandssonar í varnarmálum. Og í fimmta lagi þarf að framkvæma tillögur Jóns Sólness í málefnum krónunnar og bankamálum.

Við slíkar aðstæður ættu atvinnuvegirnir auðvelt með að verða ekki aðeins við réttlátum og sjálfsögðum kröfum launþega um 111 þúsund króna lágmarkslaun. Þeir gætu greitt 200 þúsund króna mánaðarlaun fyrir dagvinnu eins og atvinnuvegir nágrannalandanna geta og gera.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið