Í umræðum manna um þá fjölmiðlun, sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum mánuðum hér á landi, rugla menn oft saman þrenns konar blaðamennsku. Fyrir bragðið vita sumir ekki sitt rjúkandi ráð í moldviðri dagblaðanna og óska þess jafnvel helzt, að allt falli aftur í ljúfa löð.
Ein tegund þessarar blaðamennsku er hin svonefnda rannsóknablaðamennska. Dæmi um hana er ýtarleg greinargerð Ómars Valdimarssonar blaðamanns Í Dagblaðinu um mál flugfélagsins Vængja. Þar var skýrt frá, hvaða menn seldu og keyptu hvaða hlutabréf hvenær og með hvaða kjörum.
Þar var skýrt frá, hvaða víxlar og hversu háir voru teknir úr innheimtu og hvaða víxlar og hversu háir voru greiddir af hvaða öðrum aðilum en upphaflegum skuldurum. Þar var og skýrt frá því, hver tók út hvaða milljónir fyrir hvaða handhafaávísanir. Þar var loks skýrt frá í einstökum atriðum, hvaða fjárhæðir það voru, sem einstakir stjórnamenn hafa áhyggjur af og leitt hafa til afsagnar eins stjórnarmanns og kröfu endurskoðanda um bókhaldsrannsókn á vegum félagsins.
Allar voru þessar frásagnir studdar skjölum, sem sum birtust á myndum í blaðinu, svo og minnisblöðum og segulbandsupptökum af fundum blaðamannsins með hópum manna, sem málið snertir.
Enginn rógur var í greininni, engar dylgjur, engar hálfkveðnar vísur og ekki einu sinni neinar umtalsverðar túlkanir á staðreyndum málsins. Staðreyndirnar voru sjálfar látnar tala.
Önnur tegund blaðamennsku er hin svonefnda gagnrýna blaðamennska. Dæmi um hana eru greinar Vilmundar Gylfasonar í Dagblaðinu. Þessar greinar eru að grunni til rannsóknablaðamennska, en höfundurinn bætir síðan við ýtarlegum útleggingum og persónulegum skoðunum, svo og siðferðilegum áminningum.
Báðar þessar greinar hinnar nýju blaðamennsku eru gildar og góðar og ættu að geta þrifizt hlið við hlið. Það skyggir hins vegar á þær, að upp hefur verið vakinn draugur fyrri tíma, moldviðri pólitískra blaða, þar sem allt er mælt með strangasta flokkspólitískum mælikvarða. Dæmi um þetta er dagblaðið Tíminn, einkum Víðavangur Alfreðs Þorsteinssonar.
Í slíkum dálkum úir venjulega og grúir af dylgjum og hálfkveðnum vísum, en ekki hirt svo mjög um að afla staðreynda. Dæmigert fyrir slíkan dálk er orðalag á borð við: Alvörublaðamaðurinn Jón Jónsson ætti að kynna sér þetta mál og þá kynni hið ónefnanlega að koma í ljós. Ennfremur er þar fjallað um meinlaus mál eins og um glæpi væri að ræða. Dæmi um það eru árásir Tímans á þá Alþýðuflokksmenn, sem dreifðu skuldum Alþýðublaðsins á herðar sínar. Loks eru ofsóttir menn á borð við Kristján Pétursson tollvörð, sem draga úr svigrúmi ýmissa ævintýramanna í þjóófélaginu.
Að sjálfsögðu fá menn ógeð á þessu moldviðri, sem beint er gegn saklausum mönnum. En það má alls ekki blanda þessum þrælslega flokkspólitísku skrifum saman við rannsóknablaðamennsku og gagnrýna blaðamennsku, sem stunduð er við önnur dagblöð, einkum Dagblaðið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
