Sagan um skikkjurnar.

Greinar

Góðum og gegnum kjósendum bregður eðlilega í brún, þegar gamalkunnir stjórnmálamenn eru bendlaðir við ýmsa spillngu, sem flett hefur verið ofan af að undanförnu. Við slík tækifæri lætur sumt þetta fólk eins og himinninn sé að hrynja. Sumir fyllast óbeit á þeim stjórnmálamanni, sem er til umræðu. Aðrir reka efasemdirnar úr huga sér með harðri hendi og segja spillinguna bara vera róg.

Betra væri að líta stjórnmálamanninn raunsærri augum. Eins og aðrir menn hefur hann margar hliðar, sem skipta með sér verkum eftir aðstæðum hverju sinni. Það má líka segja, að hann beri hverja skikkjuna yfir annarri.

Yzt ber stjórnmálamaðurinn skikkju hugsjóna. Klæddur henni kemur hann fram sem landsfaðir, flokksforingi, verndari þjóðernis, skógræktar, skáldskapar, landbúnaðar og annarra göfugra málefna. Þessi skikkja þekkist af málskrúði hátíðlegra tækifæra. Hún táknar manninn sem hugsjónaveru, manninn eins og hann ætti að vera.

Ef stjórnmálamaðurinn er klæddur úr þessari skikkju, sést, að undir ber hann skikkju hins rúmhelga dags. Hann er ekki lengur maðurinn eins og hann ætti að vera, heldur maðurinn eins og hann verður að vera gagnvart staðreyndum hversdagsins. Þá er hann með klíkum sínum að fást við vafasöm flokksfjármál, brask í bönkum með verðbréf á pari, skipun flokksbræðra í embætti, sem þeir eru óhæfir um að gegna, og svo framvegis nær endalaust.

Svo virðist sem mörgum verði hverft við, þegar komið er að stjórnmálamanninum í þessari innri skikkju. En þetta er í rauninni sú skikkja, sem oftast er notuð. Þess vegna er mikilvægt, að kjósendur átti sig á tilvist hennar af fullu raunsæi. Innan undir skikkju stjórnmálamannsins eins og hann verður að vera er skikkja stjórnmálamannsins eins og hann virðist vera sem persóna.

Þar kemur oft í ljós hinn vænsti maður að baki brasksins með auð og völd. Það getur jafnvel komið í ljós, að hann veltir sér upp úr spillingunni af einskærri greiðasemi við náungann, en ekki í eiginhagsmunaskyni. Undir þessari skikkju stjórnmálamannsins eins og hann virðist vera sem persóna er svo hann sjálfur eins og hann er í rauninni. En hver þessi mynd hans er sjá ekki aðrir menn og sennilega ekki hann sjálfur.

Í rauninni er þessi lýsing á skikkjum stjórnmálamannsins mikil einföldun á flóknum staðreyndum. En hún ætti að geta náð því markmiði að sýna fram á, að ekki er unnt að einblína á eina hlið stjórnmálamanna og afneita öllum hinum.

Við skulum viðurkenna, að stjórnmálamenn verða að fást við verkefni, sem varða auð og völd. Við skulum ekki heimta, að þeir líkist forkláruðum englum. En við skulum setja þessi hversdagslegu verkefni undir smásjá og reyna að knýja fram betri siði í frumskógi valdastreitunnar.

Fyrst verða menn að skilja, að frumskógurinn er til, áður en þeir geta rutt hann. Við megum ekki gera óhóflegar kröfur til stjórnmálamanna, en við getum siðbætt þá smátt og smátt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið