Getum lært af Maó.

Greinar

Maó formaður var ekki aðeins mesti stjórnmálamaður jarðar á þessari öld, heldur einnig mikill hershöfðingi, skáld og heimspekingur. Á öllum þessum sviðum var hann í fremstu röð. Það er því ekki ofsagt, að hann hafi verið ein af merkispersónum veraldarsögunnar.

Ferill Maós ber vott um einstaka stefnufestu. Í heilan aldarfjórðung barðist hann fyrir völdum kommúnísta í Kína og í annan aldarfjórðung stjórnaði hann þessu mikla ríki með styrkri og harðri hendi. Hann hafnaði kommúnisma Sovétríkjanna og byggði upp sinn eigin.

Maó tók við 600-700 milljón manna þjóð, sem Sjang Kai Sjek hafði skilið við í megnustu eymd og volæði. Þá einkenndu hungur og örbirgð, spilling og stéttaskipting þennan leikvang heimsveldanna.

Kínverjar eru enn fátækir, en þeir hafa vel í sig og á og búa við góða heilsugæzlu. Þetta hefur kostað mikinn aga og hefur ekki gefið mikla möguleika á þróun einstaklingseinkenna.

Reisn Kínverja af afrekum þeirra við að bæta lífskjör alþýðunnar er enn meiri fyrir þá sök, að þetta hafa þeir að mestu gert af eigin rammleik. Í fyrstu nutu þeir stuðnings Sovétríkjanna, en síðasta hálfan annan áratuginn hafa þeir staðið alveg einir.

Maó og menn hans hafa iðnvætt Kínverja og gert þá sjálfum sér nóga með flesta hluti. Enn er Kína að vísu ekki orðið iðnaðóarveldi, en verður það vafalaust um síðir. Máttur Kína á alþjóðlegum vettvangi byggist hins vegar bæði á mannfjölda og á hugmyndafræði.

Maó var jafnan djarfur hugmyndafræðingur. Hann var maður síbyltingar. Hann varð jafnan órólegur, Þegar lífið í ríkinu færðist í rólegt horf. Þá óttaðist hann spillingu og þróun borgaralegrar hugsunar.

Þess vegna var Maó alltaf að setja þjóðfélag sitt á annan endann, eins og bezt kom fram í menningarbyltingunni. Þá rak hann alþýðuna og unga fólkíð út í andóf gegn kerfinu Og var jafnan sjálfur í fararbroddi.

Maó var löngu fyrir lát sitt búinn að taka hugmyndafræðilega forustu í heimi kommúnismans. Jafnframt hafði honum tekizt aó grafa svo undan virðingu Sovétríkjanna á þessu sviði, að þau bíða þess aldrei bætur. Menn líta nú á þau sem eðlilegt en óvenju heimsvaldasinnað framhald keisaraveldisins gamla.

Heimsspeki Maós er fjarlæg Íslendingum enda eru aðstæður verulega ólíkar. Íslendingar eru auðugir og búa við tiltölulega trausta hefð þingræðis og einstaklingshyggju. Ýmislegt í kenningum Maós er þó athyglisvert fyrir okkur og mætti vel nota hér á landi.

Lýðræði og jafnrétti myndu eflast hér á landi, ef áhrifamönnum væri skylt að stunda störf alþýðunnar í einn mánuð í senn til dæmis annað hvort ár. Þá mundu eflast tengsli þeirra við almenning í landinu. Hið sama er að segja um langskólagengió fólk og flesta þá, sem fara með mikil mannaforráð.

Ýmislegt slíkt getum við lært af Maó í því skyni að gera okkar eigið þjóðskipulag virkara en áður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið